Vertu velkomin/inn í 12 sporin andlegt ferðalag í Lágafellssókn

Við bjóðum haustið 2022 velkomið !

Haustið / veturinn 2022 verður eins og undanfarið boðið uppá andlegt ferðalag í anda Tólf sporanna í Mosfellsbæ. Sporin eru unnin eftir kerfi þar sem tekist er á við óuppgerðar tilfinningar. Flestum okkar hættir til að dragnast með slíkt í gegnum lífið með tilheyrandi þjáningum og ójafnvægi. Ekki er horft á fíkn sérstaklega. Kynningarfundur verður MIÐVIKUDAGINN 5. október 2022 kl. 19:30 og í framhaldi verða opnir fundir næstu 3 miðvikudaga á eftir. Eftir það er hópunum lokað en það er eðli þess starfs að það er unnið í lokuðum hópum þar sem trúnaður myndast til að takast á við óuppgerðar tilfinningar. Fundirnir eru haldnir í safnaðarheimilinu á miðvikudögum.

Vinir í Bata er hópur kvenna og karla sem hafa tileinkað sér 12 sporin – andlegt ferðalag. Hægt er að kynna sér samtökin á heimasíðu þeirra: www.viniribata.is

Á andlega ferðalaginu notum við bókina Tólf sporin – Andlegt ferðalag, sem er vinnubók og hún er persónuleg leiðsögn okkar til að öðlast skilning á andlegum krafti Tólf sporanna út frá kristnum viðhorfum.

Tólf spora bati er aðferð sem er hvorki á ábyrgð neins trúarhóps né safnaðar. Samt sem áður finna margir sem nota efnið að það samræmist þeirra eigin andlegu þörfum og trú. Það hefur engin opinber tráurtengsl. Það er samt sem áður aðferð sem hjálpar okkur að enduruppgötva og dýpka andlega þáttinn í okkur sjálgum.

Við komumst líka að raun um það í Tólf spora vinnunni að okkar andlega hlið er mikilvæg. Við lærum að lifa lífinu samkvæmt leiðsögn Guðs, okkar æðri máttar. Við verðum þess meðvituð að kvíðinn eða örvæntingin sem við finnum fyrir , er afleiðing þess að við horfum framhjá eða höfnum samfélagi við Drottin.

Unnið er í litlum hópum þannig að við lesum ewfnið heima, svörum þeim spurningum sem ákveðið hefur verið fyrir hvern fund og komum svo og deilum niðurstöðum okkar með hópnum. Lögð er áhersla á nafnleynd og trúnað. Enginn þarf að skilgreina sig fyrirfram, þ.e. við þurfum ekki að hafa nein skilgreind vandamál, fíkn eða slíkt heldur aðeins að langa til að auka lífsgæði okkar félagslega og tilfinningalega.

Í lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast með tímanum í sarpinn, atvik og tilfinningar sem erfitt er að vinna úr. Ég er þar engin undantekning þó svo að lengi vel hafi ég látið eins og allt væri í himnalagi hjá mér, ég höndlaði alveg lífið og tilveruna. En eftir því sem á leið, fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Mér fannst eins og eitthvað hefði slökknað innra með mér en ég vissi samt ekki hvað. Ég böðlaðist stjórnlaust áfram, ég þurfti jú að sjá fyrir mér og mínum, oft í aðstæðum sem ég réði ekkert við en áfram barðist ég og stóð mína plikt. Í þessu öllu var enginn tími til að huga að öðru og ég einangraðist, sinnti í engu mínum eigin þörfum. Það kom því að þeim degi að ég var orðinn algerlega uppgefinn og ómeðvitaður um eigin tilfinningar og þarfir. Mér leið eins og ég væri tilfinningalaus! Öll gleði var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég þurfti eða vildi. Mér fannst fólk ráðskast með mig bæði í persónulega lífinu og í vinnu, án þess að ég gæti rönd við reyst. Þó ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með af ótta við að vera hafnað. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ætlunin var.

Þegar svo var komið hitti ég gamlan vin sem hafði nokkrum árum áður staðið í svipuðum sporum. Hann lýsti hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum Tólf sporanna og náð tökum á því á ný. Með nýjum lífstíl var hann orðinn sáttur við sig og sína. Hann hvatti mig til að koma með sér á Tólf sporafund hjá Vinum í bata og athuga hvort ég finndi þar leið úr ógöngunum. Ég varð hissa því ég hélt að Tólf sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða.

Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í Tólf sporin. Nú eru liðin þrjú ár og ég er enn í þeim. Ég er sammála vini mínum um að þetta sé lífstíll sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu og finna gleðina á ný.

Hefur þú einhvern tímann velt fyrir þér að skoða lífið þitt og vinna úr óuppgerðum atvikum eða tilfinningum og bæta samskipti þín við annað fólk? Ef svo er ættir þú að skoða þessa leið.

Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa staðið í svipuðum sporum og tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr aðstæðum.

Unnið er eftir kerfinu Tólf sporin – Andlegt ferðalag og hefur það verið gert hér á landi  í meira en áratug. Ekki er horft á fíkn sérstaklega heldur er tekist á við óuppgerðar tilfinningar sem okkur öllum hættir til að dragnast með í gengum lífið með tilheyrandi sársauka.