Úrslit hugmyndasamkeppni um kirkju og menningarhús í Mosfellsbæ frá árinu 2009

verdl2Í tilefni af úrslitum í hugmyndasamkeppni um menningarhús og kirkju hefur dómnefndarálitið verið gefið út í bæklingi. Bæklingurinn inniheldur ávarp formanns dómnefndar, greinargerð um samkeppnina og niðurstöður hennar, myndir af tillögunum og umsagnir dómnefndar um þær. Bæklingurinn liggur frammi á sýningunni í kjarna og er til afhendingar þeim sem óska sérstaklega eftir því. Bæklingurinn er einnig aðgengilegur hér á heimasíðunni á pdf-formi, en vegna þess hversu stór hann er, er honum skipt niður í nokkra hluta.

verl3Arkitektastofan arkitektur.is hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um kirkju og menningarhús í miðbæ Mosfellsbæjar sem Mosfellsbær og sóknarnefnd Lágafellssóknar standa fyrir. Önnur verðlaun hlutu ASK arkitektar og þriðja til fjórða sætinu deildu Arkþing og PK arkitektar. Alls bárust 32 tillögur í keppnina. Fyrirkomulag byggingarinnar er með þeim hætti að um er að ræða eitt hús sem hýsir jafnt menningahús á vegum Mosfellsbæjar og kirkju og safnaðarheimili sem á vegum safnaðarins. Hér er því um einstakt og nútímalegt samstarf kirkju og sveitarfélags að ræða.

Á undanförnum árum hafa verið í umræðu tvær hugmyndir um byggingu menningarstofnana í miðbæ Mosfellsbæjar; annars vegar bygging menningarhúss og hins vegar bygging kirkju. Á árinu 2006 hófust síðan formlegar viðræður milli sóknarnefndar Lágafellssóknar og Mosfellsbæjar sem urðu m.a. til þess að gerðar voru ítarlegar þarfagreiningar fyrir nýtt menningarhús og kirkju í sameiningu. Í nýju menningarhúsi og kirkju ásamt nýju safnaðarheimili skapast vettvangur fyrir margþætta menningarstarfsemi í þágu samfélagsins, hvort heldur er í menningarhúsi einu og sér eða kirkjunni eða með samnýtingu allra hluta byggingarinnar. Þetta er í samræmi við viljayfirlýsingu Lágafellssóknar og Mosfellsbæjar sem undirrituð var þann 25. júní 2008. Í henni kom jafnframt fram að niðurstöður þarfagreininga skyldu nýttar sem grundvöllur að hugmyndasamkeppni um kirkju og menningarhús í Mosfellsbæ.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunatillöguna segir m.a.:  “Kirkjuskipið er sérlega áhugavert, þar sem samspil forms og birtu geta skapað töfrandi andrúmsloft, og tenging þess við safnaðarheimili og skrifstofur safnaðarins um ofanlýsta umgjörð undirstrikar hina sérstæðu lögun þess. Byggingin er nánast öll á einni hæð og samanstendur af þremur einingum: kirkju og tónlistarsal, bókasafni og myndlistarsal, sem tengdar eru saman um innri götu.” “Einstakir byggingarhlutar fylgja hæðarlegu svæðisins, fullt tillit er til tekið til Urðanna og formun, hæð og staðsetning kirkjuskipsins í suð-austurhorni lóðarinnar veldur því að byggingin myndar sterkt kennileiti í bænum.” Í ávarpi formanns dómnefndar, Haraldar Sverrissonar, bæjarstjóra Mosfellsbæjar, segir: “Dómnefnd var sammála um að innsendar tillögur væru áhugaverðar og fallega framsettar og þær fælu í sér fjölda eftirtektarverðra hugmynda um útfærslu á samnýtingarmöguleikum þeirra rýma sem um ræðir. Þá var athyglisvert að sjá hvernig til tókst í mörgum tillögum að virða sérstöðu Urðanna og láta bygginguna falla vel að umhverfi sínu, en um leið að skapa einstaka byggingu sem tekið yrði eftir. Ákveðið var að fjórar tillögur hlytu verðlaun en að auki fengi ein viðurkenninguna „athyglisverð tillaga“.”

Höfundar verðlaunatillagna og „athyglisverðrar tillögu“

1. verðlaun, kr. 4.000.000

Höfundar: Arkitektur.is: Carlton Hlynur Keyser, Gunnlaugur Magnússon, Haraldur Örn Jónsson, Hjörtur Hannesson, Kristján Garðarsson, Magnea Harðardóttir og Michael Blikdal Erichsen

 2. verðlaun, kr. 2.500.000

Höfundar: ASK Arkitektar ehf.: Þorsteinn Helgason arkitekt FAÍ, Gunnar Örn Sigurðsson arkitekt FAÍ, Valdimar Harðarsonarkitekt FAÍ, Páll Gunnlaugsson arkitekt FAÍ, Árni Friðriksson arkitekt FAÍ, Sigurlaug Sigurjónsdóttir arkitekt FAÍ

Aðstoð: Helgi Indriðason arkitektanemi og Rafn Hermannsson byggingarfræðingur BFÍ

 3. – 4. verðlaun, kr. 750.000

Höfundar: Arkþing ehf: Þórður Þorvaldsson arkitekt FAÍ, Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt FAÍ, Helgi Mar Hallgrímsson arkitekt FAÍ

Landslag: Landhönnun Slf. / Hermann Ólafsson landslagsarkitekt FÍLA

 3. – 4. verðlaun, kr. 750.000

Höfundar: PK Arkitektar: Pálmar Kristmundsson arkitekt og Fernando de Mendonca arkitekt

Aðstoðarmenn: Helge Garke arkitekt (þrívíddarmyndir) og Kristjana Margrét Sigurðardóttir arkitekt

„Athyglisverð tillaga“

Höfundar: Agnieszka Nowak arkitekt, Anna Leoniak arkitekt og Hildur Gunnarsdóttir arkitekt FAÍ