Kærleiksþjónusta er einn af mikilþægustu þáttum í starfi safnaða  og í henni birtist kjarni kristins boðskapar. Hugtakið kærleiksþjónusta er gjarnan notað um það sem kallað er náungakærleikur. Biblían leggur mikla áherslu á að menn sinni náunga sínum sem á einhven hátt þarfnast stuðnings eða hjálpar. Kærleiksþjónustan í kirkjunni er félagslegt starf þar sem Jesús Kristur er fyrirmyndin.

Kærleiksþjónusta Lágafellskirkju er í umsjón Rut G. Magnúsdóttur, djákna en hún verður í leyfi veturinn 2021-2022.
Best er að hafa samband við Ragnheiði Jónsdóttur, sóknarprest á netfangi hennar.

Heimsóknarþjónusta kirkjunnar

Heimsóknarþjónusta safnaðarins er viðbót við þá þjónustu sem bæjarfélagið lætur í té. Hún er unnin í sjálfboðnu starfi og kallast sjálfboðaliðar hennar heimsóknarvinir. Þjónustan er fyrir fólk á öllum aldri, í ólíkum aðstæðum. Hún er boð um mannleg samskipti en ekki sérfræðileg meðferð.   Markmið og tilgangur hennar er:að sýna kærleika í verki, að rjúfa einangrun um skemmri eða lengri tíma, að viðhalda tengslum á milli sóknarbarna og kirkjunnar með samfélagi og  fyrirbæn.

Þegar þjónustan er þegin kemur heimsóknarvinur einu sinni í viku í um það bil klukkustund. Heimsóknarvinur sinnir fyrst og fremst persónulegum tengslum svo sem með spjalli, upplestri bóka og blaða, gönguferðum og annarri dægradvöl.

Fyrirkomulag heimsóknarþjónustunnar

Umsjónaraðili kannar þarfir viðkomandi heimsóknarþega. Hann er ráðinn af sóknarnefnd og sér um daglegan rekstur verkefnisins. Hann stuðlar að tengslum milli húsráðanda og sjálfboðaliða. Umsjónaraðili heimsóknarþjónustunnar er í góðu samstarfi við heilsugæslu og félagsþjónustu bæjarins.
Heimsóknarvinur gerir samning um tímabundnar heimsóknir. Hann er sá sem tekur að sér heimsóknarþjónustuna og er undirstaða hennar. Hann skapar persónuleg tengsl og myndar vináttu. Heimsóknarþegi er sá sem heimsóknarþjónustunnar nýtur.

Þagnarskylda

Heimsóknarvinir eru bundnir þagnarskyldu um aðstæður þeirra sem þeir heimsækja. Hún er til verndar þeim sem heimsóttir eru.