Project Description

Bæn:

Ljúk upp hjarta þínu og tak

Á móti blessun jólanna:

Megi Kristur fæðast

sem trú í hjarta þér.

Megi Kristur fæðast

sem von í hjarta þér.

Megi Kristur fæðast sem kærleikur

í hjarta þér.

Náð sé með ykkur og friður frá okkar Guði og Jesú Kristi. Amen

Gleðilega jólahátíð!

Nú getum við hallað okkur aftur í öllum makindunum, látið okkur líða vel og notið þess sem er. Samverunnar með fólkinu okkar, einverunnar með okkur sjálfum, útiverunnar með hundi og hesti og því sem á vegi okkar verður.

Búið er að afhjúpa öll leyndarmálin sem lágu undir jólatrénu og spennu og eftirvæntingu er aflétt og gleðin fyllir rýmið.

Jólagleðin – finnur sinn farveg inn í hjörtu okkar manna, ekki vegna gjafanna, matarins, samverunnar eða einhvers í hinum ytri heimi.

Jólagleðin og friðurinn finnur sinn farveg til okkar samkvæmt óþekktu lögmáli Guðs. Það er eins og einhver töfraformúla sem við vildum þó gjarnan þekkja og geta beitt á öllum tímum og værum sennilega mjög gjafmild á, hefðum við hana í hendi okkar.

Guð lætur illa af stjórn, hans vegir eru, eins og við svo oft segjum, órannsakanlegir og á jólunum sannast það einna helst. Helgin, hið heilaga vaknar eins og úr dái í lífi og umhverfi manna. Óháð stað og stund og hver sem á í hlut. Á sjúkrabeði, í fangelsi, á fjarlægum framandi slóðum, í höll og hreysi upplifir maðurinn helgi og frið, sem verður til í hinu innra og ytra, í myrkrinu, í djúpi sálar. Augnablikið þegar allt er fullkomnað, fallegt, bjart og gott. Guð leyfir heiminum að finna að hann er lifandi, í lífi þínu og mínu.

Boðskapur jólanna (fyrir þeim sem hafa augu sem sjá og eyru sem heyra) er, að þegar þannig er komið fyrir heimi okkar mannanna eins og hann er í dag, þar sem víða er strítt við ógnir og öfgaöfl á mörgum sviðum mannlífs og þjóða, ̶ þá er endir á tvíhyggjunni, endir á því að deila lífinu upp í annaðhvort eða. Guð hefur gerst maður á jörð, er í okkur mönnunum. Við höfum ástæðu til að horfa í kringum okkur með undrun – þrátt fyrir allt. Við höfum ástæðu til að að vera snortin af hrifningu gagnvart hinum minnstu verkum skaparans: til dæmis þegar við bara stöndum úti í snjókomunni og finnum snjóflyksurnar bráðna á nefbroddinum, eða erum með störu á meðan við maulum í okkur gulrót eða höldum í hönd elskunnar. Það er allt undur – ekki bara það að við erum hér til að sjá þetta undur heldur það að nærvera Guðs er í hverjum andardrætti okkar hvers og eins.

Og hvað gerum við svo með það? Hvað svo? – má spyrja. Hvernig gæti sú upplifun, vitneskja og trú, breytt framkomu okkar við hvert annað til betri vegar?

Hvernig gætum við t.d. skilið betur hin sönnu verðmæti lífsins, náttúrunnar og lært að meta þau?

Hvers getum við vænst af okkur sjálfum í þá veru að halda í heiðri undrun okkar gagnvart sjálfu lífinu, náttúrunni, sköpun Guðs. Hvaða mörk gætum við sett okkar mannlegu græðgi og í staðinn sýnt lotningu og þökk fyrir þá gjöf Guðs, að hann gefur sig okkur?.

Unga, pakistanska stúlkan Malala hefur verið ofarlega í huga mér í lengri tíma. Malala er 17 ára. Hún hafði frá unga aldri tjáð sig um nauðsyn þess að stúlkubörn fengju að ganga í skóla og mennta sig til jafns við drengi í heimalandi sínu.

Í Pakistan, á því svæði sem hún átti heima var það ekki sjálfsagður hlutur.

Hún tjáði sig m.a. á netinu og náði þannig eyrum margra í heiminum og vakti með því von hjá mörgum stúlkum og foreldrum þeirra. Hún varð með þessum skrifum sínum rödd sem með tímanum varð ógn við ríkjandi ástand í augum öfgaafla, Talibana, ofstækisfullan trúarhóp sem kennir sig við íslamstrú. Einn dag fyrir tveimur árum, þegar hún var á leið heim úr skólanum, var skólabíllinn sem hún var í ásamt félögum sínum stöðvaður og vopnaður maður réðst á börnin. Skotmarkið var Malala og var hún skotin í höfuðið. Hún lifði tilræðið af og aðgerð sem gerð var að sárum hennar í Englandi, heppnaðist. Malala er merkt örum eftir ódæðið en heldur fullri andlegri og líkamlegri getu. Barátta hennar, rödd hennar og boðskapur, um skólagöngu stúlkubarna og menntun fyrir öll börn í heiminum hefur náð eyrum manna og snert djúpt.

Í byrjun desember var hún ásamt Kailash Satyarthi sæmd friðarverðlaunum Nóbels í Osló, fyrir baráttu þeirra gegn kúgun á börnum og ungu fólki og fyrir réttindum allra barna til þess að fá menntun.

Með þessari verðlaunaveitingu er viðurkennt að menntun barna sé einn af hornsteinum friðar í heiminum.

Í viðtali sem var birt við Malölu segir hún á einum stað eftirfarandi: „Ég átti tveggja kosta völ: Annar var að þegja og bíða eftir því að vera drepin. Hinn kosturinn var að tjá skoðun mína og vera svo drepin. Ég kaus seinni kostinn. Ég valdi að tjá mig, láta heyra í mér“.

Af orðum hennar má öllum vera ljóst að hún hefur helgað líf sitt baráttunni fyrir börnum.

Malala lifir Jólaguðpjallið, boðar heiminum fagnaðarboðskapinn. Þrátt fyrir ógnir dauðans valdi hún lífið og að gefa öðrum von og líf með orðum sínum. Hún valdi að tjá það sem hjarta hennar og sannfæring brann fyrir, að bæta hag annarra barna.

Malala valdi ekki þann kostinn að þegja, að láta undan þeim sem hafa það á stefnskrá sinni að murka lífið úr konum og stúlkubörnum og halda öllum mönnum í heljargreipum ótta og myrkurs. Það eitt að þegja leiðir til dauða, ekkert líf getur vaxið, orðið gott og gjafmilt sé það byggt á grunni þagnarinnar.

Á okkar tímum ólgar heimurinn og ódæðisverkin eru framin víða. Óhugur fyllir mann þegar fregnir berast af árásum á börn.

Í ljósi boðskapar jólanna, þegar við höfum myndina af jólabarninu fyrir hugskotssjónum okkar, þegar okkur er boðað að hið sanna ljós, sem vill upplýsa sérhverja manneskju, hafi komið í heiminn þá erum við ekki í vafa að það á erindi í heiminn.

Og þegar við heyrum lesið um að myrkrið tók ekki á móti ljósinu, þá er eins og talað sé inn í aðstæður heimsins í dag. Við megum engan tíma missa.

Það er mikið í húfi, sjálft lífið að hlúa að. Þess vegna sendi Guð son sinn í heiminn, gerðist maður í barninu, að við mættum trúa, játast því að kærleikurinn, umhyggjan, hans góði og uppbyggjandi lífsins kraftur er í öllu og sigrar allt. Malala og Satyarthi eru englar Guðs sendir okkur til að kenna okkur og áminna, og fá okkur til að skilja að maðurinn hefur val og verður að velja lífið og fylkja sér í hóp þeirra sem helga sig baráttunni fyrir því. Hinni góðu baráttu. Það tjáir kærleikshug. Sem þýðir að sýna hugrekki, að standa með sannfæringu sinni, að vera auðmjúkur gagnvart því undri sem lífið er, að setja sig í spor annarra og skilja að Guð er í okkar minnstu systrum og bræðrum, sem þarfnast okkar og við þeirra.

Það er ekki gert með öfgum: stríði, herafli, yfirgangi og valdi. – Leitaðu heldur eftir því og finndu hvað barnið kallar á í hjarta þér – það er leiðin, það er málið.

Menntun stúlkna til jafns við drengi, menntun fyrir öll börn í heiminum er eitt af mikilvægustu verkefnum sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag og hefur gert lengi. Gildi grundvallandi skólagöngu, læsi og almennrar menntunar, í baráttunni gegn fordómum og öfgaöflum er óumdeilanlegt.

Gerum hugrekki þessara engla og visku þeirra að fyrirmynd okkar, því að Guð hefur gefið okkur öllum sömu gjafir til góðra verka í þágu heimsins.

Þannig vill Guð að við berum jólaboðskapinn áfram inn í lífið, fullkomnum gleðina.

Að við tökum á móti lífinu, þínu og mínu og allra manna og dýra í Jesú Kristi, verndum og hlúum að því til vaxtar og þroska.

 

Ljúk upp hjarta þínu og tak

Á móti blessun jólanna:

Megi Kristur fæðast

sem trú í hjarta þér.

Megi Kristur fæðast

sem von í hjarta þér.

Megi Kristur fæðast sem kærleikur

í hjarta þér.

Megi það vera blessun þín og annarra manna í lífi þínu á hverjum degi.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen