”Börn ykkar eru ekki börn ykkar. Þau eru synir og dætur lífsins og eiga sér sínar eigin langanir. Þið eruð farvegur þeirra, en þau koma ekki frá ykkur. Og þó að þau séu hjá ykkur, heyra þau ykkur ekki til. Þið megið gefa þeim ástykkar en ekki hugsanir ykkar, þau eiga sínar eigin hugsanir.  Þið megið hýsa líkami þeirra, en ekki sálir þeirra, því sálir þeirra búa í húsi framtíðarinnar, sem þið getið ekki heimsótt, jafnvel ekki í draumi.  Þið megið reyna að líkjast þeim, en ekki gera þau lík ykkur. Því að lífið fer ekki afturábak og verður ekki grafið í gröf gærdagsins. Þið eruð boginn, sem börnum ykkar er skotið af eins og lifandi örvum. En mark bogmannsins er á vegi eilífðarinnar, og hann beygir ykkur með afli sínu, svo að örvar hans fljúgi hratt og langt. Látið sveigjuna í hendi bogmannsins vera hamingju ykkar, því að eins og hann elskar örina, sem flýgur, eins elskar hann bogann í hendi sér.”

Þessi orð spámannsins um börnin eru mér hugleikinn nú þegar ég velti fyrir mér hlutverki okkar sem foreldra,  þjóðkirkjunnar, íþrótta- og æskulýðsfélaga og annarra stofnana samfélagsins, gagnvart börnunum,  æsku landsins nú á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar.

Á 100 ára afmæli Ungmennafélagsins Aftureldingar,  sem einmitt var stofnað að lokinni messu hér í Lágafellskirkju og á 120 ára afmæli Lágafellssóknar, er vert að staldra við og spyrja okkur þess hvort okkur hafi orðið ágengt í því að skapa æsku Mosfellsbæjar skilyrði til þess að vaxa og dafna.  Það var ef til vill ein ástæða þess að ég óskaði eftir því við sr. Ragnheiði fyrr í vetur að þessar tvær stofnanir samfélagsins myndu eiga með sér stefnumót á þessum tímamótum.  Ég þakka henni og Lágafellssókn fyrir þetta tækifæri og vel valinn dag til þessarra stefnumóta, æskulýðsdag þjóðkirkjunnar.

Þið eruð farvegur þeirra en þau koma ekki frá ykkur.  Hvernig förum við að því að vera hinn rétti farvegur?

Það er ógrynni af fólki um kring

sköpun Guðs hvert með sérstakt hlutverk

öll við erum saman í symfóníu

;: við erum fegursta listaverk heimsins:;

Svona var sungið hér áðan um tónverk heimsins, sköpun guðs og hlutverk okkar allra, sem nótur í þessu tónverki.  Allt skiptir máli í þroskaferli æskunnar og því hlutverki samfélagsins að búa börnunum farveg til þroska.  Við erum öll nótur í tónverki lífsins.  Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í því að hlúa að kristilegu, siðferðilegu uppeldi og er ómetanlegur félagi í gleði og sorg á lífsleið okkar allra.  Íþróttafélagið stendur fyrir heilbrigðu líferni, lýðheilsu, keppni og leik og leggur sitt af mörkum við að byggja upp heilbrigða sál í hraustum líkama.  Skólarnir sjá okkur fyrir menntun –  og þroska með okkur rökhugsun og hæfileika til samskipta og tjáningar.  Listaskólarnir eru farvegur sköpunargleðinnar og listræns þroska. Skátarnir eru öllum hnútum kunnugir og kenna okkur að bjarga okkur –  og öðrum  –  og gera góðverk.  Svona má áfram telja.  Ekki má gleyma heimilinu, fjölskyldunni, foreldrum, systkinum, ömmu öfum, frændum og frænkum.  Í hugleiðingum okkar hjónanna um hvaða veganesti við höfum fengið frá okkar foreldrum í uppeldinu kemur upp að það dýrmætasta, sem þau gáfu okkur var að vera vinir okkar á jafnréttisgrundvelli – þau voru farvegur okkar en við komum ekki frá þeim.

Á aldarafmæli Ungmennafélagsins Aftureldingar réðst félagið í það stórvirki að gefa út sögu félagsins og ber bókin nafnið Dagrenningur, sem er samnefni með riti, sem félagið hélt úti á sokkabandsárum sínum og var dreift hér í einu eintaki bæ af bæ um svetirnar.  Í bókinni gætir ýmiss fróðleiks um það merka starf, sem forverar okkar í félagsmálum hér í sveitinni stóðu fyrir.  Rétt eins og við eigum það til að líta hornauga ýmis uppátæki unga fólksins í dag voru forkólfar Aftureldingar litnir hornauga fyrir að eyða tíma sínum í þetta félagsmála- og íþróttabrölt, þegar næg voru störfin heima á bæjunum til þess að sinna.  Svona breytast viðhorfin milli kynslóða til þess sem næsta kynslóð tekur sér fyrir hendur.

Þið megið hýsa líkami þeirra en ekki sálir þeirra, því sálir þeirra búa í húsi framtíðarinnar.

Á kvöldvökunni okkar á eftir ætlar annar höfunda Dagrennings, Bjarki Bjarnason, að rifja upp skemmtileg minningarbrot sem endurspegla það frumkvöðlastarf, sem unnið var í Aftureldingu á árum áður og hvernig viðhorf okkar og áherslur hafa breyst á þessarri heilu öld, en ekki markmiðin.

Það er engin ein leið rétt til þess að ala upp æskuna eða gefa henni það veganesti út í lífið, sem við viljum gefa.  Við höfum öll okkar hlutverk í því verkefni, allar stofnanir samfélagsins hafa það hlutverk fyrst og fremst að koma æsku landsins til þroska og skila landinu til hennar í ekki verra ástandi en við tókum við því frá fyrri kynslóð.

Þið eruð boginn, sem börnum ykkar er skotið af eins og lifandi örvum.

Stofnanir samfélagsis, foreldrarnir, fjölskyldan, leikskólinn, grunnskólinn, þjóðkirkjan, íþróttafélagið, listarskólinn, skátafélagið og aðrar stofnanir og samtök.  Þessar stoðir samfélagsins eru eins og boginn, sem skýtur börnunum áfram inn í hús framtíðarinnar, hús, sem við getum ekki heimsótt, jafnvel ekki í draumi.

Við höfum öll hlutverk í uppeldi barnanna, við erum öll nótur í tónverki lífsins.  Hljómum saman með æsku landins í lífsins symfóníu.