Náð sé með yður og friður frá Guð föður og Drottni okkar Jesú Kristi. Amen

Ljósmyndari: Heiðar Örn Ómarsson

Kæru kirkjugestir verið hjartanlega velkomin hingað í Lágafellskirkju og gleðilega hátíð.
Nú líður að enn einum tímamótunum, gamla árið er að kveðja og nýtt ár framundan með gömlum og nýjum áskorunum. Við höfum líklega flest tekið eftir því og þekkjum líka á eigin skinni að á áramótum finnst mörgum mikilvægt að setja sér háleit markmið fyrir nýtt ár. Oft eru þetta heilsutengd markmið, við ætlum að ná af okkur aukakílóunum með því að taka mataræðið í gegn, fara í ræktina, minnka eða hætta neyslu á einhverju óhollu. Þetta er allt gott og blessað og geta allir tekið undir það að bætt heilsa skiptir máli. Ég er til dæmis viss um að líðan mín og heilsa væri betri ef ég væri í minni eigin kjörþyngd en ekki í kjörþyngd Nonna frænda, sem er tvöhundruð og fjórir sentimetrar á hæð, stórbeinóttur og tekur hundrað og fimmtíu kíló í bekk. Það er aftur á móti þannig með mig, eins og fjölmarga, að markmið sem byggjast á því að hætta einhverju eða gera eitthvað róttækt hafa ekki dugað hingað til og er ég orðinn 56 ára gamall. Einhvern veginn rennur maður í sama farið, gerir sömu vitleysuna aftur og aftur og sekkur dýpra í vanann og í sófann.

Það sama á í raun við um allan vana, til dæmis hvernig við höfum vanið okkur á að hugsa, eiga samskipti við annað fólk, koma fram við aðra, reka fyrirtæki eða stofnanir og svo mætti lengi telja. Í raun er stórmerkilegt að við, eins skynsamar verur og við erum, skulum ekki alltaf gera það sem er gott fyrir okkur og aðra heldur oft það sem, til lengri tíma litið, kemur niður á öðrum eða líkamlegri og andlegri heilsu okkar sjálfra. Á sama tíma er það kannski ekkert svo undarlegt því það er í eðli manneskjunnar að spara tíma og orku, að stytta sér leið. Við skulum samt ekki gleyma þvi að í eðli okkar er sömuleiðis margt afskaplega gott og elskuvert. Spurningin er kannski, hvernig látum við það sem gott er og uppbyggjandi móta vanann?

Við getum alltaf valið okkur fyrirmyndir og besta fyrirmyndin er Jesús Kristur. Flest þekkjum við líka fólk sem veit að góð markmið byggjast á því að breyta til þegar eitthvað er ekki að ganga upp. Svona manneskjur eru góðar fyrirmyndir sem kunna að vega og meta árangur lokinna verka, atferlis þeirra sjálfra og samskipta við annað fólk. Þetta fólk er heldur ekki uppfullt af sjálfu sér, það festist ekki í hroka, frekju eða þrjósku og útilokar ekki tillögur annarra heldur hefur tileinkað sér opin huga og lausnarmiðaða hugsun. Svona fyrirmyndir setja sér áramótarheit sem felast í því að prófa eitthvað nýtt þegar eitthvað gengur ekki upp.

Já mikið væri það gott ef ég myndi sjálfur setja mér það áramótaheit að prófa eitthvað nýtt þegar eitthvað virkar ekki.

Í fyrra Korintubréfi standa þessi orð: Þess vegna, mín elskuðu systkin, verið staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Drottins. Þið vitið að Drottinn lætur erfiði ykkar ekki verða til ónýtis.

Það hefur hrikt í efnahagsstjórn landsins á árinu sem er að líða og hefur blessuð verðbólgan verið í hæstum hæðum allt árið. Skrítið fyrirbæri þessi verðbólga, hún er eiginlega eins og þaulsetinn vargur sem kemur reglulega í heimsókn á sveitabæinn og étur flest allar hænurnar.
Það er svo sama hvað bóndinn öskrar mikið og hátt á eftir tófunni hún kippir sér ekki upp við lætin í bónda enda hefur hún alltaf greiðan aðgang í hænsnabúið.

Kannski er ekki nóg að öskra bara á varginn, kannski þarf bóndinn að prófa eitthvað nýtt. Hann mætti alla vegana velta því fyrir sér hvort tilefni sé til að kíkja á næstu bæji og athuga hvernig staðan er þar. Hann gæti jafnvel lært eitthvað af því. Ég vil ítreka það að ég hef ekkert vit á landbúnaði og get því ekki leiðbeint bóndanum í þessum efnum. Ég kom aftur á móti að úthlutunum úr hjálparsjóði Lágafellssóknar til þeirra sem ekki ná endum saman fyrir jólin og ég verð að segja að vargurinn hefur fært sig upp á skaftið. Ég ætla að leyfa mér að hafa áhyggjur af því.

Já mikið væri gott ef bóndinn myndi setja sér það áramótaheit að prófa eitthvað nýtt þegar hlutirnir eru ekki að virka.

Í Kólossubréfinu standa þessi orð: Látið orð Krists búa með ykkur í allri sinni auðlegð og speki. Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum.

Erlendis ríkir ófriður og stríð með öllum þeim hræðilegu afleiðingum sem þeim fylgja.
Reglulega berast fréttir af tilgangslausum árásum á saklaust fólk og menn, konur og börn eru myrt á degi hverjum. Þetta er því miður ekkert nýtt og hafa stríð fylgt mannkyninu alla tíð. Tilgangur stríða og nauðsyn þeirra eru réttlætt með ýmsum hætti, oft með rétti þjóða til að verja sig. Munum það að stríð eru alltaf fullkomlega tilgangslaus og færa mannkyninu ekkert nema,
eyðileggingu, dauða, sorg og þjáningu sem áratugi eða aldir tekur að vinna úr.

Því miður er erfitt að ýminda sér hvað gæti dregið úr þessum endalausa ófriði en mikið væri það nú samt gott ef við, þjóðir heims, myndum endurskoða það hvernig leiðtoga við veljum okkur. Það er sorglegt að horfa reglulega upp á valdsjúka, sjálfselskandi brjálæðinga ná völdum eins og raunin er því miður svo víða. Það er löngu orðið morgunljóst að slíkir leiðtogar sökkva þjóðum í hyldýpi eðileggingar og dauða. Ég ítreka það að ég hef ekkert vit á pólitík og get ekki leiðbeint þjóðum heims um það hvernig þær eigi að hátta málum sínum. Ég hef aftur á móti, eins og flest öll heimsbyggðin, séð afleiðingarnar og ætla því að leyfa mér að vona.

Já mikið væri gott ef þjóðir heims myndu setja sér það áramótaheit að prófa eitthvað nýtt þegar hlutirnir virka ekki og velja sér kærleiksríka, lausnarmiðaða mannvini sem leiðtoga.

Í Matteusarguðspjalli standa þessi orð: Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

Framundan eru biskupskosningar í þjóðkirkjunni. Það eru vissulega tímamót sem margir horfa til. Undanfarin ár hefur umfjöllun um þjóðkirkjuna oft verið frekar neikvæð. Á sama tíma er haldið úti metnaðarfullu starfi í söfnuðum landsins og kemur fjöldi fólks að starfinu, bæði til að byggja upp og njóta. Flest bendir til þess að gagnrýni sú sem að kirkjunni beinist sé fyrst og fremst beint að stofnuninni sjálfri og skipulagi hennar. Ég ætla að leyfa mér að vona að nýjum biskupi beri gæfa til þess að flykkja fólki að baki þeim umbótum sem þurfa að eiga sér stað. Við gætum jafnvel fengið að fylgja bóndanum á næstu bæi til að sjá hvernig aðrir gera hlutina. Ég ætla líka að leyfa mér að vona að vígðir og óvígðir meðlimir þjóðkirkjunnar muni veita nýjum biskupi, hver svo sem verður valinn, stuðning við að leiða þjóðkirkjuna áfram, á tíma sem að mínu mati þarf sannarlega á kærleiksboðskap Krists að halda.

Já mikið væri gott ef kirkjan okkar myndi setja sér það áramótaheit að prófa eitthvað nýtt þegar hlutirnir virka ekki.

Í Orðskviðunum standa þessi orð: Dramb er falli næst, hroki veit á hrun. Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum. Vel farnast þeim sem vel rækir erindi sitt og sæll er sá sem treystir Drottni. Hinn vitri leitar ráða spekinga og vel mælt orð eykur fræðslu. Skynsemin er lífslind þeim sem hana á en heimskan er refsing heimskra.

Síðan í september á þessu ári hef ég fengið að njóta þeirra forréttinda að starfa í Lágafellssókn sem prestur í afleysingum. Það er talsvert síðan ég starfaði sem prestur og var þetta því kærkomið tækifæri fyrir mig til að dusta rykið af prestsskapnum og hempunni. Sem betur fer hafði ég ekki gleymt miklu í prestsskapnum en hempan hafði skroppið saman.

Það hefur gefið mér mikið að fá að starfa með því góða fólki sem heldur úti starfinu í sókninni og það er óhætt að segja að valinn maður sé í hverju rúmi og kærleikur, samheldni, þekking, reynsla, hæfileikar og metnaður einkenna starfsmannahópinn.

Það er mikilvægt fyrir Lágafellssókn og Mosfellsbæ allan að hafa gott og fjölbreytt safnaðarstarf og góðar aðstæður í sókninni til að geta áfram þjónað sóknarbörnum og bæjarbúum vel.
Mosfellsbær er bæjarfélag í örum vexti og má í gamni minnast þess að þegar Lágafellskirkja var vígð árið 1889 voru íbúar sóknarinnar einungis 403. Þegar komið var fram á miðja 20. öld hafði sóknarbörnum fjölgað um helming og voru orðin nærri 650. Í dag eru íbúar sóknarinnar um 13500 og mun fjölga á næstu árum.

Ég ætla að leyfa mér að vona að í náinni framtíð muni bætast við ný kirkjubygging til stuðnings þeim fallegu kirkjum sem hér eru. Slík kirkja myndi henta vaxandi safnaðarstarfi vel en ekki síst myndi slík kirkja henta fyrir stærri athafnir, svo sem fjölmennar útfarir sem nú þurfa að fara fram annars staðar en í Mosfellsbæ. Ég ítreka það að ég hef ekki hundsvit á húsasmíði eða kirkjubyggingum en ég ætla leyfa mér að vona að Lágafellssókn setji sér það áramótaheit að prófa eitthvað nýtt og geti því áfram þjónað sóknarbörnum sínum frá vöggu til grafar.

Í Matteusarguðspjalli standa þessi orð: Biðjið, leitið Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.

Kæru kirkjugestir, Ég ætla að setja mér eitt áramótaheit og það er að prófa eitthvað nýtt þegar hlutirnir eru ekki að virka í mínu lífi og jafnvel að koma niður á mér eða öðrum. Ég ætla leyfa þessu áramótaheiti mínu að fljóta yfir alla þætti lífs míns, vera í öllum bænum mínum og lita alla mína tilveru. Ég veit að þetta á ekkert endilega eftir að vera auðvelt, það tekur tíma að kenna gömlum hundi að sitja en það er hægt, ég hef átt marga hunda um ævina. Ég veit að ég mun gera lítil og stór mistök og ég mun örugglega detta í sófann þegar skynsamlegra væri að fara út að labba. En ég er jafnviss um að ég þarf ekkert að óttast því Guð er með mér og mun hjálpa mér að þroskast, finna nýjar lausnir á gömlum vandamálum og læra nýja hluti ef ég bara opna huga minn og hjarta fyrir honum.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Hugleiðing flutt Gamlársdag 31. desember 2023 í Lágafellskirkju
Sr. Hólmgrímur Elís Bragason þjónaði sem afleysingaprestur haustönnina 2023 á meðan sr. Arndís var í námsleyfi. Samstarfsfólk hans þakkar honum kærlega fyrir gott samstarf og með von um að hann snúi fljótt aftur til starfa á vettvangi kirkjunnar. 

Bogi Benediktsson

3. janúar 2024 13:19

Deildu með vinum þínum