Lágafellssókn er einn af söfnuðum Þjóðkirkjunnar sem er á grænni leið og vinnur markvisst að þeim skrefum að gera allt starfið umhverfisvænna – líka kirkjugarðana.

Kirkugarðar Lágafellssóknar eru þrír talsins: Að Lágafelli, eldri– og nýi Mosfellskirkjugarðar. Upp kom sú hugmynd að bjóða upp á flokkun á lífrænum úrgangi fyrir aðstandendur sem vinna að leiðum látinna ættingja sinna. Og það skref er hafið, nú er hægt að henda lífrænum úrgangi frá kirkjugörðunum í þartilgerðar merktar tunnur við sorpskýlin að Lágafelli og við nýja Mosfellskirkjugarð. Aðstandendur látinna í eldri Mosfellskirkjugarði þurfa hins vegar að láta sorptunnuna duga þar uppfrá í bili (er í vinnslu), fara með lífræna úrganginn/sorpið að nýja Mosfellskirkjugarði eða taka með sér heim.

Þetta er fyrsta (græna) skrefið í átt að því að taka í gegn sorp og endurvinnslumálin okkar. Á nýju ári er stefnan hjá okkur að skipta út stóru gámunum og setja tunnur fyrir almennt sorp, plast, pappa og lífrænt. Fyrst að Lágafelli og nýja Mosfellskirkjugarði en svo í framhaldi að eldri Mosfellskirkjugarði sem þarf öðruvísi útfærslu.

Við í Lágafellssókn vonum að þetta skref og næstu nýtist aðstandendum vel og verði nýtt á grænan hátt. Þessar tunnur eru einungis ætlaðar fyrir kirkjugarðana og starfsemi kirkjunnar.

Bogi Benediktsson

1. desember 2021 11:06

Deildu með vinum þínum