Í Lágafellskirkju er starfandi fyrirbæna og friðarhópur sem hittist einu sinni í viku. Bænahópinn stofnaði Þórdís Ásgeirsdóttir djákni í Lágafellssókn haustið 2001 og hefur hann starfað óslitið síðan.

Í byrjun árs 2015 kom sú hugmynd til Þórdísar, sem þá hafði látið af störfum hjá Lágafellssókn að nýta tíma sinn og sköpunarkraft til að prjóna trefla með íprjónuðu rósamynstri og merki krossins í miðjunni. Hvort tveggja táknar Jesú og frið Guðs í lífi okkar. Einnig prýða treflana línur sitt hvoru megin sem merkja jarðarbúa og sköpunarverkið allt sem okkur ber að umfaðma með útréttum friðarhöndum. Treflarnir eru alfarið hönnun Þórdísar og strax fyrsta árið lauk hún við 54 trefla sem nú prýða og hlýja eigendum sínum, en alls eru treflarnir orðnir ríflega hálft annað hundrað og hver trefill númeraður.

Fyrirbæna og friðarhópurinn hefur fært prestum Lágafellssóknar slíkan trefil og einnig fært sókninn bláa stólu. Í lok sumars kom Sr.Brynja Vigsdís Þorsteinsdóttir, prestur í Njarðvíkurprestakalli  á bænastund og tók við friðartrefli. Þá færði hópurinn biskup Íslands,  frú Agnesi M. Sigurðardóttur, fjólurauðan friðartrefill sem einnig má kalla Jesú- eða bænatrefil.

Friðar- og fyrirbænahópurinn kemur saman til fyrirbænastundar í Lágafellskirkju á mánudögum kl. 16.30, er öllum opinn og tekur gjarnan á móti nýju fólki. Meðfylgjandi eru ýmsar myndir frá starfi bænahópsins.

Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

25. september 2019 10:56

Deildu með vinum þínum