50 ára vígsluafmælis Mosfellskirkju í Mosfellsdal verður minnst á páskadag.
Hálfrar aldar afmæli endurreistrar Mosfellskirkju sem vígð var þ. 4. apríl 1965 eru tímamót sem verðugt er að fagna. Engin kirkjubygging hafði þá staðið að Mosfelli í 77 ár frá því að gamla timburkirkjan, sem síðast stóð þar, var aflögð og tekin niður árið 1888.
Þessara tímamóta verður minnst með hátíðarguðsþjónustu í Mosfellskirkju, páskasunnudag þ. 5. apríl n.k. kl. 14. Biskupinn yfir Íslandi, frú Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar, prestar safnaðarins sr. Ragnheiður Jónsdóttir og sr. Skírnir Garðarsson þjóna fyrir altari. Sigrún Hjálmtýsdóttir, sópransöngkona, syngur einsöng, Matthías Stefánsson, fiðluleikari, spilar ásamt organista og kór kirkjunnar. Formaður sóknarnefndar Runólfur Smári Steinþórsson flytur ávarp. Að athöfn lokinni verður öllum kirkjugestum boðið upp á kaffi og góðgæti í safnaðarheimili Mosfellsprestakalls að Þverholti 3, Mosfellsbæ.
Hægt er að lesa erindi Péturs H. Ármannssonar um kirkjubygginguna og erindi Bjarka Bjarnasonar um kirkjunar í dalnum hér á vefnum. Greinar um Mosfellskirkju. Þá er hægt að lesa um viðburði tengda afmælisárinu hér.

Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

1. apríl 2015 13:50

Deildu með vinum þínum