Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi, amen.

Í dag er sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur víðast hvar um land. Sjómennskan hefur skipað stóran sess í sögu og menningu Íslands og á sjómannadagurinn sér rúmlega 70 ára sögu. Hann var fyrst haldinn hátíðlegur í Reykjavík árið 1938 og er skilgreint markmiði dagsins að efla samhug sjómanna, kynna þjóðinni starf þeirra og minnast drukknaðra.

Sjómannadagurinn getur þó hæglega farið framhjá okkur hér í Mosfellsbæ enda lítið gert til að halda daginn hátíðlegan. Ástæðan er augljós, hér eru hvorki bátar né brygggja. En þrátt fyrir báta og bryggjuleysi búa sjómenn í Mosfellsæ og sjórinn hefur þegar tekið sinn toll í okkar bæjarfélagi. Daníel Valgeir Stefánsson, frændi minn, sem liggur grafinn hérna rétt fyrir utan gluggann, var einn þeirra ungu og efnilegu mosfellinga sem þjóðin hefur misst í hendur hafsins. Hann lést í sjóslysi árið 1984 aðeins 23 ára að aldri. Blessuð sé minning hans og allra þeirra sjómanna sem látist hafa í áranna rás.

Vafalaust velta fáir því fyrir sér í amstri hversdagsins hvað það felur í sér að vera sjómaður. Sjómenn búa á vinnustað sínum svo dögum eða vikum skiptir og geta hvorki skroppið burt né breytt um umhverfi. Þeir búa með skipsfélögum sínum í mislitlum vistarverum. Í matsölum þar sem er eldað , borðað , spilað, spjallað og horft á sjónvarp. En líka rifist og tekist á um misjöfn málefni. Gangarnir um skipið eru þröngir og dimmir, káeturnar litlar og loftlausar. Ofan á allt þetta bætist að skipið, sem er vinnustaðurinn og heimilið, er á stanslausri hreyfinu og drunurnar frá vélinni þagna aldrei. Á dekkinu og í vinnslunni ilmar svo allt af blóði , slori og söltum sjó, í bland við lykt af fiski og rökum fötum. Ef til vill er þetta helst til kaldranaleg lýsing á aðbúnaði og lífi sjómanna en eftir að hafa nokkrum sinnum heimsótt vinnustaði mannsins míns, sem er sjómaður, er þetta mín sýn á aðstæður sjómanna. Frá mínum bæjardyrum séð er sjómennskan alls ekkert grín.

Þegar sr. Ragnheiður fór þess á leit við mig að ég prédikaði hér í dag fannst mér það lítið mál því ég er guðfræðingur. En þegar hún minnist á að ég gæti haft eitthvað til málanna að leggja sem sjómannskona, varð ég hugsi. Er líf fjölskyldu sjómannsins svo frábrugðið lífi annarra fjölskyldna ? Ég verð að viðurkenna að ég er ekki viss.

Fjarvera sjómannsins frá heimilinu getur að sjálfsögðu tekið á, það veit ég af eigin reynslu. Það getur verið erfitt að sinna öllu sem snýr að heimili og börnunum án þess að geta hnippt í makann annað slagið og fengið hjálp. En að sama skapi getur það verið erfitt fyrir sjómanninn að missa af mikilvægum viðburðum í fjölskyldunni svo sem afmælisdögum eða öðrum uppákomum. Á tækniöld er fjarveran þó ef til vill ekki eins nýstandi og hún var áður því mikið af samskiptum okkar fjölskyldu fer fram í gegnum síma. En sjómannfjölskyldan á sér að sjálfsögðu líka gleðistundir því þegar fjölskyldufaðirinn kemur loksins í land er hann alltaf heima og aldrei þreyttur eftir erfiðan vinnudag.

Maðurinn minn og ég höfum reynt að kenna börnunum okkar að horfa frekar á jákvæðu hliðar sjómennskunnar en að velta sér upp úr þeim þeim neikvæðu. Og kannski höfum við verið einum of áköf í jákvæðninni. Þegar ég spurði börnin mín í vikunni hvað væri öðruvísi við að eiga pabba sem væri á sjó stóð ekki á svörunum. Sonur minn sagði strax; ,,Við eigum alltaf nóg af fiski og fiskur er mjög hollur“ og dóttir mín sagði umhugsunarlaust að pabbi hefði svo mikinn tíma til að vera með þeim systkinunum þegar hann er í landi. Þau höfðu greinilega alveg gleymt að oftast finnst þeim alls ekkert sanngjarnt að pabbi þeirra komi ekki heim á hverjum degi enda er vinsælasta spurningin á heimilinu er án efa, mamma, hvenær kemur pabbi eiginlega heim?

Þegar ég hugsa betur um hvað í því felst að búa með sjómanni geri ég mér grein fyrir að sambandið þarf að byggja á trausti og virðingu, þolinmæði og umburðarlyndi, samheldni og vilja til að deila ábyrgð. En er það ekki einmitt það sem öll hjónabönd og sambönd snúast um ?

Og hversu ólíkt er líf sjómannsfjölskyldunnar í raun ? Fjölskyldu mynstur íslendinga hefur nefnilega breyst töluvert mikið á síðustu árum. Sjómannsbörn eru ekki lengur einu börnin sem sjá ekki feður sína um lengri tíma því mörg börn búa alls ekki hjá feðrum sínum. Og sjómannskonur eru langt frá því að vera einu mæðurnar sem bera hitan og þungan af uppeldi, ummönnun og rekstri heimilisins. Það gera bæði einstæðar mæður og ekkjur.

Ég er oft spurð að því hvort ég sé ekki hrædd um manninn minn þegar hann er á sjó. Ég hef yfirleitt svarað af kæruleysi – ,,nei ekkert sérstaklega.“ Ég gerði mér þó óþægilega grein fyrir því í vetur að trúlega er svar mitt ekki alveg heiðarlegt. Dag einn, þegar maðurinn minn var á sjó, var barið heldur harkalega á dyrnar hjá okkur. Fyrir utan stóðu tveir einkennisklæddir lögreglumenn. Það fyrsta sem mér datt í hug var að eitthvað hefði komið fyrir manninn minn. Hjartað í mér tók kipp og mér fannst um stund eins og ég væri að missa mátt í öllum líkamanum. En lögreglumennirnir áttu, sem betur fer, við mig öllu léttvægara erindi – Það hafði verið kvartað yfir geltinu í hundunum okkar. En eitt andartak náði óttinn samt hressilegum tökum á mér og það var ótti sem ég hafði hvorki viðurkennt fyrir sjálfri mér né öðrum.

Óttinn er einmitt miðlægt stef í guðspjalli dagsins sem lesið var hér frá altarinu áðan. Lærisveinar Jesú í bátnum standa stjarfir frammi fyrir náttúruöflunum og óttast um líf sitt. Maðurinn minn hefur oft lýst því fyrir mér hversu háar og ógurlegar öldurnar verða þegar veðrið er vont á sjó og af þeim lýsingum er auðvelt að setja sig í spor lærisveinanna. En það eru ekki bara lærisveinar og sjómenn sem verða hræddir.

Stundum er talað um að óttinn sé ein af grunntilfinningum mannsins enda hefur hann mikil áhrif bæði á huga okkar og hátterni. Að sjálfsögðu hefur óttinn sýnar góðu hliðar. Hann forðar okkur frá ýmsu sem er okkur skaðlegt, en að sama skapi getur hann líka verið lúmskur og lamandi. Í okkar daglega lífi óttumst við ýmislegt án þess að gera okkur grein fyrir því. Við óttumst atvinnumissi, heilsubrest, og við erum hrædd um fjölskyldu okkar og nánustu vini.

Þess vegna stöndum við öll á einhverjum tímapunkt í sporum lærisveinanna og erum hrædd. Það er þó alls ekki víst að við munum alltaf eftir því að Jesús er með okkur í bátnum. Og þó við munum eftir honum frammi í stafni erum við alls ekki viss um hvort við eigum að vekja hann. Er óttinn nógu aðkallandi? Af hverju ættum við að biðja Jesú að hjálpa okkur? Hefur það einhvern tilgang? Er bænin einhvers megnug?

Áður fyrr var það fastur liður að sjómenn fóru með sjóferðabæn áður en lagt var frá landi. Í henni viðurkenndu þeir vanmátt sinn og veikleika skipsins og báðu Jesú að leiða sig á dýpið, vernda sig og blessa. Þannig viðurkenndu þeir ótta sinn og lögðu líf sitt og limi í hendur Guðs. Þó þessi siður hafi lagst af reiða sjómenn sig enn á trúna og bænina. Það sést best á því að í matsölum margra skipa hangir sjóferðabænin uppá vegg og í flestum matsölum er Biblía.

Í tilefni sjómannadagsins er athygli okkar beint að þeim hluta guðspjallanna sem fjalla að einhverju leyti um ógnir hafsins og þær hættur sem sjófarendur geta ratað í. En Guðspjall sjómannadagsins ber með sér dýpri og mikilvægari boðskap. Það minnir okkur á að Guð er alltaf nálægur, í öllum okkar aðstæðum. Guð er alltaf með okkur í lífinu og það eina sem við þurfum að gera er að vekja trúna sem býr í brjósti okkar og kalla á hann okkur til halds og trausts. Ef við tökum meðvitað ákvörðu um að hafa Guð í stafni lífs okkar getum við alltaf horft óhrædd til framtíðar. Kæri söfnuður, Gleðilegan sjómannadag.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi , er og verður um aldir alda. Amen.