redikanir – Predikanir
21. sunnudagur eftir þrenningarhátíð 12. október 2008
Innsetningarguðsþjónusta sóknarprests Mosfellsprestakalls
Lágafellskirkja – Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Við skulum biðja:

Vertu Guð faðir
Faðir minn
í frelsarans Jesú nafni
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.
Amen

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum og Drottni, Jesú Kristi. Amen

“Ég á mér draum” þessi orð voru niðurlagsorð einnar þekktustu ræðu síðustu aldar. Þannig lauk Marteinn Luther King, trúarleiðtogi og baráttumaður fyrir réttindum blökkumanna í Bandaríkjunum hvatningarræðu sinni árið 1963 til svartra og hvítra manna sem börðust fyrir friði og jafnrétti og almennum mannréttindum blökkumanna, – og það var ekki fyrir svo löngu síðan. Blökkumenn börðust t.d. fyrir því að fá sama rétt til menntunar og hvítir samlandar þeirra, mega aka með sama strætisvagni, ganga sömu megin á götunni, búa í sama hverfi, versla í sömu búðum og svo mætti lengi telja. Í ræðu sinni segist Marteinn Lúther King ekki trúa því að banki réttlætisins sé orðinn gjaldþrota.
Fórnarkostnaður þeirrar baráttu var mikill og vegurinn til sigurs þyrnum stráður.
Baráttan fjallaði um að sameina fólk, en ekki sundra, að rétta hlut þeirra sem kúgaðir voru, en ekki beygja, að viðurkenna gildi manneskjunnar óháð litarhætti, en ekki meðhöndla hana sem dauðan hlut eða söluvarning. Að frelsa, að friða, að elska, að virða, að byggja betri heim fyrir alla menn.

“Ég á mér draum” voru stór orð þá, svo stór að heimurinn stóð á öndinni.
Því – mátti hinn kúgaði maður eiga sér draum? Átti hann ekki svo marga drauma sem aldrei rættust og urðu að engu, að hann var löngu búin að gefast upp og hugsaði með sjálfum sér – “það þýðir ekkert”! “Hlutirnir breytast aldrei!”
Búin að gefast upp. Gefa upp alla von.
En Marteinn Lúther King gaf fólkinu sínu von. Hann gaf með orðum sínum, – fjórum, hversdaglegum, einföldum orðum, fólkinu sínu von – því hann leyfði sér að segja það sem allir þráðu en búið var að berja úr sálum þeirra.
“Ég á mér draum” og hann sagði þeim og okkur öllum hver sá draumur væri, að hann byggði á réttlæti og sanngirni, þeim grundvallargildum mannlegrar tilveru sem skráð voru í stjórnarskrá landsins.

Þessi ofur einfalda setning, þessi hversdagslegu orð, “Ég á mér draum” koma upp í huga mér þegar ég hugsa til þeirra atburða sem við Íslendingar höfum gengið í gegnum síðustu vikur, og þau koma einnig upp í huga mér núna þegar söfnuðurinn hér stendur á tímamótum og tekur á móti nýjum hirði. Orðin vísa fram á veginn, eru hvetjandi, full vonar og fyrirheita.
Þessi orð og boðskapurinn sem þeim fylgir og grundvallaður er á orði Guðs er tímabær á þessari stundu.

Draumar, kenningar og kerfi, hugmyndaheimar sem haldið hafa uppi fjárhagskerfi ekki bara Íslands heldur heimsins alls riða til falls. Aldan sem hefur skollið á okkur sem afleiðing þessa er það sem við höfum verið að reyna á líkama okkar og sál undanfarna daga. Óöryggi, vanmáttur og undran er það sem við höfum öll fundið til – margt hefur að einhverju leyti farið úr skorðum og enn sjáum við ekki fyrir endann á því hverjar afleiðingarnar verða fyrir einstaklinga, fjölskyldur og heimili landsins.
Breytingarnar geta orðið miklar um tíma, en hverjar þær verða nákvæmlega vitum við ekki fyrir víst á þessari stundu og það gerir okkur sem einstaklinga og þjóð viðkvæm og auðsæranleg. Aðgát skal höfð bæði í orði og verki – allra – við þurfum að byggja upp að nýju gagnkvæmt traust.

“Ég á mér draum” – ekkert afl getur tekið það frelsi frá manninum að eiga sér draum, að gera sér framtíðarsýn, að finna lífi sínu tilgang hvernig sem á stendur og hvernig sem árar. Þá náðargjöf Guðs fær enginn frá manninum tekið.
“Við eigum okkur draum” fyrir land okkar og þjóð, fyrir einstaklinga og fjölskyldur, fyrir börnin okkar og framtíð þeirra – er það ekki svo enn þrátt fyrir allt sem yfir okkur hefur dunið?
Hefur hann nokkuð breyst, – draumurinn okkar?
Hefur hann ekki einmitt orðið skýrari og greinilegri fyrir hugskotssjónum okkar í umróti og ólgu þessara síðustu daga?

Skyldi hann að einhverju leyti vera líkur þeim draumi eða þeirri þrá sem við mætum í fólkinu sem sneri aftur til heimalands síns eftir herleiðinguna til Babýlon forðum. Fólkinu sem fann lífi sínu tilgang að nýju, leitaði aftur heim og byggði nýtt samfélag, nýtt musteri á rústum hins gamla. Þau voru fólk Guðs, sem hlustaði og hafði orð hans að viðmiði og treysti á náð hans.

“Eilífð gleði fer fyrir þeim,
Fögnuður og gleði fylgir þeim,
En sorg og sút leggja á flótta..”

Er þrá okkar hin sama og bjó í brjósti konungsmannsins, sem segir frá í guðspjalli dagsins. Þráin eftir lífi, að eiga framtíð í barninu sínu, að sjá að lífið haldi áfram.
Konungsmaðurinn hafði fengið að reyna að hvorki völd né auður gátu bjargað syni hans frá dauða. Hann gekk fram fyrir þennan mann, Jesús, sem hann hafði heyrt getið um og sagt var að breytt hefði vatni í vín; þegar drykkjarföngin þurru í veislunni hafði hann umbreytt grunnefni lífsins í gleðiveigar svo að nóg var handa öllum og skömm gestgjafanna hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Og hvað gerði konungsmaðurinn? Jú, hann lagði allt líf sitt í hendur Jesú og bað.
Ekki er þess getið að konungsmaðurinn hafi verið sterkur í trú sinni og ekki var hann upptekinn af því að Jesús sannaði og opinberaði fyrir honum mátt sinn, gæfi honum áþreifanlegar sannanir. Það þvældist ekki fyrir honum hvort hann treysti því eða ekki að hann yrði bænheyrður. Hann var gjörsamlega ofurseldur þeirri þrá sem hvert foreldri þekkir, að lífið fái að halda áfram. Konungsmaðurinn hafði engu að tapa, það að hann gat komið fram fyrir Jesús og ákallað hann úr djúpi sálar sinnar og beðið um að sonur hans mætti lifa, var lífið.

“Við vitum öll að það sem skiptir okkur mestu máli er að við deilum lífinu, njótum þess að lifa saman, en séum ekki í endalausri samkeppni og átökum. Það er gömul speki frá Aristóteles að án ástvina myndi engin kjósa að lifa. Það sem mestu skiptir í mannlegum samskiptum og er svo dýrmætt fyrir okkur öll er að treysta hvert öðru og geta reitt okkur hvert á annað. Sem einstaklingar erum við veikburða verur, sem eru sífellt háðar því að þiggja stuðning og hjálp annarra.” Þannig kemst Páll Skúlason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands að orði í viðtali í Mbl. í gær.

Þegar við komum fram fyrir Guð, játumst honum og leggjum líf okkar í hans hendur, þá treystum við. Hvað gerist svo, vitum við ekki og getum engu um það ráðið, fremur en konungsmaðurinn sem fór aftur heim að fyrirmælum Jesú. En eins og hann höfum við fengið fyrirheit Guðs: hann gefur líf, gerir alla hluti nýja í lífi okkar. Hvernig? Það vitum við ekki.
Þess vegna höldum við “heimleiðis”, og höldum ótrauð áfram í okkar daglega lífi og í þeirri vissu að það verði opinberað okkur.
Á þeim vegi göngum við saman, sem fjölskylda, vinir, kirkja, þjóð – sem Guðs fólk, sem hann hefur valið og vill eiga samfélag við.

Og fólk Guðs á sér samastað, þar sem það staldrar við á göngu sinni, hlustar á orð hans, færir honum þakkir, biður og lofar dásemdir sköpunar hans. Það gerir það saman eða hver og einn með sjálfum sér, undir himinhvelfingunni eða í húsi Guðs, kirkjunni, á láði, í lofti eða á sæ hvar og hvenær sem er. Fyrir fólkinu hér í Lágafellssókn gengur hirðirinn, sóknarpresturinn, sem hér stendur og þau öll sem með honum þjóna og starfa og eru kölluð til. Hver hefur sitt hlutverk og sínar ólíku náðargáfur. Verkefnið er göfugt og um leið okkar allra, lærðra jafnt sem leikmanna og eins og það hefur verið í nær tvö þúsund ár að svara boði Jesú Krists sem segir: “Gerið allar þjóðir að lærisveinum og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðað yður.” Og að boða trú á hann og orð hans “sjá ég er með yður allt til enda veraldar”

“Ég á mér draum …” Hann hvílir á kristnum gildum eins og réttlæti, friði, þolinmæði, sannleika, frelsi, á kærleiksboðskap Jesú Krists, á trúnni á Guð sem elskar og fyrirgefur. Hann er skráður í “stjórnarskrá skírnarinnar”, ef svo má að orði komast, og býr í hjarta hvers kristins manns.
“Ég á mér draum …” fyrir fólkið mitt, söfnuðinn minn … að við leitumst eftir því, meir en nokkuð annað, að dýpka traust okkar og vinarsamband við Guð og þá um leið gagnvart okkur sjálfum og hvert öðru. Að fólk finni farveg fyrir trúarleit sína og trúariðkan í kirkjunni sinni.
“Ég á mér draum …” að traust vaxi innbyrðis milli okkar, að við tölum saman um það sem skiptir máli í lífinu, að við hlustum á hvert annað, að við sýnum hvert öðru skilning og virðingu og styðjum, óháð aldri, kyni, litarhætti eða kynhneigð, að því að réttlæti og sanngirni ríki á milli okkar.
“Ég á mér draum …” að hinir fullorðnu styðji börnin í trúarleit þeirra, bæði á heimilinu og í skólanum. Að allt ofbeldi, í hvaða mynd sem það birtist, bæði gegn börnum og fullorðnum, heyri sögunni til.
“Ég á mér draum …”, að ný kirkja og safnaðarheimili rísi, samfélagið styrkist, stækki og tengslin milli kynslóðanna eflist. Að samvinna við aðra fræðslustarfsemi, þjónustu og menningarstofnanir samfélagsins aukist.
Svona get ég haldið áfram og mun gera – en ekki nú.
Megi kirkjan og allt kirkjustarf hér í Lágafellssókn vera griðastaður samfélagsins okkar og veita okkur öllum þá andlegu næringu og það gjöfula líf sem við öll þráum í kærleika og vináttu.
Megi eilífð gleði fara fyrir okkur
Fögnuður og gleði fylgja okkur
og sorg og sút leggja á flótta.
Megi allir meðtaka í hjarta orð Guðs þegar hann segir:
“Ég er Drottinn, Guð þinn, þú ert lýður minn.”

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.
Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.
Amen.

Takið postullegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með okkur öllum. Amen