Prédikun flutt á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar en átti upphaflega að flytja á kristniboðsdeginum 14. nóvember 2021

Náð sé með þér og friður frá Guði skapara vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Árið er 563 f.Kr. í Nepal. Drengur hefur fæðst sem fær nafnið Siddhartha Gautama. Hann elst upp við allsnægtir en þegar hann var 29 ára gamall tók spurningin um orsakir þjáningar að angra hann. Í leit sinni að svörum yfirgaf hann allsnægtir sínar, konu og barn og gerðist flakkandi munkur… Hann leitað svara í sex ár og gekk á þeirri vegferð í gegnum allskyns sjálfspíslir. 35 ára taldi hann sig hafa náð að skilja leyndardóma mannlegrar þjáningar í hugljómun og varð þá Buddha.

Saga og kennsla Buddha er fengin úr munnlegri geymd. En hefðin segir hann hafa kennt að enginn guð skapari væri til og að manneskjur hefðu enga sál. Ópersónulegt andlegt efni fólks berst þó áfram í hringrás endurholdgunar. Hann sagði þjáninguna gegnsýra allt líf manna og ástæðu óánægju fólks vera Tanha, þ.e… þörfina fyrir viðurkenningu, efnisleg gæði og félagsleg tengsl eða samskipti… Því yrðu menn einmitt að forðast þörfina fyrir viðurkenningu, efnisleg gæði og félagsleg tengsl…

Fylgja varð göfugu áttföldu leiðinni, þar sem lögð var áhersla að hafna veraldlegu lífi, sýna öðrum virðingu og heiðarleika og stunda hugleiðslu til að slökkva á öllum tilfinningum eins og ást,  gleði og sorg. Fari menn eftir þessu geti þeir öðlast Nirvana sem slíti endanlega öll tengsl fólks við það sem bindir það lífinu, kröfum þess og þörfum eftir viðurkenningu. Nirvana þýðir sloknun eða að slökkva alveg á sér og allri sinni vitund um tilvist alls og meðvitund. Þannig öðlist menn lausn undan þjáningu…

Þegar við slökkvum á öllum okkar tilfinningum, þá finnum við ekki neitt, hvorki sársauka né gleði eða kærleika… og við sem persónur skiptum ekki lengur máli… Við erum bara þarna…

Eða… erum við…? Hvað er það að vera…? Að vera manneskja…?

Sagði ekki René Descartes: „Ég hugsa, þess vegna er ég…“?

Fyrir mér er það gersamlega ófært að slökkva á hugsunum mínum. Allra síst tilfinningum kærleika og væntumþykju til annarra… Og hvar sem er kærleikur og væntumþykja, þar er þjáningin eins og sjálfskipaður fórnarkostnaður kærleikans. Því við þjáumst er við missum þá sem við elskum…

U.þ.b. 800 árum fyrir tíma Buddha, hafði hópur Hebrea hröklast úr ánáð í Egyptalandi í stjórnartíð Ramsesar II. faraós og stofnað ríkið Ísrael. Móse sem leiddi Hebreanna úr Egyptalandi hafði á vegförinni fært þeim steintöflur með 10 boðorðum frá Guði…

Þessi sami Guð bauð þeim framar öllu að elska náungan eins og sjálfan sig…

Rúmum 1300 árum síðar ítrekaði Jesús frá Nasaret þetta boð um náungakærleika og útskýrði fyrir áheyrendum sínum að náungi okkar væri í reynd allt fólk… Hvaðan sem það kemur…

Fylgjendur Jesú trúðu að Jesús væri sá sem hin spámannlegu rit Gamla testamentisins höfðu boðað að myndi koma til að frelsa mannkyn frá synd og dauða og gefa eilíft líf hjá kærleiksríkum Guði. Að hann væri sendur frá Guði og væri sonur Guðs. Trúarsannfæring þeirra var í reynd svo sterk að þeir voru tilbúnir að yfirgefa allt öryggi sitt til að fylgja honum. Þeir urðu seinna meir tilbúnir að mæta ofsóknum, þjáningu og dauða fyrir þessa trú sína.

Þeir urðu óhræddir við þjáningu…  Þeir voru hinir fyrstu kristniboðar.

Í fyrra bréfi Jóhannesar postula segir: „Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann…“ Og einnig segir: „Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.“ (1Jóh 4.18-19)

Lærisveinar Jesú gengu fram í þessari trú. Þeir fundu að kærleikurinn gerði þá sterka, hugrakka og óhrædda… Þeir fundu kærleika Guðs til sín og kærleika sinn til náungans.

Þeir óttuðust því ekki frammi fyrir ofsóknum, þjáningu… og dauða…

Þessi sami kærleikur til náungans var einmitt drifkrafturinn til þess að fara út um allan heim og boða trúna á Guð, fagnaðarerindið um Jesú og náungakærleikann sem náði til allra. Í Jóhannesarguðspjalli 3.kafla og 16. versi segir: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.  Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann..“ (Jóh.3.16-17)

Þetta fagnaðarerindi varð að boða heiminum, því lærisveinarnir sáu eins og Buddah að heimurinn var undir mikilli þjáningu… Lausn þeirra við þjáningu heimsins var þó önnur… Hún var trúin á Guð og Jesú og trúin á eilíft líf hjá kærleiksríkum Guði. Einnig boðið um náungakærleika meðal manna sem gerði kröfu um að setja sig í spor annarra og vera til staðar og hjálpa nauðstöddum.

Páll postuli stofnaði margar kirkjur í kringum Miðjarðarhafið og leið miklar þjáningar á þeirri vegferð sinni eins og lesa má um í Postulasögu Nýja testamentisins. Hann hefði getað hætt trúboði sínu hvenær sem var en kærleikurinn til allra þeirra sem ekki höfðu öðlast hið nýja líf fyrir Jesú, var óttanum og þjáningunni yfirsterkari…

Í bréfi hans til Galatamanna sést að sá kærleikur sem hann boðaði náði til allra manna. En þar segir: „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“ (Gal. 3.28). Þessi hugsun var algerlega ný í hinu grísk-rómverska samfélagi sem einkenndist af mikilli kvenfyrirlitningu, stéttaskiptingu og vanvirðingu gagnvart þrælum, konum og börnum… En Kristur hafði sjálfur sagt: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðsríkið.“ (Mark.10.14). Kristin trú boðar að allir séu jafnir og jafn  mikilvægir frammi fyrir Guði.

Vegna þessa óttalausa kærleika sem náði til allra, þvert á stéttir, kyn, kynþátt og aldur, óx hin kristna kirkja hratt á fyrstu öldunum eftir Krist. Og það þrátt fyrir ofsóknir og ofbeldisfullar tilraunir rómverskra valdhafa til þess að kveða þessa kristnu hreyfingu niður.

Fólk heillaðist af óttaleysi og náungakærleika hinna kristnu…

Þegar plágur geysuðu hjúkruðu hinir kristnu þeim sem veikir voru á meðan veraldlegir valdhafar og aðrir flúðu af hólmi og skildu sína nánustu eftir til að deyja… Hin kristnu vitjuðu þeirra sem voru í fangelsi og gáfu þeim og öðrum þurfandi mat og klæði… Konur og börn nutu meiri virðingar og menntunar en verið hafði…

Kristnir lifðu þannig í sönnum náungakærleika til þeirra sem aðrir skiptu sér ekki af eða skeyttu ekki um. Fleiri og fleiri heilluðust því af hinum kristna boðskap. Á 4.öld var fjöldi kristinna orðinn það mikill að rómversk yfirvöld gáfust upp og sáu að farsælast væri að leyfa kristna trú…

Enn  í dag ferðast kristniboðar til landa þar sem mikil neyð ríkir meðal fólks. Þeir koma inn í samfélög þar sem fólk lifir í mjög miklum ótta. Það lifir í ótta við yfirvöld, ótta við sjúkdóma og dauða, ótta við illvætti, forfeðraanda og  galdramenn, ótta við ofbeldi ýmist frá óvinum eða meðlimum úr eigin fjölskyldu…

Þeir koma inn í samfélög þar sem konur eru eign manna frá vöggu til grafar og mikið ofbeldi gegn þeim og börnum er samfélagslega og trúarlega viðurkennt… Þar sem menntun, hreinlæti og heilsugæsla þekkjast varla og barnadauði er tíður og allt líf fólks einkennist af erfiðri lífsbaráttu vegna vatnsskorts og fæðuskorts… Kristniboðar leggja eigið líf í hættu og mæta erfiðum áskorunum, fjandsemi, hótunum og árásum frá illvígum hópum, ásamt baráttu við oft á tíðum óblíða og erfiða náttúru og sjúkdóma.

Bryndís vitnar úr bókinni: Afríkudætur eftir Hrönn Sigurðardóttur kristniboða.

Í dag minnumst við Kristniboðsins í Afríku sérstaklega. Því er vel við hæfi að lesa hér brot úr bók Hrannar Sigurðardóttur, Afríkudætur. En Hrönn fór ásamt eiginmanni sínum Ragnari Gunnarssyni sem kristniboði til Kenýu í Afríku árið 1996. Bókin gefur skýra mynd af þeim áföllum og hörmungum sem kristniboðar þurfa að mæta og horfa uppá…  Í bók sinni endar hún á hugvekju sem  ég ætla að lesa hér brot úr.

Tilvitnun hefst: 

„Ég bjó hjá ykkur í tæp átta ár,… Við ræddum málin, deildum dýrmætustu fjársjóðum hjartna okkar hver með annarri, leyndustu hugsanir, þrár og langanir komu í ljós… Ég kenndi ykkur, það var unun mín að kenna ykkur – hreinlæti, umönnun barna ykkar, bætt matarræði, meðferð sjúkdóma. Ég man hve hissa þið urðuð þegar ég talaði um kærleikann og að öll börnin ykkar þyrftu að finna að þau væru elskuð… Þið urðuð hissa, eins og alltaf, tókuð vel eftir og reynduð að tileinka ykkur nýja hugsun.

Ég veitti ykkur líka hlutdeild í því dýrmætasta sem ég átti – Jesú. Hann var svo nálægur okkur. Unun var að sjá hvernig hann breytti ykkur. Þið eignuðust nýtt líf, lausn frá ótta og angist, hræðslu og kvíða, lausn undan bölvun illu andanna sem þið höfðuð fórnað til – oft aleigunni. Jesús gaf hröktum sálum ykkar frið. Hann lét ykkur finna að þið voruð elskaðar og dýrmætar.

Ég sé ykkur fyrir mér, kæru systur, nokkrar hér og nokkrar þar, langt inni í sveitum og dölum Afríku… Umskornar á unga aldri, giftar einhverjum sem borgaði vel, fædduð börn ykkar undir kofaveggnum, þægindi, öryggi, vissa og vellíðan fannst ekki í lífi ykkar. Við bundumst vináttuböndum, þið sáuð mín börn vaxa úr grasi og ég fylgdist með börnum ykkar. Þau léku sér saman. Við glöddumst þegar vel gekk, hlógum saman og við grétum hver með annarri á sorgarstundum…

Margar ykkar sættuð kúgun og illri meðferð eiginmanna ykkar. Börnin fæddust annað hvert ár – sum lifðu, önnur dóu – sjúkdómar og matarskortur voru hlutskipti ykkar á þurri sléttunni. Líf ykkar var barátta og strit. Ég var stolt af ykkur þegar mislingafaraldurinn gekk yfir og börnin ykkar vektust hvert af öðru – þið brugðust rétt við, þið gáfuð þeim að drekka, – mikið að drekka – þó að þjóðtrúin bannaði það. Og fagnandi sáuð þið árangurinn.“

(Afríkudætur, frá bls. 135)

Tilvitnun lýkur

En ég… Ég skil samt stundum Buddah…, því það er svo þægilegt að leyfa sér að hörfa inn í sjálfan sig… Leita einskonar slökknunar þegar á móti blæs og við stöndum frammi fyrir nánast óyfirstíganlegum erfiðileikum eða sjúkdómum, sorgum og þjáningu, okkar eða annarra…  Ég skil líka leit hans að svörum við þjáningu… Við höfum öll verið þar…

En… Hvað er að vera manneskja…?  

Fyrir mér er það… að lifa í kærleika…

En ég hef líka verið svo heppin… að fá að kynnast kærleika Guðs… Ég hef fengið að reyna það hvernig kærleikur hans umvefur, styrkir, byggir upp og hrekur í burtu óttann… Hvernig trúin á eilífð án þjáningar gefur mönnum von… Ég hef fengi að reyna fórnfúsan náungakærleika fólks á eigin skinni… Ég hef fundið að það að vera til staðar fyrir aðra getur linað þjáningar þeirra

Þess vegna vil ég sjálf leitast við að vera boðberi þessa náungakærleika… Að vera boðberi Krists og kærleika hans…

Að vera… Kristniboði…

Hvað er annars að vera kristniboði…?

Varla er það hlutverk okkar allra að fara til fjarlægra landa með hinn kristna boðskap…? Við þekkjum samt flest einhvern sem hefur verið kærleiksljós í okkar lífi… Amma eða afi sem báðu með okkur…, vinurinn sem stóð með okkur á erfiðum tímum… eða jafnvel bara sá sem við mættum á förnum vegi er bjargaði okkur í neyð…

Samfélag okkar endurspeglar í reynd þennan kærleiksboðskap trúarinnar, því hvar sem erfiðileikar koma upp, hvar sem þörf er á hjúkrun, lækningu, björgun björgunarsveitar, slökkviliðsmanna og aðhlynningu líkama og sálar, þar er þessi fórnfúsi náungakærleikur að verki…

Við finnum það ef til vill sterkast á stundu sem nú, þegar bræður okkar og systur í Úkraíun standa frammi fyrir stríðsógnum.  Flest okkar vildu gera allt til að hjálpa þeim.

Við viljum flest vera boðberar kærleika Jesú í okkar lífum og styðja hvert við annað…  Ljós í myrkrum heimi sem lýsir öðrum veginn…  

Kristniboðar…

Höldum því ótrauð áfram á þeim kærleiksvegi og látum ljós okkar skína fyrir aðra. Hlúum að náunga okkar hvar sem hann býr…, hvenær sem færi gefst

Verum kristniboðar í þeim kringumstæðum sem mæta okkur hverju sinni…

Verum óttalaus í elskunni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

(Höf.  Bryndís Böðvarsdóttir, guðfræðingur)

Bogi Benediktsson

21. mars 2022 11:43

Deildu með vinum þínum