Hér fer á eftir ræða Michele Rebora sem hann flutti í Lágafellskirkju í tilefni af þjóðhátíðardegi íslendinga:

Komið þið sæl

Ég sé á svip sumra ykkar að þið voruð að biða eftir Michelle hér í púltinu: það gerist oft. En í stað hugglegrar franskrar stúlku sitjið þið uppi með þennan skeggjaðan Ítala…

Ég heiti sem sagt Michele og er frá Genúa, á Ítalíu. Fæddur og uppalinn í lítlu þorpi í fjöllunum á bak við þá miklu hafnarborg. Raunar er ættarnafnið mitt – Rebora – einmitt ættað úr þeim dal.

Hvað í ósköpunum er ég þá að gera hér í ræðustól Lágafellskirkju á þjóðhátiðardegi Íslendinga?!

Það er von að maður spyrji sig.

Ég er nú reyndar búinn að verja um það bil meirihluta ævi mínnar hér á Íslandi, giftur íslenskri dásemdarkonu og á fjögur íslensk börn. Ég ferðast með íslenskt vegabréf og hef oft kosið til forseta og til Alþingis. Ég tala meira að segja einhverskonar íslensku. Er ég þá orðinn Íslendingur? Veit ekki…

Konan mín er frá Laugarvatni. Við fjölskyldan höfum búið í Mosfellsbæ í 12 ár. Við förum í sund í Lágafellslaug og löbbum meðfram Varmá. Börnin okkar hafa gengið í leikskóla og grunnskóla hér í bænum. Yngstu börnin okkar tvö hafa aldrei búið neinstaðar annar. Erum við orðin Mosfellingar? Eru börnin okkar það? En bara þau yngstu? Hvað er að vera Mosfellingur?

Hvað er þá að vera Íslendingur?

Er það að vera fæddur á Íslandi? Tja, það útilokar nú flesta, nema kannski tófuna og hrafninn. Fyrstu „Íslendingarnir“ komu víst að utan…

Er það að búa á Íslandi? Varla bara. Íslendingunum finnst eiginlega of gaman að vera í útlöndum til að það sé satt –

Er það að vera hvítur á hörund, ljóshærður og bláeygður? Það þarf varla að fjölyrða um það.

Er það að tala íslensku? Nú hljótum að vera orðin heit. Jú, vissulega er tungumálið samofið sögu Íslands og menningu. Fjarsjóði landsins er ekki að finna í höllum og kistum heldur í handritum, við vitum það. Íslenskan er vissulega einn af þáttunum! EEEN hvað með „unga fólkið“, sem virðist ekki getað lesið sér til gagns, sem talar ensku sín á milli? Er þessi kynslóð þá dæmd til að vera ekki lengur Íslendingar?

Veit ekki. Ég veit náttúrulega ekki hvað þarf til til að vera Íslendingur. En ég get þó sagt ykkur frá sumu sem mér finnst einkenna það.

Sjálfstæði – mikið var að maður skyldi nefna það á sjálfum 17. júní! – en bíðið aðeins. Sjálfstæði er nefnilega oftast þýtt sem indipendence á ensku en mér finnst það ekki alveg ná réttri merkingu. Það að vera sjálfstæður þýðir ekki endilega að vera óháður, heldur að geta staðið sjálfur, á eigin fótum. Að klæða sig sjálfur í leikskóla, að byggja sitt eigið hús, að borga sína skuldir.

Það að geta staðið á eigin fótum gerir líka það að verkum að geta hjálpað þeim sem þurfa þess. Sem leiðir okkur til næsta atriði: samheldni. Íslendingar eru aldrei meiri Íslendingar en í neyð: í óveðri, í snjóflóðum, í að safna fyrir fyrrum skólasystkini sem er í kröggum.

Virðing fyrir einkalífi – alveg eins og maður gat geymt leyndarmálin sín undir koddanum í baðstofunni, fær nú hver að vera hann sjálfur, sem einstaklingur, í sínu einkalífi. Þá er viðkomandi ekki lengur ráðherra þegar hann verslar í Bónus eða Björk Guðmunds þegar hún fer í sund.

Friðsemd – það er ekki sjálfgefið að búa í landi sem á engan her; þar sem lögreglan er óvopnuð að staðaldri og leyfir krökkunum að sitja á mótórhjólinu sínu til að taka mynd til að senda ömmu; í landi þar sem ekki þykir eðlilegt að börn séu slegin.

Tiltrú ­­­– að vera ekki alltaf á varðbergi, að vera tilbúin að treysta náunganum, jafnvel þegar hann er að reyna að selja þér eitthvað drasl fyrir special price for you my friend…

Kæruleysi eða öllu heldur einhverskonar æðruleysi – þetta reddast! Jákvætt viðhorf til framtíðar en jafnframt raunhæf viðurkenning á því að maður getur bara svona mikið á móti óbilgjörnum náttúruöflum, að fyrr eða síðar mun stytta upp, að sama hve erfiður veturinn verður þá mun vora.

Já, það að vera Íslendingur er allskonar, og meira til.

Það sem er alveg klárt er að ekkert af þessu er sjálfgefið, ekkert kemur af sjálfum sér. Þessa eiginleika ber að varðveita. Til að vera Íslendingar þurfum við sennilega fyrst og fremst að vilja vera það, burtséð frá litarhafti, stærð, trúarbrögðum eða öðru.

Til hamingju með daginn!

 

Takk fyrir

Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

19. júní 2020 13:39

Deildu með vinum þínum