Dagskrá
Fundarsetning
Varaformaður sóknarnefndar Kristján Sigurbjarnarson setti fundinn kl. 20:10 vegna raddleysis formanns.
  1. Ritningarlestur og bæn
Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur las úr Efesus 4. Kafla
15Við eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur. 16Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.
Að lestri loknum leiddi hún fundarmenn í bæn.
  1. Kosning fundarstjóra og ritara
Stungið var upp á Jóni Þórði Jónssyni sem fundarstjóra og Hreiðar Erni sem fundarritara.
Sú tillaga var samþykkt með lófaklappi.
 
  1. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra
Hreiðar Örn las skýrslu stjórnar
Skipan stjórnar:
Sóknarnefnd síðasta starfsárs var skipuð eftirtöldum aðilum:
Aðalmenn: Hilmar Sigurðsson, Kristján Sigurbjarnarson, Svanhildur Þorkelsdóttir, Herdís Gunnlaugsdóttir, Karl E Loftsson. Jón Þórður Jónsson og Valgerður Magnúsdóttir. Varamenn: Helga Hinriksdóttir, Hólmfríður Arnalds, María Hákonardóttir og Kjartan Þór Reinholdsson, Elín Rósa Finnbogadóttir, Þórdís Sigurðardóttir og Páll Ásmundsson,
Stjórnin skipti með sér verkum á eftirfarandi hátt: Formaður Hilmar Sigurðsson, varaformaður Kristján Sigurbjarnarson , ritari Karl E Loftsson, gjaldkeri Svanhildur Þorkelsdóttir , safnaðarfulltrúi Valgerður Magnúsdóttir ig varasafnaðarfulltrúi Jón Þórður Jónsson.
Í framkvæmdanefnd voru: Formaður sóknarnefndar, varaformaður , gjaldkeri, sóknarprestur og framkvæmdastjóri safnaðarins.
Aðrar starfsnefndir eru: Byggingarnefnd nýrrar kirkju, fjáröflunarnefnd og kynningarnefnd, nefnd um stefnumótun og orgelnefnd.
Verkefni nýrrar stjórnar er að endurnýja umboð nefnda og endurskoða erindisbréf þeirra.
Fundarhöld:
Sóknarnefnd hélt fundi eftir því sem verkefni gáfu tilefni til svo og framkvæmdanefnd. Mest mun þó hafa mætt á byggingarnefnd, og gerir Kristján frekari grein fyrir þeim málaflokki hér á eftir í sérstökum dagskrárlið.
Rétt er þó undir þessum dagskrárlið að gera sérstaka grein fyrir bréfaskriftum sem forsvarsmenn sóknarnefndar áttu við bæjarstjórn Mosfellsbæja, og með leyfi fundarstjóra ætla ég að lesa fyrir fundinum bréf sem skrifað var þann 22. mars sl.sem varpar ljósi á umræður um byggingu nýrrar kirkju.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar,
Bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar
Kjarna Mosfellsbæ.
                                                                                                Mosfellsbæ 22. mars 2010.
Bréf þetta varðar afstöðu sóknarnefndar Lágafellssóknar um byggingu og staðsetningu nýrrar kirkju í Mosfellsbæ. Með vísan til erindis bæjarstjóra til Lágafellssóknar varðandi byggingu nýrrar kirkju í Mosfellsbæ og staðsetningu hennar innan deiliskipulags miðbæjar Mosfellsbæjar, viljum við með bréfi þessu lýsa afstöðu okkar um framtíðar staðsetningu byggingarinnar og þeim undirbúningi sem átt hefur sér stað og leitt hefur til þeirrar niðurstöðu, sem öllum er mál þetta varðar, er kunnugt um.
Mikilli vinnu og fjármunum hefur verið varið á undanförnum misserum og árum í undirbúning að byggingu nýrrar kirkju í Mosfellsbæ, vinna þessi hefur staðið nú í hart nær 11 ár. Á árinu 2004 sendi stjórn Lágafellssóknar erindi til Mosfellsbæjar þar sem óskað var eftir formlegu samstarfi sóknarnefndar og bæjaryfirvalda um kirkjubyggingu.
Erindi þessu var svarða þann 6. maí 2004. í svari bæjarfélagsins segir orðrétt:
„ Á 663. Fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 5. Maí 2004 var tekið fyrir erindi yðar varðandi ósk um formlegt samstarf sóknarnefndar og bæjaryfirvalda vegna áforma um kirkjubyggingu.
Bæjarráð fól bæjarstjóra og formanni skipulags- og byggingarnefndar að fara í viðræður við sóknarnefnd um erindi bréfsins .“
Á þessum fundum voru m.a. málefni kirkjubyggingar rædd og með hvaða hætti mætti t.d. samnýta safnaðarheimili og kirkju í Mosfellsbæ, bæjarfélagi og söfnuði til heilla. Í beinu framhaldi af þessum viðræðum var framkvæmdastjóra og formanni safnaðarnefndar falið að sækja formleg um byggingarlóð undir kirkjubyggingu í miðbæ Mosfellsbæjar, nánar tiltekið á lóð við Háholt. Bréf þessa efnis var sent bæjarstjórn þann 27. júní 2006. Allt frá þessum tímamótum hefur það verið ásetningur og vilji sóknarnefndar að kirkjan yrði byggð þar.
Að framgangi þessa hefur verið unnið sleitulaust síðan og til þess að innsigla þessa vinnu og allan undirbúning var undirrituð viljayfirlýsing milli Lágafellssóknar og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 25. júní 2008. Í yfirlýsingu þessari eru rakin ítarlega forsendur og markmið samningsaðila, er lúta að samleið um byggingu kirkju, safnaðarheimils og menningarhúss í miðbæ Mosfellsbæjar.
Við undirbúningsvinnu að miðbæjarskipulagi Mosfellsbæjar og í framhaldi af því sem áður er ritað hér að ofan var sóknarnefnd boðið að leggja sitt mat á 3 lóðir sem til greina gætu komið um lóð undir kirkjubyggingu:   
           
1.                         Lóð sem bæjarleikhús nú stendur á, þrengt hefur verið mikið að þeirri lóð og er það mat sóknarnefndar að sú lóð henti ekki sem byggingarlóð undir nýja kirkju.
2.                         Önnur hugmynd var lóð sem nú hefur verið ákveðið að byggja framhaldsskóla á,
3.                         Og svo lóð sú sem hefur orðið fyrir valinu við Háholt.
Sóknarnefnd fékk til liðs við sig nokkra valinkunna arkitekta til þess að aðstoða við val og mat á þeim kostum sem í boði voru. Niðurstaða var sú sem nú er uppi í skipulagi við Háholt, eins og áður er greint frá.
Í áður nefndri viljayfirlýsingu milli Lágafellssóknar og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 25. Júní 2008,
eru ákvæði sem kveða á undir fyrirsögninni : „ Markmið málsaðila.“ Að halda skuli samkeppni um hönnun húsnæðisins. Þann 2. sept. 2008 var Arkitektafélagi Íslands sent bréf þar sem þeim var falið af Mosfellsbæ og Lágafellssókn að annast um framkvæmd fyrirhugaðrar samkeppni um byggingar á lóðinni við Háholt í samræmi við útboðsgögn.
Þátttaka í samkeppninni var mjög góð og alls bárust 32 tillögur. Dómnefnd lauk störfum sínum og skilaði áliti þann 25. júní 2008. Dómnefnd ásamt ráðgjöfum dómnefndar var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka í meiri og minnihluta stjórnar Mosfellsbæjar, ásamt fulltrúum sóknarnefndar Lágafellssóknar og fulltrúum frá AÍ. Niðurstaða dómnefndar var einhuga.
Sóknarnefndir starfa samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem eru lög nr. 78 frá 26. maí 1997. Og sérstökum starfsreglum nr. 732 frá árinu 1998 um sóknarnefndir.
Kirkjuráð fer með framkvæmdavald í málefnum þjóðkirkjunnar, um störf kirkjuráðs gilda auk þess lög nr. 35. Frá 9. maí 1970 Lög um Kristnisjóð. Kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju hefur á hendi umsjá
Jöfnunarsjóð sókna og ber á honum ábyrgð. Hlutverk Jöfnunarsjóðs er m.a. það af veita styrki til nýbygginga kirkna. Eftir sem áður getur engin kirkjusókn ráðist í framkvæmdir við nýbyggingu án þess að kirkjuráð samþykki fyrir sitt leyti þá kostnaðaráætlun sem lagt er upp með í framkvæmdum.
Því er það nauðsynja mál fyrir Lágafellssókn að lokið verði við deiliskipulag á lóð þeirri við Háholt sem ætluð er undir kirkjubygginguna og úthluti henni í þeim tilgangi.
Nú liggur fyrir útreikningur á áætluðum framkvæmdakostnaði eins og hann liggur fyrir þar til ný og betri verður gerð, þegar byggingarnefndarteikningar liggja fyrir. Útreikningurinn er gerður af verkfræðistofunni Verkís.
Áætlun þessa ásamt staðfestingu á deiliskipulagi og byggingarlóð eru þær loka upplýsingar sem Lágafellssókn, ásamt með prófasti og sóknarpresti munu leggja fyrir kirkjuráð með það markmið í huga að Lágafellssókn verði veittur framkvæmdastyrkur í samræmi við það sem venja hefur skapast um í verklagsreglum kirkjuráðs er varðar nýbyggingar kirkna.
Samkvæmt því sem að framan er ritað má öllum vera ljóst, hver vilji og stefna sóknarnefndar Lágafellssóknar er í máli þessu, um það að kirkju verði valin staður við Háholt, eins og öll vinna á undanförnum misserum hefur stefnt að, því vekur það undrun okkar að enn skuli vera uppi ágreiningur um staðsetningu nýrrar kirkjubyggingar í miðbæ Mosfellsbæjar. Í okkar huga er staðsetning kirkjunnar ákveðin og ekki komi til greina að fara að hrófla við þeirri ákvörðun og fara aftur á byrjunarreit. Verkefnið er komið á framkvæmdastig og það mun kosta bæjarfélagið og sóknina stórfé, vegna útlagðs kostnaðar okkar, að ætla að draga sig út úr því núna og byrja allt ferlið upp á nýtt.
Undirritaðir vænta þess að framkomnar upplýsingar megi verða til gagns þeim er málið varðar.
Virðingarfyllst.
Hilmar Sigurðsson.                                   Kristján Sigurbjarnason.                        Hreiðar Örn Z    Stefánsson.
Formaður Lágafellssóknar.                      Varaformaður Lágfellssóknar.              Framkvæmdastjóri Lágafellssóknar
                                                                                Formaður Byggingarnefndar.
Eins og bréfið ber með sér skýrir það hvernig mál hafa gengið fyrir sig frá því sú ákvörðun var tekin að hefja undirbúning að byggingu nýrrar kirkju hér í bænum.
Dómnefndarálit dómnefndar um hugmyndasamkeppni um kirkju og menningarhús lá fyrir í júní 2009,allar tillögur arkitekta í samkeppninni voru hengdar upp til sýnis í Kjarna og voru þar í 10 daga almenningi til sýnis. Fyrstu verðlaun í samkeppninni halut tillaga frá Arkitektur.is en fyrir þeim hópi fara Carlton Hlynur Keyser, Gunnlaugur Magnússon, Haraldur Örn Jónsson, Hjörtur Hannesson, Kristján Garðarsson, Magnea Harðardóttir og Michael Blikdal Eichsen.
Ég vil þakka dómnefnd og aðstoðarfólki dómnefndar öllu fyrir frábæra vinnu og sérstaklega vil ég þakka þeim aðilum sem unnu af hálfu okkar safnaðarstjórnar fyrir alla þeirra vinnu sem unnin var án endurgjalds af þeirra hálfu. Dómnefndarálit liggur fyrir á skrifstofu safnaðarins fyrir þá sem vilja kynna sér það nánar.
Tveir fundir voru á árinu á vegum prófastsdæmisins, héraðsfundur og formannafundur, þessir fundir eru árvissir. Ennfremur átti sóknarnefnd fundi með fulltrúum kirkjuráðs, sem undirbúningsfund við framkvæmdir á nýrri kirkju.
Rekstur safnaðarins gekk vel á árinu og með nokkuð hefðbundnum hætti, niðurstaða ársreiknings fyrir árið 2009 verður kynnt hér á eftir. Helstu framkvæmdir á árinu voru:
Mosfellskirkja:
Gangstígur frá bílaplani að kirkjudyrum endurgerður. Verktaki: Sólgarðar / Guðmundur Ágúst Magnússon.
Aðaltafla rafmagns lagfærð og sett upp samkvæmt stöðlum eftir úttekt frá Frumherja.
Verktaki: Hreggviður Daníelsson, rafverktaki
Kross framan á Mosfellskirkju endurgerður: Umsjón/verktaki: Vélsmiðjan Sveinn, Mosfellsbæ.
Lágafellskirkja:
Viðgerð á þaki og turni fyrir Málun. Verktaki ÁG verktakar
Heilmálun á útveggjum Lágafellskirkju. Verktaki: Litalínan
Safnaðarheimili:
Barborð fjarlægt úr andyri – flöturinn flísalagður. Verktaki: ÁG verktakar.
Á árinu kom út sérstakt safnaðarbréf í tilefni 120 ára afmælis Lágafellskirkju, bréf þetta er einstök heimild um sögu kirkjunnar, ég vil sérstaklega færa höfundum hennar þeim Birgi D. Sveinssyni og Sigurði Hreiðari Hreiðarssyni kærar þakkir fyrir þetta.
Sr. Ragnheiður , sóknarprestur mun hér á eftir gera frekari grein fyrir safnaðarstarfinu hér á eftir undir sérstökum dagskrárlið.
Svo munu þar vera gerð sérstök grein fyrir störfum annarra í forsvari safnaðarstarfsins.
Að svo mæltu vil ég ljúka máli mínu um skýrslu stjórnar með því að færa öllum meðstjórnendum mínum bestu þakkir fyrir gott samstarf, svo og vil ég þakka öllu okkar góða starfsfólki þeirra störf í þágu safnaðarins á s.l. starfsári.
Hilmar Sigurðsson
  1. Kirkjubyggingarmál – Skýrsla kirkjubyggingarnefndar
Kristján Sigurbjarnarson, flutti skýrslu kirkjubyggingarnefndar
Byggingarnefnd er þannig skipuð: Kristján Sigurbjarnarson, formaður, Birgir D. Sveinsson, Jón Þórður Jónsson, Jónas Þórir Jónasson, Karl E. Loftsson, Már Karlsson,
Sr. Ragnheiður Jónsdóttir og Svanhildur Þorkelsdóttir
Frá síðasta Aðal Safnaðarfundi hefur það helst borið til tíðinda, að í júní 2009 lágu fyrir niðurstöður í hugmyndasamkeppni um byggingu Kirkju og Menningarhúss í Mosfellsbæ, en dómnefnd lauk störfum í byrjun júní 2009. Alls bárust þrjátíu og tvær tillögur, sem var vonum framar.
Í dómnefndinni voru:
Haraldur Sverrisson, formaður, fulltrúi Mosfellsbæjar
Hanna Bjartmars Arnardóttir, fulltrúi Mosfellsbæjar
Hilmar Sigurðsson, fulltrúi Sóknarnefndar
      Ólafur Sigurðsson, fulltrúi Arkitektafélagsins
      Ögmundur Skarphéðinsson, fulltrúi Arkitektafélagsins
Dómnefnd var einhuga í úrskurði sínum og niðurstaðan var sú að tillaga Arkitektur.is varð í fyrsta sæti, tillaga ASK arkitekta í öðru sæti og þriðja sætinu deildu tillögur Arkþings ehf og PK arkitekta.
Fyrir minn smekk hefur dómnefndin komist að réttri niðurstöðu í vali sínu og vinningstillagan er sérdeilis vel unnin og sérstaklega held ég að Kirkjubyggingin verði tilkomumikið kennileyti í miðbænum.
Mér fannst tillagan í öðru sæti einnig mjög áhugaverð og falleg. Munurinn á þessum tveimur tillögum er einkum fólginn í staðsetningu Kirkjunnar, en í tillögu ASK arkitekta er kirkjan staðsett í gagnstæðu horni lóðarinnar miðað við vinningstillöguna, norðvestur, en í suðaustur horni lóðarinnar í vinningstillögunni, og þar með meira í forgrunni í stað þess að vera svolítið eins og bakvið hús í tillögu ASK.
Þessar tvær tillögur báru af, þó að ýmislegt skemmtilegt væri að finna í mörgum hinna.
Eftir að niðurstaða var fengin í samkeppnininni fórum við í að gera kostnaðaráætlun.
Meiningin var að ljúka henni á haustdögum, en það dróst á langinn, og var hún gefin út á endanlegu formi í byrjun janúar 2010. Verkfræðistofan Verkís gerði þessa áætlun og gaf okkur alla þá vinnu. Kostnaðaráætlunin tekur til byggingarkostnaðar með lóðarfrágangi, að viðbættum 25 % í ófyrirséðan kostnað, hönnunar og eftirlits, en án fjármagnskostnaðar,
samtals með VSK kr. 2.246.794.498,-.
Fjármagnskostnaður á 2ja ára byggingartíma, er áætlaður rétt tæpar 230 Mkr.
Sé lóðarfrágangur tekinn út er kostnaðurinn kr. 2.019.766.410,-
Ófyrirséður kostnaður upp á 25 % er nokkuð vel í lagt, en þar sem verkefnið er ekki lengra komið og ekki liggja fyrir aðrar teikningar en afrakstur hugmyndasamkeppninnar, þótti okkur ekki verjandi að hafa þetta lægra, enda á verkefnið væntanlega eftir að taka einhverjum breytingum fram að þeim tíma að til framkvæmda komi.
Hæfileg óvissuprósenta í vel skilgreindum verkefnum er oft höfð15 %.
Ef við göngum út frá því, yrði niðurstaðan kr. 2.067.050.939, með lóðarfrágangi og án lóðarfrágangs kr. 1.858.185.098,-.
Arkitektarnir lögðu einnig fram áætlun um byggingarkostnað, 31. ágúst 2009, samtals að upphæð kr. 1.771.240.000,- Inni í þessari tölu er lóðarfrágangur en hvorki hönnunar eða eftirlitskostnaður.
Í kostnaðaráætlun Verkís er hönnunarkostnaður og eftirlitskostnaður um 14 %.
Sé þessu bætt við áætlun arkitektanna fást kr. 2.019.213.600,-
Virðisaukaskattsbreytingin úr 24,5 % í 25,5 % veldur 0,8 % hækkun og hækkun byggingarvísitölu frá ágúst 2009 til janúar 2010 veldur 3,2 % hækkun, eða alls 4,0 %, og þá er heildarkostnaðurinn kominn í kr. 2.099.982.144,- eða næstum sama tala og Verkís fengi með 15 % ófyrirséðu, þannig að ég tel að við séum á réttu róli með áætlun kostnaðar.
Í framhaldi af því að kostnaðaráætlunin lá fyrir, héldum við, Kristján, Hilmar og Hreiðar Örn, nokkra fundi með fulltrúum Mosfellsbæjar, Haraldi Sverrissyni, bæjarstjóra og Jóhönnu B. Hansen, bæjarverkfræðingi, í þeim tilgangi að ákveða næstu skref í undirbúningi væntanlegra framkvæmda, svo sem samninga um hönnunarvinnu.
Á þessum fundum var meðal annars rætt um hvernig standa ætti að hönnun Kirkju og Menningarhúss. Við höfum lagt á það áherslu að hanna verði þetta sem eina heild, þannig að fyrir liggi aðaluppdrættir af bæði Kirkju og Menningarhúsi, áður en farið er í framkvæmdir.
Ég fékk á tilfinninguna að Mosfellsbær vildi helst ekki leggja neitt í þetta í bili, þar sem ekki væri komið að framkvæmdum við þeirra hluta.
Arkitektarnir eru okkur sammála um nauðsyn þess að gera verði aðaluppdrætti af allri heildinni áður en deilihönnun fyrra áfanga og framkvæmdir hefjast. Allt annað sé ávísun á vandræði. Mér er enn ekki alveg ljóst hvort við náum þessu fram, en vona að svo fari.
Núna í byrjun maí hélt byggingarnefndin tvo fundi, þar sem farið var yfir kostnaðaráætlanir og drög gerð að skiptingu einstakra hluta Kirkju og Menningarhúss milli Lágafellssóknar og Mosfellsbæjar.
Niðurstaða þessara funda er sú að verkefnið sem heild skiptist nánast til helminga milli okkar og Mosfellsbæjar. Þessi skipting er fengin með því að skipta einstökum rýmum með tilliti til notkunar hvors aðila um sig. Þessi skipting er ekki endilega endanleg og þarfnast frekari umræðu.
Hvað varðar áfangaskiptingu, þá skiptist fyrri áfangi, sem er Kirkja, Skrifstofur og safnaðarstarf, Safnaðarsalur með tilheyrandi eldhúsi og snyrtingum og Tónlistarsalur, þannig samkvæmt hreinni skiptingu í fermetrum talið, að 92 % tilheyra Lágafellssókn og 8 % Mosfellsbæ, þar sem þeir eiga eingöngu Tónlistarsalinn.
Í síðari áfanganum, sem telur Bókasafn, Myndlistarsali, Veitingaaðstöðu, Götuna, geymslur og Bílakjallara ásamt lóð, snýst þetta nánast við, 8 % okkar megin og 92 % hjá Mosfellsbæ.
Geymslum, Bílakjallara og Lóð er skipt þannig að u.þ.b 40 % tilheyra Lágafellssókn og 60 % Mosfellsbæ. Sú skipting er ákveðin með hliðsjón af því, að þessir hlutir eru að einhverju leyti hluti af samgöngukerfi miðbæjarins.
Mér finnst liggja nokkuð við, að ákveða þessa skiptingu núna og fá Mosfellsbæ til að gangast inn á hana, áður en við förum á fund kirkjuyfirvalda að ræða þáttöku þeirra í kostnaði okkar.
Það hefur vafist nokkuð fyrir mér, hvernig hægt væri að koma fyrir aukinni þáttöku Mosfellsbæjar í byggingu fyrra áfangans. Við ræddum þetta lítillega á fundum okkar í Byggingarnefndinni, en frekari umræður um þetta þurfa að fara fram.
Kirkjubyggingin verður eitt aðal kennileita miðbæjarins, og Byggingarnefndin er sammála um að þó ekki nema fyrir þær sakir væri þáttaka Bæjarins í byggingu hennar nánast sjálfsagt mál. Auk þessa er fyrirsjáanlegt að Kirkjan og Safnaðarsalurinn geta þjónað marvíslegu hlutverki í menningarstarfsemi í bænum, sem enn styður þátttöku Mosfellsbæjar í byggingu þeirra. Þess ber að geta hér, að á hvorugum fundinum var Byggingarnefndin fullskipuð, þannig að skoðanir innan hennar kunna að vera skiptar í útfærslu þessa samstarfs.
Sé litið til þess að okkar hlutur í kostnaði við byggingu fyrra áfangans nálgast 900 Mkr. á móti tæpum 100 Mkr. Mosfellsbæjar, er ljóst að við eigum ekki hægt með að kljúfa þetta án frekari þáttöku bæjarins.
Eins og sjá má af ársreikningi kirkjunnar hér á eftir fyrir árið 2009, er ekki mikill afgangur.
Við höfum ekki viljað fara í frekari viðræður við Mosfellsbæ, núna rétt fyrir kosningar, enda virðist ekki einhugur um byggingu Kirkju og Menningarhúss í röðum bæjarfulltrúa.
Það sést best af tillögu minnihlutans nú á dögunum um að efna til skoðanakönnunar eða kosningar meðal Bæjarbúa um staðsetningu Kirkju.
Við höfum litið svo á að staðsetning Kirkjunnar sé ákveðin og þáttaka Mosfellsbæjar í hugmyndasamkeppninni staðfesti það.
Eitt af því sem hamlar frekari undirbúningi þessa verkefnis er, að lóðin er ekki enn komin í umsjá Mosfellsbæjar. Þar situr allt fast í málaferlum og alls óvíst hvenær botn fæst í það.
Mér finnst okkur vera nokkur vandi á höndum með að fara að stofna til kostnaðar með því að setja í gang hönnunarvinnu, nema að hafa einverja tryggingu fyrir því að Mosfellsbær standi við sitt hvað lóðina varðar. Eitt er alveg víst, að við fáum engar skuldbindingar fyrr en að loknum kosningum.
Gerð aðaluppdrátta kostar væntanlega um 35 Mkr. Þessi kostnaður myndi skiptast nokkurn veginn til helminga milli Lágafellssóknar og Mosfellsbæjar. Samfara gerð aðaluppdrátta þarf að fara fram einhver verkfræðihönnun, en ekki hefur verið leitað tilboða í hana enn sem komið er.
Mosfellsbæ, 12. maí 2010.
Kristján Sigurbjarnarson
        Spurt var nokkurra spurning / Kristján svaraði
a.( ) 1.5% munur er áætlunum er það ekki mikill munur?
 Jú en óvissuþátturinn er mikill, eða um 250 milljónir í öllu verkinu.
b.Myndi kostnaður bæjarins vera um 50% við bygginguna?
Já hlutur bæjarins er 50% enda hluti menningarhluta hússins á vegum bæjarins.
c.Hefur íbúum verið gefin kostur á að segja sitt álit á staðsetningu kirkjunnar.?
Bæjarstjórn sótti um lóð til bæjarins og bærinnúthlutaði okkur þessari lóð. Það hefði þá verið bæjarins að kynna hverjum hann úthlutaði lóðum undir hús.
d. Hefur byggingarnefnd og eða sóknarnefnd rætt þessi mál varðandi lóðina, eða lóðarleysi?
Jú þetta er okkar áhyggjuefni okkar allra.
e. Það kemur fram í skýrslunni að hagnaður safnaðarins sé ekki mikill á ýfirstandandi ári. Hefur kirkjan yfirhöfuð efni á þessari framkvæmd? Við vitum getum ekki svarað því á þessari stundu.
  1. Reikningar kirkju og kirkjugarðs
Kristján Sigurbjarnarson lagði fram  og fór yfir reikninga kirkju og kirkjugarðs fyrir síðastliðið starfsár. (sjá neðar).
Nokkrar spurningar og umræður voru varðandi reikninga. s.s verðbréf og fasteignir.
Óskað eftir því að á næsta aðalsafnaðarfundi verða skýringar látnar fylgja með ársreikningum næsta árs. Reikningar kirkju og kirkjugarðs eru til staðar á skrifstofu safnaðarins. Það er fyrirséð að sóknargjöld munu lækka nokkuð á næsta ári og mun sóknarnefnd fara nánar yfir áætlanir vegna lækkunar á tekjum safnaðarins.
Reikningar kirkju og kirkjugarðs ásamt skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra voru boðinn upp til samþykktar,og voru reikningar og skýrsla samþykkt samhljóða.
 
  1. Skýrslur
Sóknarprestur / prestur
Kæra sóknarnefnd, fundarstjóri og aðalfundargestir.
Í hirðisbréfi sínu, tjáir biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson í yfirskrift þess mynd af kirkjusýn íslensku þjóðkirkjunnar. Biðjandi, boðandi, þjónandi kirkja.
Kirkjan er biðjandi, biður til Guðs, söfnuðurinn leggur bænarefni sín fram fyrir Guð, í Guðs hendur, biður fyrir náunga sínum, samfélagi og einstaklingum.
Kirkjan er boðandi, boðar fagnaðarerindið, trú á Jesú Krist, á Guð sem er kærleikur, er réttlátur, Guð sátta og friðar.
Kirkjan er þjónandi, þjónar Guði og náunganum í nafni trúar á Jesú Krist.
Við þessa sýn má bæta – að kirkjan er kirkja þátttöku, sem kallar fólk á öllum aldri til virkrar þátttöku til að biðja, þjóna og boða.
Kirkjan er söfnuðurinn, hinn almenni prestdómur, sem til sín hefur kallað presta til að boða orðið og veita sakramentin og ráðið til sín starfsfólk, sem aðstoðar við að halda uppi lifandi safnaðarstarfi í samvinnu við sína presta og sóknarbörn.
Kirkjan er einnig umgjörðin, helgidómurinn þar sem við komum saman í tilbeiðslu okkar
og safnaðarheimilið og kirkjugarðarnir þar sem við leggjum okkar fólk til grafar að lokinni lífsgöngu sinni.
Söfnuðurinn hefur valið sér fulltrúa, sóknarnefndina, sem annast rekstur og framkvæmdir á vegum sóknarinnar og styður kirkjulegt starf í sókninni ásamt sóknarpresti og starfsmönnum sóknarinnar. Öll þau sem sitja í sóknarnefnd, vinna launalaust starf, eru sjálfboðaliðar. Það á einnig við um fjöldann allan af fólki sem býður kirkjunni þjónustu sína. Má þar nefna kórar og kórstjórar, aðstoðakona við fermingarathafnirnar, leiðtogar bænahópa, fólk á öllum aldri sem tekur að sér upplestur, aðstoðar við guðsþjónustu á margvíslegan hátt.
Í lifandi kirkju, virkri kirkju eru margir sem starfa saman, launað fólk og sjálfboðaliðar. Mannauðurinn er mikill og hefur að leiðarljósi að boða fagnaðarerindið, að boða í orði og gerðum mannúðlegt og réttlátt samfélag, sem byggir á kærleika, sem af sér fæðir ávexti trúarinnar, staðfestu, jöfnuð, frið, sátt, þolinmæði, gæsku, heiðarleika, þolgæði svo eitthvað sé nefnt.
Hlutverkið er stórt og ábyrgðin mikil, allir eru kallaðir til þátttöku og það er rými fyrir alla. Mannlegt samfélag, guðs barna, í fallvöltum heimi.
Við höfum borið því við hér í Lágafellssókn, að plássleysi, í kirkju og safnaðarheimili hamli vexti og möguleikum í safnaðarstarfi miðað við stærð safnaðar og þær kröfur sem nútíminn kallar á. Þau orð eru sönn, en ekki að öllu leyti. Aðstæður setja okkur vissulega miklar skorður og þörfin á meira rými fyrir athafnir og alm. safnaðarstarf tilfinnanleg.
Það er alltaf og undantekningarlaust erfitt að þurfa að vísa sóknarbörnum í aðra sóknarkirkju ef útför stefnir í mannfjölda sem kirkjurnar okkar geta ekki rúmað. En aðstæður eru einnig ögrun og gera kröfur á að finna möguleika og leiðir til úrlausna og finna gleði í því sem við höfum, ef maður velur svo. Er það von mín að okkur auðnist það um leið og haldið er vonina og stefnt að bætta okkar hag.
Hefðbundið helgihald hefur verið árið 2009 á hverjum helgum degi í söfnuðinum.
Í Lágafellskirkju allar sunnudaga að undanteknum síðasta sunnudegi í mánuði en þá er helgihaldið í Mosfellskirkju. Yfir sumartímann er reynt að aðlaga athafnir að því að kórinn er í sumarleyfi frá byrjun júlí og fram í miðjan ágúst. Er þá lögð áhersla á almennan safnaðarsöng með undirspili organista við guðsþjónusturnar.
Bænastundir eru annan hvern miðvikudag á Eirhömrum í umsjá okkar presta og hefur Jónas Þórir annast undirleik. Fyrirbænastundir eru í Lágafellskirkju á mánudagskvöldum, í umsjá Þórdísar Ásgeirsdóttur, djákna og er það í sjálfboðavinnu. Sama má segja um Kristna Íhugun, vikulegar stundir í safnaðarheimilinu á miðvikudögum, í umsjá Sigurbjargar Þorgrímsdóttur, leiðbeinanda. Því starfi tengdu eru Kyrrðardagar í Mosfellskirkju.
Lágafellskirkja fagnaði 120 ára afmæli á árinu 2009 og var hátíðarhöldunum dreift yfir viku með hátíðarmessu, gospelmessu og tónleikum o.fl. og gáfu allir sem komu að tónlistarflutningi vinnu sína – færi ég þeim hér enn og aftur kærar þakkir. Fræðslurit var gefið út í tilefni afmælis og dreift í hvert hús og kynningarbæklingur sem liggur frammi í kirkjunni. Það efni unnu Sigurður Hreiðar Hreiðarsson og Birgir D.Sveinsson
Messusókn hefur verið með ágætum. 13.622 kirkjugestir sóttu athafnir/viðburði sem við prestarnir þjónuðum í ásamt starfsfólki. Er það að meðaltali rúmlega 1100 manns á mánuði.
Í almennum guðsþjónustum voru kirkjugestir 4822 í 64 athöfnum.
Nýr prestur, sr. Skírnir Garðarsson tók til starfa í byrjun ársins 2009 og stuttu seinna fórum við prestar safnaðarins og launaðir starfsmenn í stefnumótunarvinnu. Okkur til hjálpar fengum við Gylfa Dalmann Aðalsteinsson, lektor í HÍ, sem hefur aðstoðað fleiri söfnuði í sömu vinnu. Óskastaðan var að fá sóknarnefnd og varamenn með, sem reynt var í tvígang en erfitt reyndist vera að finna tíma sem hentaði öllum.
Vil ég samt þakka sóknanefndinni fyrir samþykki sitt á því að finna þessa leið.
Þetta var góð vinna og mikilvæg, margt fengum við staðfestingu á, hverju við vildum halda og hverju við vildum gera breytingu á. Það skal tekið fram að hér er stefnumótun presta og launaðra starfsmanna og gefur þar af leiðandi ekki tæmandi mynd fyrir því hver hinn breiði vilji eða sýn um starfið er. Hefur þessi vinna verið kynt fyrir sóknarnefnd og kór kirkjunnar, sjálfboðaliðum í kærleiksþjónustu og að hluta til Íþrótta hreyfingunni.
Það voru 112 atriði sem við fundum fram til að við vildum halda fast við og/eða gera og af þeim nefni ég hér 12:
1.       Virkja “kóraflóru” Mosfellsbæjar inn í kirkjustarfið
2.       Hafa æskulýðsmessur
3.       Hafa æskulýðsfulltrúa sem hafi umsjón með öllu æskulýðsstarfi
4.       Breyta formi fermingarmessu
5.       Koma á messuhópum
6.       Efla safnaðarvitund
7.       Efla barnahópastarf
8.       Breyta og bæta formi og framkvæmd fermingarfræðslu
9.       Bæta safnaðablaðið, heimasíðu og virkja Mosfelling
10.   Syngja saman
11.   Samstarf við leiklistarfólk, kvöldvökur og fullorðinsfræðsla
12.   Nánara samstarf og tengsl milli starfsmanna og sóknarnefndarmanna
13.   Óhefðbundnar samverustundir til að tengja fólkið við kirkjuna
14.   Opið, einlægt og heiðarlegt samstarf allra sem að starfinu koma
Nokkuð hefur verið og er enn unnið að sumum þessara þátta, t.d. það sem tengist ferm. fræðslu og athöfn, óhefðbundnar stundir, þar má nefna skírnarguðsþjónustur, aftureldingamessa, kvöldsamverur að sumri, göngumessur, kyrrðardagar o.fl. Eins hafa kynningarmálin verið í brennidepli og má m.a. nefna síðasta brumið á þeirri grein, kynningarbæklingur til ferm.barna sem sendur var út á vordögum og fermingarbörnum og foreldrum þeirra boðið til kvöldguðsþjónustu komandi sunnudag, þar sem börnunum gefst færi á að skrá sig til fræðslunnar og velja fermingardag.
Fermingarfræðslan tekur mikið rými í safnaðarstarfinu yfir veturinn og sem hluta af fræðslunni er áhersla lögð á að virkja foreldra og börn inn í helgihald kirkjunnar. Tengsl við foreldra hafa verið efld gegnum netið. Sólarhrings ferð í Vatnaskóg var farin á liðnu hausti og tókst fádæma vel. Mikil vinna og gleði. Fengum foreldra með okkur sem gerði herslumuninn.
Lýsi ég ánægju minni yfir stuðning sóknarnefndar fyrir þessu starfi, sem gerði okkur kleyft að halda kostnaði í lágmarki.
Að vanda hefur áhersla á annað barna og unglingastarf kirkjunnar verið mikið, foreldramorgnar, sunnudagaskóli, kirkjuskóli, TTT og æskulýðsstarfið. Umsjónamenn eru Hreiðar Örn og Arndís Linn. Þar kemur organistinn einnig að, sérstaklega í sunnudagaskólanum.
Þátttaka hefur verið góð að undanskildu í TTT starfi sem er í endurskoðun. Ennfremur er verið að vinna að stefnumótun fyrir þennan hluta safnaðarstafsins. Tölur eru mikilvægar og má nefna að í TTT, sunnudagaskóla og æskulýðsstarfið hafa “heimsóknir” verið 3857 yfir árið og er þá ekki meðtalin ferðalög. Foreldramorgnar voru 40 skipti, sótt af 740 heimsóknum (einstaklingum). Má í því sambandi nefna að því starfi líkur seinnipartinn í júní, einnig í ár vegna óska foreldra.
Kirkjuskóli er í Lágafells – og Varmárskóla og var því starf komið á vegna fyrirspurnar frá foreldrum og skólunum og erum við mjög ánægð með þá tengingu, það er í umsjón Arndísar Linn.
En eins og þið vitið vonandi flest þá er í báðum skólum Vinarleið sem djáknarnir Fjóla og Þórdís annast og alfarið á vegum skólanna. Um allt þetta starf ríkir mikil og góð sátt og á sér langa hefð.
Kórastarf fyrir börn, má segja að hefjist nú hjá kirkjunni næstum við skírnarfontinn. Krílasálmar fyrir börn á aldrinum 0-2 ára, söngva og hreyfinámskeið og kór í báðum skólum fyrir yngstu aldurshópana undir leiðsögn Berglindar Björgúlfsdóttur, tónlistarkennara og söngvara hefur verið starfsrækt og hið síðastnefnda í samvinnu við sveitafélagið. Hafa börnin í kórnum tekið þátt í helgihaldi kirkjunnar og haldið tónleika m.a. í sundlauginni. Vonum við að þetta starf fái að halda áfram.
Samstarf við stofnanir og félagssamtök í söfnuðinum hefur verið gott og gefandi á árinu. Má þar nefna að guðsþjónustur hafa verið í Víðinesi og hefur kórinn og organisti fylgt okkur prestum í þeirri þjónustu. Færum við þeim hér með þakkir.
Nú er verið að leggja Hjúkrunarheimilið að Víðnesi niður og við búin að syngja okkar síðustu messu þar á umliðinni Páskahátíð. Verðu eftirsjá að því starfi, en vorboðinn í ár tjáði okkur væntanlega byggingu hjúkrunarheimilis hér í bæ. Leikskólaheimsóknir og skólaheimsóknir í kirkju eru árlegur viðburður á aðventunni.
Safnaðarheimili okkar er þétt setið alla daga vikunnar og mjög gleðilegt. Skrúðhúsið á Lágafelli er einnig nýtt til annarra hluta, þar eru Al – alanon með fjölmenna fundi í hverri viku.
Nú er þetta orðinn töluverð upptalning, en sem vonandi gefur mynd af því safnaðarstarfi sem er í gangi hér í söfnuði Lágafellssóknar. Ég hef látið það ógert að minnast sérstaklega á kirkjukór Lágafellssóknar og starf organista, þar sem það er í hans höndum að gefa skýrslu. Mun hún fylgja hér í lokin.
Ramminn, byggingarnar sem við höfum eru vel nýttar, þó má skoða til framtíðar hvernig nýting á Mosfellskirkju megi eflast með stækkandi samfélagi í dalnum og þeim einstöku möguleikum sem sú kirkja og umhverfi býður upp á. Bygging nýrrar kirkju og safnaðarheimilis er þáttur sem hefur verið á döfinni lengi og stefnt er að. Á meðan hún er ekki orðin til, þá notum við einnig vel krafta okkar til að hlúa að því sem við höfum.
Í öllu starfi innan sem utan kirkju er mikilvægt að traust, heilindi og trúverðugleiki ríki í samstarfi. Það er mikilvægur grunnur fyrir opinni umræðu og skoðanaskiptum þar sem virðing ríkir, sem við eigum að temja okkur.
Þjóðkirkjan stendur á tímamótum, eins og allt samfélag okkar og verður eins og allar stofnanir samfélagsins að endurskoða sína stöðu og skera niður vegna skerðingar á sóknargjöldum – það þýðir einnig lækkun á tekjum fyrir okkar sókn. Margar sóknir berjast í bökkum vegna skulda. Ef við endurskoðum ekki rekstur okkar í Lágafellssókn virðist stefna í halla og því brýnt að fara í gegnum fjármál sóknarinnar til að forða þeirri stöðu.
Kirkjan, sem samfélag er einn líkami, en hver hluti líkamans hefur sínu hlutverki að gegna, skýrt, afmarkað hlutverk í samofinni heild. Við erum ólík, höfum ólík hlutverk, saman vinnum við sem ein held að sama markmiði – að boða fagnaðarerindið, að þjóna Guði og náunganum.
Dýrmætast er kærleikurinn til Guðs og náungans, allt fólkið sem endurspeglast í huga þess til kirkjunnar sinnar og þess samfélag sem það er hluti af, vill hafa mótandi áhrif á og taka virkan þátt í. Við erum öll kölluð , kölluð til þátttöku, þjónandi, boðandi og biðjandi.
Ég þakka sóknarnefnd, starfsfólki kirkjunnar, kórnum, sr.Skírni og öllum þeim sem beint og óbeint hafa komið að starfinu fyrir samstarfið .
Bið ég þess að góður Guð sameini hugi okkur í kærleika sínum og leiði á hans vegi, öllu starfi okkar til farsældar og söfnuði okkar til blessunar.
            Ragnheiður Jónsdóttir
Sóknarprestur
Mosfell 12.05.2010
Skýrsla organista 2010 fyrir árið 2009.
Hljóðfæramál:
Orgelið að Lágafelli var yfirfarið á síðasta ári af Björgvini Tómassyni orgelsmið og stillt. Það er í góðu standi. Flygillinn í safnaðarheimilinu er líka í góðu standi og litla orgelið að Mosfelli hefur staðið sig bara vel.
Kirkjukórinn :
Eins og vanalega þá stóð kirkjukórinn vaktina sína af stakri prýði og samviskusemi. Það verður fullseint þakkað það starf sem kórmeðlimir inna af hendi og það sem er gaman og ég kann vel að meta er að makar eru mjög miklir þátttakendur í ýmsu varðandi kórinn.
Veturinn 2008-2009 fór í að undirbúa Kanadaferð í júní 2009. Við ákváðum að vera með blandað tónlistarefni , ekki bara íslenskt og það má segja að þetta hafi hitt beint í mark. Með okkur fór raddþjálfarinn okkar , hún Hanna Björk Guðjónsdóttir og stelpurnar okkar Sigrún og Eva Björg Harðardætur spiluðu á fiðlu og á lágfiðlu. Það hefði mátt heyra saumnál detta þegar að Sigrún spilað stefið úr The Schindlers List eftir John Williams. Þetta var tvímælalaus ein besta kórferð sem ég hef farið og það var þessi ljúfa vinátta og samhugur sem ég met svo mikils í þessu starfi okkar. Hafið kærar þakkir fyrir yndislega ferð.
Safnaðarstarfið :
Lágafellskirkja átti 120 ára afmæli og það var haldið upp á það á ýmsan hátt. Ég fékk vini mína Egil Ólafsson og Sigrúnu Hjálmtýsdóttur , Diddú til að halda ókeypis tónleika í kirkjunni með mér sem tókust mjög vel. Á æskulýðsdaginn fengum við Óskar Einarsson ásamt hóp að halda Gospel – messu. Óskar stýrði þessu og undirbjó tónlistina og gerði það allt ákaflega skemmtilega og kröftuglega. Þessi helgistund var haldin í matsal Lágafellsskóla og verður í minnum höfð. Okkar safnaðarstarf er alltaf að stækka og við öll að reyna að koma á móts við og þjónusta safnaðarfólkið okkar. Eins og vanalega er Lágafellskirkja vinsæl til brúðkaupa og skírnarathafna og er það vel. Hún er yndislega falleg kirkjan okkar og inn í henni er notalegt að vera og mikil helgi yfir öllu. Þannig viljum við líka hafa þetta en samt hamlar það mikið starfinu hvað þetta allt er dreift. Ekki veit ég hvort við sjáum fram á betri tíma og nýja byggingu í bráð. Ég vona það og bið að svo megi verða því að það yrði þvílík lyfitstöng fyrir allt safnaðarstarfið.
Nú hef ég sótt um eins árs launalaust leyfi frá 1. júni að telja. Ástæður þessa eru nokkrar og aðallega sú að ég hef starfað hér í 12 ár og lengstan tíma með sr. Jóni sem var og er mikill vinur minn.
Á síðasta ári var farið í þó nokkra vinnu svo kallaða “ Stefnumótvinnu“. Út úr því komu margar góðar og gagnlegar hugmyndir sem ég held að muni nýtast í starfinu okkar. Allar breytingar eru þó þannig að þær gerast hægt og ekki á hraða ljóssins. Þannig á það eftilvill að vera. Við eigum að halda í hefðir sem hafa skapast en líka vera með opinn huga fyrir hvað betur má fara og hvað við getum gert betur . Ég held að við sem störfum fyrir ykkur kæra safnaðarfólk séum öll þannig að við viljum gera vel og þjóna þessum söfnuði af heilhug.
Ég þakka sr. Ragnheiði , sr. Skírni , Hreiðari , Sigríði og Arndísi Linn fyrir öflugt ár og bið góðan Guð hinn hæsta höfuðsmið himins og jarðar að vaka yfir starfinu okkar og gefa að það blómstri.
Jónas Þórir
Kantor
  • Djákni – Fjóla Haraldsdóttir
Skýrsla djákna í Mosfellsprestakalli  2009 – 2010
Starf mitt er 25%,  sem aukið var um 5% á árinu. Það felst að mestu leiti í samfélagsþjónustu kirkjunnar – heimsóknaþjónustu .
Heimsóknaþjónusta:
Í dag eru fjórir virkir sjálfboðaliðar, sem hver um sig heimsækir einn einstakling. Tveir sjálfboðaliðar eru „óvirkir“ hafa áhuga, en skortir tíma. Heimsóknarþegar eru  ca. tólf, sem fá heimsókn að lágmarki einu sinni í mánuði. Heimsókn er fyrst og fremst samkomulag milli sjálfboðaliða og heimsóknarþega.
Sjálfboðaliðar hafa í vetur sótt tvö námskeið, annarsvegar í sálgæslu sem ætluð er sjálfboðaliðum í kirkjulegu starfi og hinsvegar námskeið í skyndihjálp.
Tengiliðir í mínu starfi eru: Félagsþjónunstan, Vallý og aðrir sem koma að samfélagsþjónustunni hér í bæ. Samstarfið er með ágætum. Kirkjan er bakhjarllinn.
Prjónasamverur/verktakavinna:
19. nóvember 2009 var fyrsta prjónasamveran. Meðaltal á hverri samveru eru átta konur. Í vetur höfum við fengið leiðbeiningar meðal annars á rússnesku hekli, sértæku sjalaprjóni og ermaprjóni . Kvenfélagskonur komu í heimsókn til okkar í byrjun árs og kynntu  húfuverkefni kvenfélaganna.  5.maí s.l. fórum við í heimsókn á prjónasamveru Kjalnesinga.  Ætlunin er svo  að taka á móti þeim í vetrarbyrjun.
Framtíðarsýn:
1)     Það er mér mikið kappsmál að fá fleiri einstaklinga í sjálboðið starf heimsóknarvina. Í samfélagi okkar eru margir sem eiga við erfiðleika að stríða. Til þess að kirkjan geti vaxið í þessari þjónustu þarf hún fleiri til þessa kærleiksríka starfs.
2)    Ósk mín er að fá fleiri konur á prjónasamverur. Boð kirkjunnar með húsnæði er til fyrirmyndar og öll aðstaða góð til þesskonar samveru. Nýlega mætti ég á fund (6.maí) kvenfélagsins og nefndi við nokkrar konur, að gaman væri að fá þær sem áhuga hafa á handavinnu til að sameinast okkar hóp. Það er greinilegt að þar á bæ er áhugi  meðal nokkurra kvenna, að hafa prjónasamverur . Ég lít svo á að betra sé að reyna sameina hópanna, frekar en að vera í einhverskonar samkeppni.
Þær konur sem sótt hafa prjónasamverurnar í vetur hvetja kirkjuna til að halda þessum samverum áfram.
Mosfellsbæ 11.maí.2010
Fjóla Haraldsdóttir, djákni í Mosfellsprestakalli
  1. Önnur mál.
1.       Kemur kirkjan á þessum tímum að vanda fjölskyldnanna?
Þó eru nokkrir sem sækja til okkar vegna þessa vanda. Þeim er vísað til Hjálparstarfs kirkjunnar sem sér um þá aðstoð fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Ef þau úrræði duga ekki þá erum við í samstarfi við félagsmálayfirvöld og líka ein og sér og við aðstoðum það fólk sem til okkar leitar. Við höfum fengið peningagjafir sem notaðar eru sérstaklega til aðstoðar til þeirra sem aðstoð þurfa á  að halda.
Fundarstjóri sleit fundi kl 22:15

Guðmundur Karl Einarsson

12. maí 2010 18:42

Deildu með vinum þínum