Í nýútkominni ævisögu Þórhalls Bjarnarsonar sem var biskup Íslands fyrir einni öld er rifjuð upp bernskuminning sem hlýtur að kalla fram einhverjar svipaðar reynslusögur með lesendum. Þórhallur ólst upp í Laufási við Eyjafjörð og þar gerðist atvikið sem sagan segir frá þegar hann var 12 ára. Hann hafði það verk með höndum á vorin að vaka yfir túninu á nóttinni og verja það fyrir búfénu. Þá er það eina nóttina sem eftirfarandi atvik gerist og hann lýsir svo:

 

„Hvítasunnunótt eina – ég var þá á að giska 12 ára – var ég að vanda í góðu veðri að klifra niður í sjávarbökkunum eftir teistueggjum og komst fyrir holu, sem teistan var inni í og náði þannig bæði teistunni og eggjunum, og var það óvanalegur fengur. Ég setti vængjabragð á veslings teistuna, svo að hún gat eigi flogið, og ætlaði heim með hana til að sýna fólkinu, þegar það kæmi á fætur, hvílíkur veiðigarpur ég væri. … Ég hélt nú heim til bæjar með fuglinn og eggin og er ég kom heim í hlaðið, kemur Anna fóstra mín út … „Líttu á“, sagði ég og rétti fram teistuna hróðugur. Hún stóð við og mælti: „hvað er þetta“. Kallaði ég þá hið fljótasta upp og mælti: „ég náði teistinni og eggjunum með“. „Nú, ég hélt ekki að þú værir svona grimmur og gráðugur, að ræna fyrst fuglinn eggjunum og taka hann svo sjálfan og það á sjálfan hvítasunnumorguninn… Nægði þér ekki að taka eggin? Farðu drengur minn með fuglinn ofan að sjó og slepptu honum þar, og mundu eftir því að það er óláns vegur að fara illa með skepnurnar.“ Ég labbaði niðurlútur niður að sjónum. Ásakanir samviskunnar, sem áður var á báðum áttum, lögðust ásamt hinum alvarlegu áminningum fóstru minnar þung á hjarta mitt og ég bað Guð af hjarta að fyrirgefa mér meðferðina á teistunni…“

 

Þessi frásögn sýnir okkur inn í hugarheim lítils drengs, sem hrekkur upp við að innra með honum býr einhver dýpri vitund um lífið. Það er vitund um að allt líf sé mikils virði og ekki sé sama hvernig maður umgengst lífríkið. Þar hefur lítill fugl á hreiðri einnig atkvæðisrétt og þar er umgengni mannsins við litla teistufjölskyldu mælikvarði á hans eigin mannúð og mennsku. Þegar upp er staðið snýst málið ekki um teistuna heldur um hann sjálfan, um sjálfsvirðingu hans og sjálfsmynd.

Við gætum orðað það þannig að hér hafi einn þeirra atburða gerst í lífi Þórhalls Bjarnarsonar sem átti eftir að móta lífsviðhorf hans, hér var hann minntur á hver hann væri innst inni, og ennfremur: hvað það væri að vera manneskja. Héðan í frá gat hann ekki staðið gegn þeim sem minni máttar voru, né neytt aflsmunar þegar hinir smáu börðust fyrir lífi sínu, jafnvel þótt það væri lítil teistufjölskylda úti í náttúrunni.

Önnur svipmynd, einnig um sjálfsmynd og samvisku ungra drengja, kemur mér í hug og langar til að deila með ykkur. Um síðustu helgi – reyndar á siðbótardaginn 31. okt. – sýndi sjónvarpið verðlaunakvikmynd (Leiðtogaskólinn) sem fjallaði um stráka í síðari heimsstyrjöld. Þeir voru í sérskóla skammt frá Berlín, sem rekinn var af nasistum. Þessir ungu menn áttu að verða úrvalssveit og færir í flestan sjó. Sagan segir frá einum þeirra sem var valinn vegna framúrskarandi hæfileika í hnefaleikum. Hann þáði boð um að koma í skólann þrátt fyrir eindregna andstöðu og sorg foreldranna.

Reynsla hans í skólanum gerði hann að sjálfstæðum og hugsandi manni. En það var ekki vegna þess að hann fylgdi hugmyndafræðinni sem var ríkjandi í skólanum, heldur vegna hins gagnstæða: vegna þess að hann gerði uppreisn gegn henni. En fyrir áhrif annarra, foreldra hans og vinar, sem hann kynntist í þessum skóla, fór líf hans í annan og óvæntan farveg.

Það sem hann lærði var einfaldlega þetta: Fyrr eða síðar verður maðurinn að taka mikla ákvörðun í lífi sínu: annað hvort stendur hann með því sem hann veit innra með sér að er rétt eða hann fer auðveldustu leiðina, þá sem veitir honum mestan ávinning á líðandi stundu.

Atburðurinn sem olli þessum þáttaskilum var reynsla vinar hans sem reis upp gegn föður sínum, herforingja og í reynd yfirmanns skólans. Þegar faðir þessa vinar hans sigar væntanlegum úrvalssveitarmönnum á varnarlausa, erlenda unglinga á flótta og skipar þeim að fella þá í skjóli nætur, stendur drengurinn, sonur hans, frammi fyrir þessum valkostum: annað hvort að fylgja föður sínum og vinna þau verk sem engum manni eru sæmandi og skjóta á varnarlausa unglingana eða að fylgja samvisku sinni og segja nei, ég geri ekki annað en það sem ég veit réttast, hverjar sem afleiðingarnar kunna að verða.

Söguhetjan lærði sína lexíu af fordæmi þessa unga vinar síns, sem galt fyrir ákvörðun sína með lífi sínu. Hann tók sömu ákvörðun og hann og sneri aftur heim. Hann hafnaði öllum frama á forsendum skóla fyrir úrvalsmenn.

Þessi saga vísar með sínum hætti til Marteins Lúthers þegar hann stóð frammi fyrir keisara og fulltrúum páfa og sagði: „Hér stend ég og get ekki annað“ og tók þá áhættu að hlýða samvisku sinni í stað þess að fara þá leið sem virtist henta honum á líðandi stund.

Sjálfsvirðing mannsins felst í því að gera það sem hann veit að er rétt, hverjar sem afleiðingarnar verða fyrir líf hans. Það átti bæði við um hinn unga Þórhall Bjarnarson og hnefaleikakappann í úrvalsskóla nasista. Þeir höfðu báðir fundið grundvöll eigin sjálfsmyndar. Leiðin til að verða úrvalsmaður reyndist önnur en skólinn gerði ráð fyrir, þá leið fundu þeir í samskiptum við fólk sem bjó að djúpum lífsskilningi og sterkri mannúð.

Á allra heilagra messu, sem er haldin í dag, minnumst við látinna og þá helst þeirra, sem sendu okkur þau skilaboð í daglegu lífi sem gerðu okkur að manneskjum og gerðu okkur ljóst hvað í því fólst. Það fólk eru hinir heilögu í lífi okkar, kannski foreldrar, kannski systkini, kannski afar og ömmur, kennarar, vinir, félagar, samstarfsmenn.

*****

Slíkar fyrirmyndir vísa til Jesú. Í guðspjalli dagsins er ljóst hvernig hann nálgaðist tollheimtumenn og skækjur. Hann sýndi þeim mannvirðingu og gaf þeim um leið sjálfsvirðingu og sjálfsmynd sem dugaði þeim það sem eftir var. Hann leysti þetta fólk til nýs innsæis í eigið líf. Málstaður Jesú lítillækkar engan, þar fá menn að reyna hið gagnstæða, ekki síst einmitt þeir sem hefur verið þröngvað út á jaðar samfélagsins. Fólk sem var ekki úrvalsfólk í augum fjöldans, en í augum Jesú jafndýrmætt og aðrir. Jesús mætir manninum ekki með óbilgjörnum kröfum. Hann flytur honum nýjan, óvæntan boðskap, hann flytur nýja von og hugrekki, vekur nýja eftirvæntingu og skapar nýjan fögnuð.

Í því sambandi rifjast kannski upp fyrir okkur hversu oft Jesús mætir fólki með setningum á borð við þessa: „Trú þín hefur frelsað þig“ eða „Trú þín hefur læknað þig“ eða „Trú þín hefur bjargað þér.“ Þau orð fengu einnig þeir að heyra sem höfðu aldrei heyrt um Jesúm áður. Það er á vettvangi trúarinnar sem Jesús mætir manninum. En hvað merkir þá trú í þessum skilningi? Trúin er „samskiptaforrit“ mannsins við Guð, ekki nýtt á markaðnum heldur ævafornt. Trúin birtist í málstað Jesú, þar sem manninum eru engin skilyrði sett, heldur er þar komið til móts við manninn þar sem hann er staddur.

Sumir telja sig eiga mjög einfalt svar við spurningunni um trúna, að hún felist í því að skrifa undir trúarjátningar, að trúa því sem kirkjan trúi, að trúa því sem standi í Biblíunni. Svo var ekki hjá Jesú, trúin hjá Jesú þekkir engar trúarjátningar, þær koma til sögu mörgum öldum síðar.

Það er á vettvangi trúarinnar sem sérhver maður á sína glímu um dýpstu forsendur eigin tilvistar. Enginn kemst undan þeirri glímu, hvort sem honum er það ljóst eða ekki og hvort sem hann viðurkennir það eða ekki. Enginn kemst undan því að spyrja djúpra spurninga um eigið líf, um tilgang og merkingu, ekki síst andspænis áföllum og mótlæti, ekki heldur guðleysinginn eða hinn vantrúaði. Glíman um trúna fylgir manninum því í einni eða annarri mynd ævina á enda, hvort sem hann kýs að svo sé eða ekki. Trúin, hver sem hún er, er leið mannsins til að lifa af í þessum heimi.

Einmitt þess vegna er hún vettvangur sístæðrar sköpunar í lífi mannsins og gefur öllu nýtt innihald. Þekkinguna hefur maðurinn frá öðrum, hún er honum óhjákvæmileg og góð svo langt sem hún nær og okkar tímar eru yfirfullir af aðgengilegri þekkingu. En trúin ber manninn lengra, hún grípur dýpra inn í vitund hans og hugsun, hún er sá vettvangur þar sem maðurinn glímir við merkingu lífsins hér og nú, þannig að hann geti lifað óttalausu lífi, sáttur innst inni við sína eigin tilvist. Trúin er sá vettvangur. Þótt hann geti ekki fest hönd á hinum óáþreifanlega veruleika trúarinnar gagntekur hún engu að síður líf hans og veitir honum fullvissu sem hann leitar. Hún er í eðli sínu þrá mannsins til þess að finna lífi sínu fótfestu í óvissum heimi. Þess vegna kemst hann ekki af án trúarinnar.

Þekkingin stangast ekki á við trúna, en lífið gengur ekki upp í þekkingunni einni. Þekking, viska og heimspeki hefur allt sinn sess í lífi mannsins en trúin mótar líf hans, þar býr dýpsta sannfæring hans, hver sem hún er, það er hún sem mótar líf hans öðru fremur, sjálfsmynd hans og sjálfskilning. Hún ber hann áfram í gleði og sorg, leiðir hann áfram til þess sem gott er, fagurt og réttlátt.

Í sögu okkar þjóðar eins og annarra þjóða var það trúin sem leiddi af sér skólana, bókmenntir og listir, þannig er því farið en ekki á hinn veginn, trúin leiddi einnig af sér líknarstofnanir en ekki öfugt. Hún kallaði fram á vettvang sögunnar það fólk sem mótaði hugsun okkar, viðhorf til eigin lífs og annarra. Hún er vagga mannlegrar sjálfsvirðingar, sérhverrar skapandi athafnar sem gerir líf mannsins betra. Í trúnni eru rætur mennsku og mannúðar.

En lífið er ekki eins og reikningsdæmi, þar gengur ekki allt upp eins og samlagning eða margföldun. Lífið er eins og það er: reikningsdæmi sem gengur ekki upp, við þá staðreynd þarf maðurinn að lifa. Gengi dæmið upp nægði manninum þekkingin, raunvísindin, heimspekin eða listin. Trúin er það tæki sem maðurinn hefur til þess að fást við lífið eins og það er – hún spannar víðara svið en þekkingin en hún hefur alla tíð greitt götu vísindunum, bæði hug- og raunvísindum. Hafi því verið á annan veg farið hefur það verið trúarstofnunin sem fór út af sporinu. En það á ekki við trúna innra með manninum. Hana fær ekkert yfirbugað, hún verður eftir sem áður innsti og dýpsti hvati mannsins til þess að takast á við sína eigin tilvist.

*****

Í þeim dæmum sem ég tók í upphafi sjáum við hvernig ungt fólk stóð skyndilega og óvænt frammi fyrir afgerandi spurningum um sína eigin sjálfsmynd og lífsskilning og hvernig aðrir höfðu áhrif á hina farsælu ákvörðun sem fylgdi þeim lífið á enda.

Marteinn Lúther lagði á það áherslu að við værum öll heilög. Það var ekki hans uppfinning, það er málstaður sem við finnum í Biblíunni, sjónarmið sem gefur lífi okkar mikla dýpt. Hann setti það sjónarmið á oddinn andspænis þeirri hugsun rómversk-kaþólsku kirkjunnar að eingöngu sérstaklega útvalið fólk – svonefndir dýrlingar – væri heilagt. Í reynd erum við öll heilög, útvalin til þess að vera manneskjur og gera þennan heim mannúðlegan með því að styðja þann málstað Jesú sem kemur til móts við manninn.

Þess vegna horfum við til þeirra sem mótuðu okkur og skildu eftir svipmyndir í huga okkar um mannlega umhyggju, um ást og alúð, og gerðu okkur að því sem við erum án þess að vita það og án þess að við gerðum okkur það ljóst fyrr en kannski löngu síðar.

Líkt og Jesús, sem kom til þeirra sem ekkert áttu lengur, ekki til þess að gefa þeim visku og þekkingu heldur trú, nýja sjálfsmynd, nýja guðsmynd, nýja tilvist. Hann var ímynd alls sem heilagt er og hans ímynd gerir allt heilagt. Amen