Prédikun úr kveðjumessu sr. Ragnheiðar Jónsdóttur – Lágafellskirkja 21. maí 2023

Guðspjall: Jóhannes 17. 9-17
9 Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir 10 og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. 11 Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. 12 Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist. 13 Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. 14 Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. 15 Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. 16 Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. 17 Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.

Kærleikans andi
hér kom með þinn sólaryl blíða,
kveik þú upp eld þann,
er hjartnanna frost megi þýða.
Breið yfir byggð
Bræðralag, vinskap og tryggð.
Lát það vorn lífsferil prýða.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Á meðan ég undirbjó þessa prédikun hljómað endalaus þyrluhávaði yfir heimili okkar í Vesturbænum og tengdi mig í huganum við hinn stóra heim – Evrópu og fund Evrópuráðsins í Hörpu – stærsta viðburðar sem haldin hefur verið hér á landi og sem útheimti öryggisgæslu langt umfram getu lítillar þjóðar að veita. Hugur minn flaug til stríðsins í Úkraínu og til margra annarra flókinna og erfiðra mála, sem við, okkar litla þjóð ásamt fulltrúum annarra Evrópulanda, á hlutdeild í að leysa á okkar tímum. Í þessu stóra samhengi valdsins er maður svo agnar smár og lítils megnugur.
Ég gerði orð Jesú sem lesin voru í dag, þá og núna að mínum og bað: “Helga þau í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.“

Þessi orð eiga vel við núna í dag þegar ég stend hér og kveð ykkur kæri söfnuður. Þegar ég las Guðspjallstexta dagsins þá fannst mér Guð hafa veitt mér handleiðslu. Jesús er með lærisveinum sínum á kveðjustundu og við heyrum hvernig hann leggur þeirra líf í Guðs hendur. Takk fyrir að leggja mér þennan texta í hendur Guð, núna á þessum tímamótum mínum og safnaðar þíns hér þegar við nú kveðjumst.

Það er margt sem flýgur í gegnum hugann á tímamótum sem þessum og óhjákvæmilegt að líta til baka yfir farinn veg. Hvernig voru þessi 19 ár í þjónustunni hér? Gerði ég það besta sem ég gat? Sé ég eftir að hafa gert of mikið eða of lítið eða látið vera að gera eða segja eitthvað? Hvernig var samfylgdin? Og hvar varst þú Guð á þessari göngu okkar?

Þau uppgjör verða auðvitað ekki rakin hér og eru ekki merkilegri og sennilega ekki öðruvísi en ykkar annarra sem við álíka tímamót hafa staðið eða komið til með að gera. Þau eru mannleg, sambland af eftirsjá, gleði, þakklæti og eftirvæntingu. Það sem við eigum sameiginlegt er þetta: að geta horft til baka og sleppt taki á því sem má fara og taka með okkur það sem var gott, hvetjandi og gefandi, því gjafirnar eru ríkulegar.

Eitt merkilegasta og öflugasta fyrirbæri á okkar tímum er bænasamfélagið, hverri trú sem það tengist. Já, hvort sem við eigum það ein með almættinu eða komum fleiri saman eins og í dag. Samfélag sem byggir á tengslum, mínum/þínum og Guðs, æðri máttar eða hvað þú velur að kalla það. Samband sem er kærleikans. Í Postulasögunni fáum við í dag aðeins að heyra frá fyrsta kristna söfnuðinum og þar er sagt: „Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.“ Lærisveinar Jesú, héldu saman sem einn þéttur hópur, eftir að Jesús var dáinn og upprisinn.
Þar ríkti eining í trú, allir voru eitt hjarta og ein sál. Í þeirri einingu lifðu þau og innréttuðu líf sitt samkvæmt því.
Enginn þeirra gerði tilkall til þess að eiga neitt út af fyrir sig. Allt var sameign.

Síðar í sögunni segir frá þessu fullkomna samfélagi, samfélagi hugsjóna, hvernig enginn leið skort, öll þau sem áttu jarðarskika eða húseign seldu hana og komu með andvirði sölunnar og lögðu það fyrir fætur postulanna, og því var deilt út til þeirra sem voru þurfandi – hver og einn fékk það sem hann þurfti. Þetta fullkomna samfélag –  sem lifði í væntingunni um að endalok heimsins væru á næsta leyti –  átti ekki langa lífdaga.
Það kom fljótt í ljós að manneskjan er ekki eins fullkomin og hugsjónin gerir kröfu til.
Að minnsta kosti varð það þannig að mannlegir brestir fóru að koma upp á yfirborðið. Einhverjir byrjuðu að stinga peningum undan í stað þess að leggja þá í sameiginlegan sjóð. Smá saman varð söfnuðurinn að aðlaga sig þeim heimi sem virtist ætla að halda velli, trúin á endalok heimsins virtust ekki í nánd. Þótt við lifum aðra tíma og rúmlega tvö þúsund árum eftir, þá vill stundum eima af þessari hugsjón í samfélagi okkar, sér í lagi þegar hún er gagnrýnd. Þá er eins og að hún sé litinn sem lokaður klúbbur sem ekki er tengdur ytri heimi.
Jesús ætlaði ekki lærisveinum sínum frekar en að hann ætlar okkur að við útilokum okkur frá heiminum. Heldur að við lifum í heiminum með öllu því brölti sem hann þekkti og vissi að við myndum mæta á lífsleið okkar.
Í þessum heimi í dag er um margar leiðir að velja og ein stærsta ögrun nútímans – sem í versta falli skilur manninn eftir óvirkan – er yfirgengilegur fjöldi áreita sem dynur á okkur daglega. Í því umhverfi er erfitt fyrir marga að finna leið, að finna lífi sínu kjölfestu, með afleiðingum eins og t.d. kvíða og vanlíðan.
Okkur er ekki ætlað að vera reköld viðburða og áreita daglegs lífs. Okkur var í skírninni gefinn vegvísir – trú á kærleiksríkan Guð, sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið.
Ég held að það sé eitt mikilvægasta verkefni okkar tíma að vísa börnum nútíðar og framtíðar inn á þá leið sem Jesús boðar. Það er og verður verkefni kirkjunnar, ásamt öllum hinum verkefnunum og sem kallar á þekkingu, sköpunargleði og umhyggju. Ekki bara innan veggja kirkjunnar heldur allt um kring, á heimilum og í skólum.
Í starfi kirkjunnar hér hefur það starf verið hornsteinn safnaðarstarfsins og allir, lærðir og leikir staðið saman sem ein heild og í einingu við sóknarbörnin. Í heiminum sem Guð elskar blása líka vindar afhelgunar eins og við þekkjum, en verum hughraust og treystum því að málefnið sem okkur er falið er göfugt og okkur öllum til heilla og hamingju.

Áður en Jesú yfirgaf lærisveina sína átti hann kveðjustund með þeim, eins og ég greindi frá hér að framan, þar sem hann snæddi síðustu kvöldmáltíðina og sagði þeim frá hvað væri fram undan, að hann myndi yfirgefa þau frá þessari jarðvist og hvað það þýddi. Hann brýndi fyrir þeim að vera hughraust, því hann hefði sigrað heiminn og vegna þess að þau höfðu öðlast trú á að hann hefði verið sendur af Guði.
Áður en hann kveður, hóf hann augu sín til himins og biður til Guðs. Hann bað ekki um huggun fyrir sjálfan sig heldur bað hann fyrir lærisveinum sínum, þeim sem hann svo yfirgaf.

Ég man eftir því þegar faðir minn lá banaleguna. 84 ára og mjög veikur. Við börnin og fjölskyldur okkar náðum að eiga góðan tíma með honum í kringum dánarbeðið. Eitt af því síðasta sem hann tjáði okkur var að honum fannst sárt að yfirgefa okkur. Ég spurði sjálfa mig þá „Hefur hann áhyggjur af okkur, að við munum ekki klára okkur? Finnst honum að hann þurfi að vernda okkur og að við værum annars varnarlaus þegar hann væri farinn, trúir hann ekki á okkur?. „ Og við stóðum þar og sögðum „þú mátt fara pabbi minn, við verðum okey“. Í dag spyr ég sjálfa mig nýrra spurninga, sem skyggnast bak við orðin: „Var föðurelska hans svo sterk? Vildi hann tjá okkur að við værum elskuð?!“

Já – það held ég, sé svarið.

Hann sem var svo oft fjarverandi, breiskur maður, ófullkominn og frábær og allt í senn. Nú veit ég að faðir minn elskaði okkur, mig og fólkið sitt og vildi okkur það allra besta. Það, vildi hann skilja eftir sig, að við treystum elskunni.
Ég held að sá eða sú sem kveður, hver sem tímamótin eru í lífinu og/eða við endalok þess, vilji alltaf koma elskunni, kærleikanum á framfæri. Þar er ég með talin. Að þrátt fyrir allt og allt þá viljum við lifa bæn Jesú, hefja augu okkar til himins og biðja af elsku til hans og heimsins.
Það er þrátt fyrir allt og allt þannig, – hvernig sem mál hafa skipast og auðvitað er það misjafnt því enginn okkar er í þessum heimi fullkominn, – að kærleikurinn er öllu yfirsterkari. Við viljum að hann eigi síðasta orðið.

Jesús bað fyrir þeim og um leið fyrir okkur og öllum á öllum tímum.
Þetta er stórkostleg bæn, sem tjáir skilyrðislausan kærleika. Hann biður Guð um að varðveita okkur, passa upp á okkur, veita okkur vernd frá því sem skaðar okkur. Hann biður um að við megum vera eitt í kærleikanum í þessum heimi sem við lifum í, heiminum sem Guð elskar.

Já, elsku Guð, helga þú öll börnin þín í Lágafellssókn í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. Megi þau þekkja þig og eiga þar með eilíft líf“.  Amen.