Prédikun á Aðfangadag – Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Aðfangadagur kl.18
2008

Að jötu þinni, Jesús
Hér kem ég
með tómar hendur,
En hjarta mitt vill þakka þér,
Að þú ert til mín sendur.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Nú á þessari stundu erum við saman komin til aftansöngs og sameinumst í einum hug með öllum söfnuðum landsins í kirkjum þeirra, einni kirkju í hverju prestakalli hringinn í kringum landið. Það er máttugt, það er heilög stund sem hrærir hvert hjarta.
Að jötu Jesú komum við tómhent og þökkum það að hann var til okkar sendur.
Í söngnum og samfélaginu lofum við það sem hann færir okkur, lífið og allt það sem gefur því gildi.
Við leyfum okkur eitt augnablik að skynja leyndardóminn, að finna hvers virði hið heilaga er, í nærveru þess og fjarvist. Boðskapur jólanna er persónulegur og einstakur.
Við göngum hvert um sig inn í hátíðina undir áhrifum eigin hugsana og reynslu.
Á hverjum jólum hlustum við því á jólaguðspjallið og tökum á móti því með nýjum hætti – og þráum öll það sama, himininn yfir lífi okkar.
Já – kannski hefur sú þrá aldrei verið meiri og eins knýjandi í lífi manna og einmitt á þessum jólum.

Jólaguðspjallið, fagnaðarboðskapur jólanna, er hvatning til okkar að halda út á veginn og leyfa okkur að undrast.
“Förum beint til Betlehem til að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.”
Betlehem var á þeim tíma bær undir erlendu valdi.
Gat hann orðið staðurinn fyrir ,,frið á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum? ”
Hin sama Betlehem varð vettvangur hryllilegra barnamorða, drápi allra sveinbarna í bænum, skömmu eftir fæðingu Jesú, þegar Heródesi hafði borist fregnin af boðskap englanna, en hann varð hræddur um að hið nýfædda barn mundi bola honum frá völdum.
Förum til Betlehem, þeirrar borgar, sem einnig á okkar tímum hefur orðið vígvöllur átaka og öfga milli þjóðabrota og trúarhópa.

Í Jólaguðspjallinu segir frá því að María og Jósef komu til borgarinnar Betlehem síðla kvölds, hún var þá þunguð og langt gengin með og hann teymdi asnann undir henni. Það var margt um aðkomufólk í bænum, þetta kvöld.
Þögul og þreytt höfðu þau gengið um götur borgarinnar, hús úr húsi, í leit að næturgistingu, en öll gistirými voru upptekin. Þau voru komin að útjaðri borgarinnar, um það bil þar sem auðnin utan við hana tekur við og þar sem stjörnum prýddur næturhimininn hvelfdist yfir þeim.
“Skildi vera nokkur von hér?” sagði maðurinn við konu sína áhyggjufullur á svip.
Hún finnur að fullborið barnið sem hún ber undir belti sér sparkar í þindina svo hún missir andann eitt augnablik, lítur til himins og leitar svara.
Gistihússeigandinn sem þau hittu þarna var svo vinsamlegur að vísa þeim á gripahús sitt, það var það eina sem hann gat boðið þeim eins og ástatt var, þak og rými í nærveru dýranna.

Í næsta nágrenni voru hirðarnir út á völlunum og gættu hjarðar sinnar.
Þeir höfðu aðlagast myrkrinu og birtu stjarnanna og þekktu öll hljóðin í kyrrðinni og voru eitt með umhverfinu, næstum eins og skepnurnar sjálfar.
“Þessi nóttin yrði eins og sú fyrri og allar hinar þar á undan,” hugsuðu þeir með sér, þeir yrðu að halda vöku sinni, svo að óargadýr eða þjófalýður næði ekki að læðast að og höggva skarð í hjörðina.
Himininn var skafheiður og birtan frá stjörnunum var sterk og skær þessa nótt.
Hirðarnir mundu ekki eftir öðrum eins stjörnuljóma. Og svo urðu þeir allt í einu varir við eitthvað óvenjulegt.
Ægisterkur ljómi stjarnanna virtist fara á hreyfingu og renna svo saman í skínandi bjartan hnött sem nam staðar yfir höfðum þeirra.
Þetta höfðu þeir aldrei séð neitt líkt þessu áður.
Hirðarnir gátu sig ekki hreyft af skelfingu; þeir voru sem lamaðir.
Þeir gátu ekki slitið augun frá þessari sterku birtu sem flæddi um himininn. Það var ekkert hversdagslegt yfir því sem þeir höfðu nú fyrir augum sér.
Ljómandi geislar ófust saman og teygðu sig fram sem hendur væru. Fætur skutust fram úr loghvítum geislum. Glóandi andlit blikaði bjart og heitt og úr ljósinu birtust vængir. Engill stóð hjá þeim og mælti;
,,Verið óhrædd! Syngið og dansið af gleði.
Ég flyt ykkur gleðitíðindi sem veitast mun öllum lýðnum. Í dag fæddist frelsari ykkar í Betlehem. Sá sem Guð hafði lofað að senda ykkur, hann er kominn. Hafið þetta til marks. Ef þið farið til Betlehem þá munið þið finna ungbarn reifað og í jötu lagt.”

Við þekkjum framhaldið, hvað síðan gerðist á hinni fyrstu jólanótt.
Hirðarnir skunduðu til Betlehem og fundu barnið, fundu það sem þeim var fyrirheitið.
Þeir hurfu síðan til baka til sinna starfa, myrkrið grúfði sig yfir þá á ný eins og ekkert hefði skeð, en heimurinn, heimssýn þeirra hafði breyst. Ekkert var lengur eins og áður hafði verið.
Ágústus keisari, sem hafði útnefnt sjálfan sig höfðingja heimsins, hafði kallað allt fólkið til skrásetningar svo að hægt yrði að skattleggja það. Það þýddi enn verri kjör fyrir þá sem fátækastir voru og kúgaðir og á meðal þeirra voru hirðarnir.
Friðarhöfðingi heimsins birtist í barninu í jötunni og koma hans var boðuð fjárhirðum og fagnaðarerindi hans var fyrir allan lýðinn.

Boðskapur jólanna er fyrir alla.
Hann er ekki bara ætlaður hinum fátæku eða bara hinum auðugu, hinum kúguðu eða hinum valdamiklu, bara fortíðinni eða bara framtíðinni.
Engin er undanskilinn þegar fagnaðarerindið er boðað, það stendur öllum til boða og það getur enginn eignað sér það framar öðrum, enginn getur sagt “hann á ekki við þennan eða hinn manninn eða tímann”.
Hirðarnir voru kannski ekkert sérlega trúaðir og sennilega ekkert heldur heimspekilega sinnaðir.
Flest erum við eins og þeir. Þeir geta því vel verið fulltrúar okkar, fyrir þrá okkar eftir innri ró og nýrri merkingu með lífi okkar. Þeir geta verið boðberar þess að það er hægt að upplifa frið og ró í krefjandi aðstæðum daglegs lífs okkar. Jafnvel í aðstæðum sem brjóta í bága við allt sem við teljum vera réttlátt og satt, aðstæðum sem við hvorki skiljum né botnum nokkuð í en samt geta séð að við eigum framtíð og von fyrir höndum.
Hjörtu manna breytast ekki. Guð breytist ekki, hann er sá sami í dag, í gær og um alla eilífð.
Þess vegna getum við öll tekið okkur hirðana að fyrirmynd:
“Förum beint til Betlehem til að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.”

Þeir flýttu sér, fundu Maríu og Jósef og barnið litla sem lá í jötunni.
Það er hinn góði asi þess sem lætur sig varða það sem gerist og spyr eftir því hvað hent hafi við fæðingu Jesú Krists, og sem tekur sér tíma til að skoða hvort hún hafi einhvern boðskap að flytja sér. Jólaguðspjallið talar um fólk sem er að flýta sér. Þannig höfum við ekkert breyst í tímanna rás og hjartað er hið sama.

Að jötu þinni, Jesús
hér kem ég
með tómar hendur,
En hjarta mitt vill þakka þér,
að þú ert til mín sendur.
Það eitt sem gefur gæskan þín
ég get þér fært.
Öll vera mín skal lofa lífgjöf þína.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen

Gleðileg Jól!

Takið postullegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen