Ferðafélag Íslands vígði nýtt endurgert sæluhús félagsins á Mosfellsheiði sunnudaginn 22 júní að viðstöddum fjölmörgum gestum. Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir, sóknarprestur í Lágafellssókn blessaði sæluhúsið og hendur þeirra sem að komu, og mæltist einstaklega vel í fallegri ræðu eins og segir í frétt á heimasíðu Ferðafélags Íslands.

Frétt Ferðafélagsins er hér í heild sinni:

Vígsla sæluhúss FÍ á Mosfellsheiði
Ferðafélag Íslands vígði nýtt endurgert sæluhús félagsins á Mosfellsheiði sunnudaginn 22 júní að viðstöddum fjölmörgum gestum.
Ólöf Kristín Sívertsen, forseti FÍ bauð fólk velkomið og þakkaði sérstaklega öllum þeim sem hafa komið að endurbyggingu hússins. Þar hafa bræðurnir Örvar og Ævar Aðalsteinssynir annast byggingu hússins en auk þeirra var Unnsteini Elíassyni hleðslumeistara úr Borgarfirði, Bjarka Bjarnasyni sem leiddi undirbúning verkefnisins, leyfismál og fl., Bjarna Bjarnasyni frá Hraðastöðum og Jóni Sverri einnig þakkað fyrir þeirra framlag. Þá var Minjastofnun og Pétri Ármannssyni og Ugga Ævarssyni þakkað fyrir gott samstarf og stuðning sem og Erni Kærnested og fasteignafélaginu Bakka. Ólöf Kristín færði öllum þessum aðilum einstakar þakkir frá félaginu, blóm og gjafir.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ fór m.a. yfir sögu skálabygginga FÍ og starf félagsins í upphafi,  sýn og drauma frumkvöðlanna og sjálfboðaliðanna sem leiddu starf félagins og byggðu upp á fyrstu árum þess.  ,,Endurbygging sæluhússins er okkur hjá FÍ afar kær og okkur finnst mikilvægt að sinna því. Skilgreint hlutverk félagsins er m.a. bæði að skipuleggja ferðir um landið og standa að skálauppbyggingu og rekstri fjallaskála. Okkar hlutverk er einnig  að halda til haga ýmsum fróðleik og huga að sögulegum rótum – framkvæmdirnar á Mosfellsheiði eru mjög í þeim anda,“ sagði Páll.
Bjarki Bjarnason fór m.a. yfir vegagerð á Mosfellsheiði, sagði sögu af enskum ferðalangi sem leitaði skjóls í sæluhúsinu í aftakaveðri og með koníak og súkkulaði í nesti, sem bjargaði lífi hans. Þá rakti hann tilurð verkefnis og framkvæmdasögu sæluhússins.
Örvar og Ævar Aðalsteinssynir greindu frá byggingu hússins, allt frá grunni og þar til verkinu var lokið. Þeir greindu frá því hvernig verkefnið hefði verið unnið í áföngum, frá ári til árs og gengið einstaklega vel.
Veðrið lék við gesti og fjallasýn til Þingvalla var einstaklega tilkomumikil. Fjölmargir hestamenn mættu i kaffi ( kristal ) og tóku lagið.
Pétur Ármannsson þakkaði fyrir ánægjulegt samstarf við alla þá sem að þessu verkefni hafa komið og greindi frá hugsanlegri friðun Þingvallavegar hins gamla, sem nú er í umsóknarferli.
Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir, sóknarprestur í Mosfellsbæ blessaði sæluhúsið og hendur þeirra sem að komu, og mæltist einstaklega vel í fallegri ræðu.
Að lokum var boðið upp á léttar veitingar og Örævabandið tók nokkur lög inni í sæluhúsinu við góðar undirtektir.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

26. júní 2025 11:54

Deildu með vinum þínum