
Í dag 4. apríl 2025 fagnar Mosfellskirkja tímamótum en 60 ár eru síðan hún var vígð af Sigurbirni Einarssyni, biskupi. Mosfellskirkja, á sér langa og merka sögu sem spannar margar aldir. Kirkjan, sem stendur á sögufrægum stað, hefur verið miðpunktur trúarlífs og samkomuhalds í dalnum í gegnum aldirnar. Saga Mosfellskirkju nær allt aftur til kristnitöku Íslands, en talið er að kirkja hafi verið reist á Mosfelli á fyrstu árum kristni. Þar hafði sögufrægi höfðinginn og skáldið Egill Skallagrímsson aðsetur sitt á elliárum, og hefur svæðið því djúpar rætur í íslenskri menningu og bókmenntum.
Mosfellskirkja er gerð eftir teikningu Ragnars Emilssonar að undangenginni samkeppni. Hún er byggð úr steinsteypu, sperrur eru úr járni en þak klætt eiri svo og kirkjuturninn sem stendur á þrem súlum upp af austurhorni kirkjunnar. Það sem er einkennandi fyrir hönnun kirkjunnar er að allir fletir eru þríhyrningslaga. Gömul og fræg klukka er í kirkjunni, talin vera frá 15. eða 16. öld en um hana er lítið vitað. Klukkan er afar formfögur og hljómgóð. Sigurbjörn Ágústsson, húsasmíðameistari í Hafnarfirði var yfirsmiður en uppsetningu á sperrum og þakgrind annaðist Leifur Loftsson, Mosfellssveit.
Í gegnum árin hefur Mosfellskirkja þjónað sem vettvangur fyrir helgihald, hátíðarhöld og tónleika, enda hefur hún góðan hljómburð og hentar vel fyrir tónlistarviðburði. Fjölmörg hjón hafa einnig gengið í heilagt hjónaband innan hennar veggja, og hefur hún verið áfangastaður fyrir bæði gleði og sorg í lífi safnaðarins.
Undanfarna mánuði hafa staðið yfir umfangsmiklar endurbætur á Mosfellskirkju. Síðastliðið haust tók sóknarnefnd Lágafellssóknar ákvörðun um að hefja endurbætur á kirkjunni til að koma í veg fyrir skemmdir. Hafist var því handa í haust við drenlagnir í kringum bygginguna. Í vetur hefur verið unnið að framkvæmdum innanhúss og síðar í vor verður unnið að frekari lagfæringum utanhúss.
Að framkvæmdum loknum er stefnt að hátíðarhöldum í tilefni afmælis og endurbóta. Við óskum Mosfellingum til hamingju með afmæli Mosfellskirkju.
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
4. apríl 2025 09:50