Það er okkur sönn ánægja að tilkynna Árna Heiðar Karlsson, nýráðinn organista og tónlistarstjóra við söfnuðinn okkar.

Árni Heiðar hefur starfað víða sem píanóleikari, organisti, meðleikari, tónskáld, tónlistarkennari, hljómsveitarstjóri. Hann hefur meistaragráðu í píanóleik frá Háskólanum í Cincinnati auk þess að hafa stundið nám í jasspíanóleik á Íslandi og við Tónlistarháskólann í Amsterdam. Það er því mikill fengur að fá Árna Heiðar til liðs við okkur í Lágafellssókn!

Prestabreytingar fram að áramótum
Sr. Arndís Linn sóknarprestur verður í námsleyfi frá 1. september fram að áramótum. Í fjarveru hennar mun sr. Henning Emil gegna stöðu setts sóknarprests. Til liðssinnis honum mun sr. Hólmgrímur Elís Bragason gegna stöðu prest í afleysingum til áramóta. Sr. Hólmgrímur hefur áður gegnt stöðu héraðsprests Austsfjarðarprófastsdæmis en síðan 2012 hefur hann unnið sem mannauðssérfræðingur hjá Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði. Því má segja að sr. Hólmgrímur muni dusta rykið af prestahempunni, tímabundið, þó að samhliða mannauðsstarfi sínu hefur hann oft hlupið til og athafnað á Austurlandi.

Við hlökkum til samstarfsins og með tilhlökkun fyrir safnaðarstarfinu í vetur!

Bogi Benediktsson

7. september 2023 09:45

Deildu með vinum þínum