Jólafriður

Finnurðu ilminn? Ilminn af desember? Ilminn af smákökum, klementínum og greni? Af kanel-negulkökum, heitu súkkulaði og ristuðum möndlum? Af kertaljósunum og arninum sem lýsa upp myrkrið?

Ilmurinn af aðventunni er vissulega mismunandi eftir löndum og einstaklingum. Sá ilmur sem vekur upp góðar minningar innra með okkur er sá ilmur sem við sækjum í. Hér á landi finnum við eflaust meira fyrir þessari þörf að njóta ilms, bragðs, ljóss og fegurðar í okkar svarta skammdegi í viðleitni okkar að lýsa upp myrkrið. Við sækjum í gamlar uppskriftir og hefðir tengdar góðum minningum sem tendra í hjörtunum hlýju og il.
En stundum verður listin að njóta aðventunnar svo ofboðslega flókin þegar allt virðist þurfa að gerast í þeim litla frítíma sem við höfum. Okkur langar að geta fundið rúm og tíma til þess að njóta alls þessa sem við gátum notið sem börn eða vildum geta notið sem börn. Við viljum að börnin okkar fái að upplifa OKKAR aðventu og jól, hvort sem það felst í að fara á skíði og skauta, höggva jólatré, fara í leikhús, föndra, baka smákökur og laufabrauð eða einhverju öðru. Síðan þarf að finna tíma til að kaupa og pakka inn jólagjöfum, þrífa og útbúa jólakort… Á endanum finnum við okkur svefnvana og örmagna og þegar hið rómaða aðfangadagskvöld rennur sitt skeið sofnum við uppbrunnin ofan í langþráðri jólabók ársins í ár.
Við viljum fá að njóta aðventunnar og við eigum að njóta aðventunnar. En ef kringumstæðurnar gefa okkur ekki mikið rúm til þess neyðumst við til þess að velja og hafna. Við viljum nefnilega líka finna friðinn á aðventunni og jólunum. Jólin eru jú hátið ljóss og friðar.

En er þá einhver uppskrift til að hinum sanna jólafriði?

Ég held að við vitum öll uppskriftina innst inni. Jafnvel þegar við látum kringumstæður stressa okkur upp og taka völdin. Við finnum að við þurfum að leita inná við og hugsa um það hvað skiptir raunverulegu máli fyrir velferð okkar, ástvina og annarra. Við þurfum ekki að eignast allt eða upplifa allt. Við þurfum bara að njóta þess að vera saman og eiga gæðastundir. Að elska.
Jesús sýndi með lífi sínu og kærleika hvað skiptir mestu máli. Hvað gefur raunverulegan innri frið. Að lifa í trú og kærleika til Guðs og náungans gefur okkur mestan frið hið innra. Því þegar við biðjum og þegar hvílum í Guði í trú og trausti til hans, finnum við kærleika Guðs til okkar. Þá er eins og kærleikur hans „núllstilli“ okkur og losi um alla spennu. Þá finnum við að jólin þurfa ekki að hringjast um stress og áhyggjur.
Til að finna sannan frið þurfum við því að rækta kærleikann innra með okkur. En ávöxtur kærleikans er friður hið innra og friður við aðra. Þá hugsum við ekki aðeins um okkar eigin hag heldur líka um hag annarra. Um leið munum við að ekki allir hafa það svo gott á aðventunni og jólunum.
Hvað getum við gert í því? Jú, við getum ákveðið að vera sjálf ljós kærleikans í myrkrinu á aðventunni.

Guð gefi okkur öllum kærleiksljós, frið og „núllstillingu“ á aðventunni.
Gleðileg Jól!

Höf. Bryndís Böðvarsdóttir, guðfræðingur og kirkjuvörður Lágafellssóknar.

Hugleiðingin birtist fyrst í Mosfellingi 23. desember 2021

Bogi Benediktsson

23. desember 2021 09:00

Deildu með vinum þínum