Að jötu þinni, Jesús
Hér kem ég
með tómar hendur,
En hjarta mitt vill þakka þér,
Að þú ert til mín sendur.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Kirkjuklukkurnar hafa hljómað um borg og þorp, til sjávar og sveita, allt um kring í landinu okkar, kallað okkur til kirkju til að fagna heilagri jólahátíð – klukkurnar hafa hringt jólin inn.
Guðspjallið er lesið í guðsþjónustunni og snertir við strengi sálarinnar á sama guðdómlega hátt og á síðustu jólum,  á jólunum þar á undan og á jólum bernskunnar og samt er eins og að það sé í fyrsta sinni sem maður heyrir það í kvöld, slíkur er sá kraftur sem býr í þessum orðum.
Tónlistin, orgelspilið og söngurinn fyllir rýmið, við þenjum lungun og syngjum saman.
Allt virðist vera stærra og meira, þú og ég, samfélagið, andartakið, heimurinn. Við skynjum núna að lífið er eitthvað meira en hversdagsleikinn, rútínan, hið mannlega brölt og sigrar eða skammdegismyrkrið sem grúfir sig yfir okkur.
Við leyfum okkur eitt augnablik að gleyma stað og stund og að skynja leyndardóminn, að finna hvers virði hið heilaga er, í nærveru þess og fjarvist. Skynjum smám saman að okkur hefur hlotnast eitthvað af þeirri velþóknun sem öllum mönnum var heitin, finnum innra með okkur hvernig hlýjan frá barninu guðdómlega breiðist út, einnig til okkar.

Já – guðspjallið snertir við okkur.
Margur hefur orðað það svo í gegnum tíðina, að þegar jólaguðspjallið er lesið í kirkjunni „þá hefjast jólin“.
Ég tek undir þau orð. Allt frá æsku man ég eftir því andartaki, hvernig það var töfrum hlaðið, engu öðru líkt, breytti öllu og setti allt í lífi mínu í stærra og æðra samhengi. Andartak þegar maður fær skynjað eilífðina og þráin eftir því að verða eitt með einhverju stærra, hluti af einhverju æðra, eitt með Guði, með kærleikanum fær að rætast.
Hjartað fyllist gleði og auðmýkt og um leið finnur maður óstöðvandi löngun til að halda fast í tilfinninguna svo að hún hverfi ekki frá manni.
Á einum stað las ég: “þegar þú upplifir gleðina, slepptu henni og gefðu henni frelsi eins og fugli. Því ef þú heldur henni föstu taki, þá er það eins og að halda fugli föngnum í búri.“
Pílagrímur nokkur hafði áhyggjur af því að hann hefði of lítinn tíma til að rækta samfélag sitt við Guð. Þá talaði Guð til hans og sagði: ,,Hefurðu aðeins eina mínútu? Rammaðu hana inn með kyrrð. Eyddu henni ekki í að hugsa um hve lítinn tíma þú hefur. Ég get gefið þér heila eilífð á einni mínútu.“
Já – njótum og treystum því að andartökin verði mörg í lífi okkar þar sem við upplifum hið heilaga, nærveru Guðs og fáum að horfa inn í eilífðina – það er vegur vonar. Ef við höfum villst af þeim vegi, erum týnd Guði og okkur sjálfum, þá kalla jólin okkur sannarlega inn á veginn, vísa okkur áfram og boða að við getum treyst því að kærleikurinn og allt það góða og fagra í lífinu er fyrir okkur, fyrir þig og mig. Guð vill að við eigum gott líf, í öllum gráa hversdagleikanum jafnt og á hátíðardögum.

Það er eiginlega undursamlegt hvað Jólaguðspjallið er í raun samansett af hversdagslegum þáttum mannlegrar tilveru.
Það segir frá parinu, Jósef og Maríu, sem fá veraldlegt valdboð um að ferðast um langan veg til að skrá sig. Þau eru ófrjáls, þegnar í herteknu landi þar sem erlendu valdhafarnir vilja treysta völdin og tryggja sér að þeir geti heimt af þeim skatt. María á von á barni og sem betur fer voru þau Jósef svo vel sett að þau áttu fararskjóta, asna til þess að setja undir hana, sem ekki er víst að allir hafi átt á þessum tíma. Þegar þau koma á áfangastað, komast þau að því að það er ekkert pláss er fyrir þau í mannabústöðum og þeim er vísað í fjárhúsið til skepnanna.
Þar fæðir hún barnið vefur það í klút  og leggur í jötu – í fóðurstall dýranna.
Það er auðvitað með eindæmum, finnst okkur, að enginn skyldi ganga úr rúmi fyrir barnshafandi konu, sem var komin að fæðingu. Að þeim, Jósef og Maríu var ekki boðið inn í hlýjuna, boðinn matarbiti og hlustað eftir högum þeirra.
Heldur er þeim vísað á dyr og ekki einu sinni boðið teppi að breiða yfir sig eða leggja utanum barnið.
Hvað var fólk eiginlega að hugsa í Betlehem? – sem var nú enginn fátækrabær. Var það svo upptekið af að skemmta sér þessa kvöldstund, að hitta og drekka í sig fréttir frá öllum hinum sem voru komnir á undan að því stóð á sama, vildi ekki láta spilla gleði sinni og hugsaði bara um sig og að halda sínu.
Um það getum við auðvitað ekkert vitað, en Betlehem þá minnir okkur á margt í okkar eigin heimi og veröld í dag. Um mannleg kjör,  ófullkomleika mannsins, sjálfselsku hans og græðgi, um heim sem býður ekki öllum að taka þátt og deila mannsæmandi kjörum.
Miskunnarlaus er sá heimur sem getur ekki tekið á móti nýju lífi með mannsæmandi hætti, heldur vísar því í sömu aðstæður og skepnunum eru búnar. Miskunnarlaus og ljótur er sá heimur sem sýnir ekki hinu veikburða og umkomulausa lífi umhyggju, veitir því skjól og klæði, heldur vísar því á dyr og út í myrkrið.
Það er vissulega enginn hátíðarblær yfir þeirri mynd, engin jól.
Samt var það inn í þennan heim myrkurs og miskunnarleysis sem frelsarinn okkar fæddist á þeirri nóttu sem Guð boðaði fjárhirðunum á Betlehemsvöllum og heiminum öllum frið og frelsi.
Boðskapur jólanna og mannleg kjör eru ekki aðskilin, heldur fjalla um sama heim og tilveru. Fagnaðarerindið hvetur okkur ekki til að flýja heiminn, heldur til þess að taka veruleika okkar og heim okkar alvarlega.
Það kallar okkur að jötunni, þar sem hið guðlega barn er reifum vafið og við fáum að vita og erum minnt á það á hverju ári, aftur og aftur, að við erum sífellt að endurfæðast og ávallt á upphafsreit. Sem börn Guðs erum við aldrei fastbundin fortíð okkar, vanrækslu okkar og mistökum, sekt og brotnum samböndum. Það er ávallt möguleiki á nýju upphafi. Leiðir opnast þar sem allt virðist lokað, vegir frá hættunni, frá ógninni.
Um leið og við gerum okkur grein fyrir þessu, vex okkur hugrekki til að hefjast handa, af því að við erum ekki ein. Við getum haldist í hendur. Boginn reyr, sem við erum, þá lærist okkur að ganga upprétt.
Þegar jólin koma breyta þau heiminum. Um það vitnar líf okkar og saga. Þau breyta okkur og lífi okkar ár eftir ár. Það er vissulega satt. Hinn skapandi, lifandi Guð, eilífur grunnur alls sem er, forsenda alls tilgangs, verður jarðneskur, maður háður öllum takmörkunum mannlegrar tilvistar eins og við sjálf.
Nú kemur hann einnig til heimsins í okkur, gerir okkur að manneskjum sem geta byrjað að nýju á upphafsreit, hann verður eitt með okkur og skapandi kraftur í lífi okkar.
Jólin eru komin – við höldum upp á ástina sem ber uppi líf okkar. Hlýir straumar hennar eru andstæða þeirra köldu strauma og nöpru vinda sem leika svo oft um þennan heim.
Hver sem við erum og hvernig sem okkur er farið – nú fáum við að reyna djúpt innra með okkur að við höfum ærna ástæðu og hvatningu til þess að treysta umhyggju Guðs og trúa á góða framtíð fyrir okkur öll og heiminn.

Guð gefi þér og þínum, Guð gefi okkur öllum gleðileg Jól!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda.

Gleðileg Jól!

Takið postullegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen