Fyrir 70 árum var haldinn formlegur stofnfundur Kirkjukórs Lágafellssóknar þess er enn starfar. Hann er hinn þriðji í röðinni með þetta heiti. Kannski finnst einhverjum kyndugt að við séum nú hér á Mosfelli að tala um Lágafellssókn, en við skulum þá minnast þess að á árunum 1888 til 1965 var aðeins ein kirkja í allri Mosfellssveit. Hún stóð á Lágafelli. Var reist þar 1888 og vígð í febrúar 1889 og þar með sameinaðar þær tvær sóknir sem verið höfðu í Mosfellssveit frá siðaskiptum á Íslandi, sem gjarnan eru miðuð við ártalið 1550, fyrir 468 árum. Þessar tvær sóknir voru Mosfellssókn og Gufunessókn og þá líka vert að minna á að allt til ársins 1943 náði Mosfellssveit að Elliðaám, en það ár tók Reykjavík eignarnámi þriðjung af landi Mosfellssveitar, sem næst lá norðan Elliðaáa og Elliðavogs. Og úr því ég er kominn út í þessa landafræði langar mig líka að nefna að það sem hét áður Mosfellssveit skipti um nafn 1987 og heitir síðan Mosfellsbær og, já, Mosfellsdalur er í Mosfellsbæ!

En ég átti að tala um kirkjukórinn, sem formlega séð varð sjötugur í gær, 24. nóvember. Með sameiningu Gufunessóknar annars vegar en Mosfellssóknar hins vegar varð til ný sókn í sveitinni, Lágafellssókn, sem á næsta ári verður 130 ára og kirkjuhúsið á Lágafelli líka – það er að segja hinn elsti hluti þess.

Lengi hefur tíðkast það orðalag að syngja messu. Og víst er að sálmasöngur hefur lengi viðgengist við guðsþjónustur, þó hljóðfæraleikur því samfara kæmi ekki til sögu á Íslandi fyrr en á síðari hluta 19. aldar, það er eftir 1850. Og við vitum að ekki voru orgel í gömlu kirkjuhúsunum að Mosfelli og í Gufunesi. En við vitum líka að þegar nýtt kirkjuhús nýs safnaðar var vígt á Lágafelli 24. febrúar 1889 var þar komið orgel. Við vitum líka það hafði verið flutt með báti frá Reykjavík upp í Kollafjörð og flutt þaðan á handbörum heim að Lágafelli. Við vitum meira að segja að annar þeirra sem báru það þangað hét Kristján og var þá bóndi í Helgadal, bæ hér lengra inn í dalnum, en fluttist síðar að Álfsnesi á Kjalarnesi og til að fá svolítið meiri landafræði má bæta því við að Lágafellssókn nær inn í Kollafjarðarbotn, allt að Kollafjarðarkleifum. Hinn burðarmaðurinn mun hafa verið Björn Bjarnarson, afi minn sem þá bjó í Reykjakoti en síðar Grafarholti.

En það er margt sem við vitum ekki. Var spilað á nýja orgelið í nýju kirkjunni á Lágafelli á vígsludaginn 1889? Það fáum við líklega aldrei að vita, þó að ég hafi vissar grunsemdir um það. Eiginlega það fyrsta sem ég hef getað fundið um tónlist á Lágafelli er í minningaþáttum Jónasar Magnússonar sem bjó allan sinn aldur í Stardal á Kjalarnesi. Jónas fór ungur að vinna afbæis undir handleiðslu Guðjóns Helga Helgasonar bónda og vegaverkstjóra sem keypti jörðina Laxnes hér aðeins innar í dalnum og flutti þangað árið 1905. Guðjón og kona hans Sigríður Halldórsdóttir munu bæði hafa verið tónelsk og eitthvað lært á hljóðfæri, Jónas í Stardal segir í þessum endurminningum sínum að Guðjón hafi lært bæði á orgel og fiðlu og einkum var honum hugleikin fiðlan, sem hann er sagður hafa gripið til hvenær sem tómstund gafst. Guðjón lét sér annt um kirkju sína og varð staðarhaldari þar fljótlega eftir að hann kom í sveitina. Um sama leyti kom líka nýr prestur í sóknina, sr. Magnús Þorsteinsson, sem sjálfur lét sér annt um tónlist. Þeir tóku höndum saman og stofnuðu kirkjukór við Lágafellskirkju og þegar Guðjón á annað borð gat komið því við að sækja guðsþjónustu lék hann ævinlega með söng á fiðlu sína.

Vert er að rifja upp að á þessum árum var ekki messað vikulega. Líklega mánaðarlega um vetur fyrir utan hátíðamessu um jólin, en sjaldnar á sumrin.

Fleira fólk frá Laxnesi hefur komið að tónlist á Lágafelli. Í viðtali fyrrverandi sóknarprests, sr. Bjarna Sigurðssonar, sem birtist í Safnaðarbréfi Lágafellssóknar árið 1990, hefur hann orðrétt eftir syni Guðjóns, sem var víðfrægur fyrir bókaskrif undir nafninu Halldór Kiljan Laxness: „Faðir minn kenndi mér að handleika bæði fiðlu og orgelharmóníum frá blautu barnsbeini. Ég var hafður til að spila við messugerðir í Lágafellskirkju þegar ég var 12 ára. Embættið var ekki erfitt hjá mér. Kirkjusókn var dræm.” Halldór var fæddur 1902 svo þetta hefur verið 1914. Síðar var Sigríður systir hans formlega organisti um skeið.

Með fráfalli Guðjóns í Laxnesi 1918 virðist kórinn líka hafa dáið. Næstu árin er eilífur vandræðagangur með organista allt þar til Hjalti Þórðarson á Æsustöðum tók við starfinu árið 1927, þá 17 ára gamall. Hann gegndi því svo í 45 ár, farsæll, vinsæll og virtur.

En þetta með kórinn. Nú ætla ég að leyfa mér að lesa kafla úr óbirtum endurminningum Hreiðars bónda sem bjó á nokkrum bæjum í Mosfellssveit, síðast og líklega lengst kenndur við Hulduhóla. Ástæða þess að ég hef aðgang að þessum endurminningum er sú að Hreiðar var faðir minn og þessar endurminningar eru í minni vörslu.

1930 var stofnaður kór við kirkjuna og söng hann um tíma við messur, en fljótt liðaðist hann þó sundur. Í mörg ár var enginn skipulegur söngur við messur, stundum enginn, aðeins spilað á orgelið. Nú var vitað að söngkraftar voru nógir innan sóknarinnar, það vantaði bara samtök og forystu. Svo var það árið 1948 að við Þorlákur (Dalli) í Álfsnesi – hann var þá nýbúinn að eignast jeppa – fórum einn dag um alla sóknina og heim á flest heimili til að reyna að fá fólk til að syngja við messur. Flestir tóku þessu vel og árangurinn var sá að það var stofnaður söngkór við kirkjuna skömmu seinna, með stjórnarkosningu og tilheyrandi. Síðan hefur söngkór starfað við kirkjuna.

Gaman að skjóta því hér inn að Dalli í Álfsnesi, sem hér er nefndur, var sonur þess sem bar fyrsta orgel Lágafellskirkju við annan mann ofan úr Kollafirði heim að Lágafelli.

Þessi ferð þeirra vinanna, pabba og Dalla, var farin þetta sumar að afloknum slætti. Skömmu síðar var hópurinn kallaður saman heima á Hulduhólum. Þar voru tvær samliggjandi stofur sem þótti allboðlegt húsnæði. Foreldrar mínir áttu stofuorgel sem ég man að Hjalta organista þótti heldur lítið; það spannaði aðeins fjórar áttundir. Hinn kosturinn var að hafa þessar æfingar uppi í kirkju en hún var á þessum tíma óupphituð, aðeins einn vangæfur kolaofn og þegar best lét tók nokkura klukkutíma að hlýju frá honum færi að gæta um húsnæðið allt. Þó mun það hafa verið gert í bland, að minnsta kosti fram að hinum formlega stofndegi miðvikudaginn 24. nóvember 1948, sem haldinn var í kirkjunni. Í fundargerð segir að þar hafi verið sunginn sálmur áður en fundi var slitið. Enginn veit hvaða sálmur.

Hvort eiginleg messa hefur verið haldin með hinum nýstofnaða kór fyrr en á jólum er mér til efs.

En kórinn hefur lifað fram á þennan dag og sinnir þeim tilgangi sínum að „syngja við kirkjuathafnir í Lágafellssókn og við önnur tækifæri ef ástæður eru til”, eins og segir í lögum kórsins. Félagar gera líka ýmislegt saman sér til gamans, fara í leikhús og ferðalög styttri eða lengri, þar með talið til útlanda þegar tök hafa verið á og þá gjarnan látið í sér heyra, frá Winnipeg í vestri til Rómar í austri og völdum stöðum þar inn á milli.

Misvel hefur gengið að manna kórinn, sérstaklega karlaraddir, enda þykja kirkjukórar púkalegir eins og sést meðal annars af því að nú þykir fínna að tala um sönghópa heldur en kirkjukóra. Persónulega er ég á annarri skoðun. Ég byrjaði formlega að syngja með þessum kór árið 1955, þá 17 ára, og hef verið viðloðandi með nokkrum mislöngum hvíldum síðan. Til þeirrar þátttöku liggja margar ástæður. Félagsskapurinn kannski ein fremsta ástæðan. Svo þykir mér kirkjutónlist almennt falleg og ánægjulegt að fá að vera hluti af henni. Ég hef verið í öðrum kórum, sumum með fín nöfn, sem æfa og æfa heilu veturna en syngja ekki fyrir tilheyrendur nema sára sjaldan, kannski aðeins eina tónleika eða tvenna á vori þar sem fáir koma að hlusta nema kannski makar kórfélaga. Kórar sem okkar æfa að jafni einu sinni í viku og flytja þá söngskrá í næstu messu. Sumum, sem ekki hafa sjálfir reynt, finnst þetta hljóta að vera bindandi. Vissulega getur farið svo, sérstaklega ef mjög fámennt er í einstökum röddum, en allmennt séð er hægt að hagræða eftir samkomulagi og þegar manni líður vel í tilteknu samfélagi verður það ekki kvöð að mæta þegar á þarf að halda heldur sú eðlilega tilhlökkun sem fylgir því að hitta vini sína og eiga við þá samfélag.

Við megum heldur ekki gleyma því að tónlistin er ekki síðri þáttur í helgihaldi en ritningarlestrar og ræðuhöld, aðeins öðru vísi fram flutt. Svo ég tali aftur á persónulegum nótum get ég nefnt að á þeim tímabilum sem ég hef ekki verið í kirkjukór hef ég gjarnan farið í kirkjur annarra sókna, jafnvel annarra kirkjudeilda en þjóðkirkjunnar, einkum til að hlýða á tónlistina sem þar er flutt. Sumt kunnugleg sálmaverk, önnur ekki, en alltaf til að njóta þeirra hughrifa sem falleg tónlist veitir. Minnist þess er maður mér nákominn var jarðsettur frá Hruna fyrir um 35 árum, að í upphafi athafnarinnar ávarpaði organisti og söngstjóri kirkjunnar viðstadda og gat þess að hinn látni hefði átt sér þá von að allir í kirkjunni tækju undir sálmasönginn – og í röddum ef þeir gætu. Á eftir sagði hann mér að hann hefði á köflum átt erfitt með að gleyma ekki að spila á orgelið, það hefði verið svo gagntakandi að heyra fjölraddaðan sönginn óma allt í kringum sig, um allt kirkjuhúsið.

Ég skildi það vel. Gat þess áðan að ég hefði byrjað að syngja með þessum kór þegar ég var 17 ára. Sumarið eftir var landsmót ungmennafélaga haldið á Þingvöllum. Þar var messað undir beru lofti í yndislegu veðri á sunnudeginum. Safnað var saman kirkjukórum af stóru landsvæði, frá Snæfellsnesi suður og austur um land allt að Jökulsá á Sólheimasandi, nokkur hundruð manna kór. Messan endaði á þjóðsöngnum og mér fannst þetta svo tilkomumikið, þar sem ég var einn söngmanna í þessum  tröllaukna kór, að ég steingleymdi að ég átti líka að vera að syngja, bara stóð þarna uppnuminn og þurrkaði mér um augun!

Þó ég sé nú kominn á níræðisaldur veit ég að mörg ykkar tilvonandi fermingarbarna hugsið ykkur að eftir veturinn í vetur þurfið þið aldrei aftur að koma í kirkju. En skoðiði þetta kannski aðeins betur. Prófiði að raula með lögin sem sungin eru. Þau eru flest auðlærð. Hlustiði á hvernig ykkar eigin raddir falla saman við hljómana í kringum ykkur. Ef þið leyfið ykkur að slaka á og ganga inn í þennan samhljóm er ég viss um að þið eigið eftir að koma aftur ekki svo löngu eftir ferminguna að leita að því hvort sá friður sem kirkjutónlistin getur fært  laumast ekki til ykkar aftur.

Og komið svo kannski sjálf að prófa. Í kór eða sönghóp. Kammerkór eða hvaða skrautnafn sem honum hefur verið valið. Eftir því hvað hentar.