2. sunnudagur í föstu (Litur fjólublár)
Lexía: 1Mós 32.24-30
Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“

Pistill: Jak 5.13-16
Líði nokkrum illa ykkar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng. Sé einhver sjúkur ykkar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar. Játið því hvert fyrir öðru syndir ykkar og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.

Guðspjall: Matt 15.21-28
Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“
En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“
Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“
Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“
Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“
Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Prédikun 13. mars 2022 Lágafellskirkju

Náð sé með þér og friður, frá Guði skapara vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Arsal var hrygg í hjarta er hún leit á veika dóttur sína… Dóttirin engdist til af hita og verkjum og var greinilega í miklum sársauka… Það hlutu að vera illir andar sem ásóttu hana svona og kvöldu… Arsal snéri sér við áhyggjufull og kraup enn og aftur niður á moldargólfið, frammi fyrir leirstyttunum af guðunum sínum og bað ákaft til þeirra í angist…

Eftir þónokkra stund á bæn ákvað hún að nú dygði ekkert minna en að færa frjósemisguðinum Baal aðra fórn og slátra handa honum síðasta alifuglinum sem fjölskyldan átti… Þá hlaut hann loks að bregðast við og gera eitthvað…

Eða var kannski ekki rétt fórna til Baals núna…? Baal var frjósemisguð og sá aðallega um að tryggja mannfólkinu regn á réttum tíma… Dóttir hennar gat jú talist gjöf frá frjósemisguðinum. Var það ekki hann sem tryggði frjósemi og barneignir í öllu Kanaans landi…? Því hlaut hann einnig að vera þess megnugur vernda líf dóttur hennar…

Eða hvað…? Átti Arsal kannski fremur að færa fórn sína til stríðsgyðjunnar Anath, systur Baals…? Því…, þurfti ekki að heyja stríð gegn þessum illu öndum sem herjuðu á dóttur hennar…? Arsal var nú ráðavillt og að niðurlútum komin. Hvað gat hún gert…? Hún fann áhyggjurnar hellast yfir sig.

Kannski var hennar yndislega og ljúfa dóttir að fara að deyja….

Ef til vill voru vangaveltur kanversku konunnar í guðspjalli dagsins eitthvað á þessa leið…, áður en einhver kom til hennar og sagði henni frá því að það væri kominn kraftaverkamaður í hennar heimabyggð, Týrus og Sídon. Sá væri þó reyndar af gyðingaættum en hann gat læknað hverskyns mein, eða svo sagði fólkið…

Konan hafði svo sem engu að tapa…, líf dóttur hennar var í húfi. Hún var því til í að prófa allt…

Kannski hugsaði konan í fyrstu: „Æ, einhver Gyðingur! Gyðingar, sem töluðu alltaf um Kanaansland sem sitt fyrirheitna land. Sögðu að Guð hefði gefið sér það er þeir komu úr ánauðinni í Egyptalandi með einhverjum Móse spámanni fyrir um 1300 árum síðan… Þessir Gyðingar, með sína óþolandi landgræðgi alltaf hreint!“

En líf dóttur hennar var í húfi…

Viðbrögð Jesú við bón þessarar konu hafa valdið mörgum biblíutúlkendum hugarangri… Því í fyrstu virðist sem Jesús vilji bara lækna sitt fólk Gyðinga og enga aðra… Nánast eins og konan sé fyrir honum óhrein og óverðug… Jesús segist bara vera sendur til týndra sauða af Ísraelsættkvísl…

En samt vitum við að önnur ummæli Jesú endurspegla ekki neina þjóðernis- eða kynþáttarhyggju af hans hálfu. Jesús hafði t.a.m. sagt fylgjendum sínum söguna af miskunnsama Samverjanum… Í þeirri dæmisögu var öllu snúið á hvolf… Gyðingaprestur og fræðimaður, sem hefðu framar öðrum átt að koma til hjálpar, brugðust þar og snéru baki við nauðstöddum og illa slösuðum sambróður sínum… Á meðan var það hinn fyrirlitni Samverjinn sem kom til bjargar og reyndist sannur náungi hinum nauðstadda manni.

En Samverjar voru fyrrum Ísraelsmenn sem höfðu blandast öðrum þjóðum einhverjum öldum fyrir Krist og tekið að tilbiðja þeirra fjölmörgu heiðnu guði. Þeir höfðu einnig deilt um t.t. landssvæði við Gyðinga og voru því hataðir af þeim.

Þeir Gyðingar og fylgjendur Jesú, sem sáu Jesú sem messías þann er spáð hafði verið fyrir um að myndi koma, vissu líka að Jesús var sendur sérstaklega til að frelsa lýð sinn Ísrael…

En varla átti hann þá að lækna einhverja synduga fjölgyðistrúandi Kanverja…?

Kanverjar trúðu ekki einu sinni á Jahve Guð skaparann, hinn eina sanna Guð Gyðinga, heldur trúðu Kanverjar á marga guði eins og frjósemisguðinn Baal og stríðsgyðjuna Anath. En það var stórt brot á fyrsta og æðsta boðorði Guðs: „Ég er Drottinn Guð þinn og þú skalt ekki aðra guði hafa.“

Varla færi þá Jesús að lækna þetta óhreina fólk?

En Jesús vissi hug gyðinglegra fylgjenda sinna og hann vissi úr hvaða umhverfi kanverska konan kom. Hann vildi því kanna skilning hennar..

Hann segir því við hana að ekki sé við hæfi að taka það brauð sem ætlað er börnum Guðs og kasta því fyrir hunda…! Það er… að færa náð og lækningu Guðs, fólki sem hefur ekki skilning á því hver Guð er og mögulega ekki einu sinni vilja til að þekkja hann eða virða…

Jesús vildi vera viss um að konan skyldi hvaðan sú náð og lækning kom sem hún var að óska eftir… Þetta kraftaverk yrði ekki Baal að þakka og ekki Anath eða neinum öðrum kanverskum guði.

Þetta yrði lækning frá Guði Ísraels, Jahve!

Þá er eins og að kanverska konan taki að skilja… Hún svarar þá Jesú af einstakri speki, dýpt og skilningi og segir þessi frægu orð: „Þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“

Jesús varð svo hugfanginn af svari hennar, því hún skildi greinilega…

Hún vissi og skildi að Guð Ísraels, hlyti að vera hinn eini og sanni, góði gjafari og skapari alls, fyrst hann einn gat gefið lækningu… Og þar með hlaut sú blessun að geta borist áfram og „hundarnir“ sem ekki höfðu enn þá fullan skilning á því hver þessi Guð var…, þ.e. hin sem ekki voru Gyðingar…, fengið að njóta blessunar líka.

Jesús sjálfur vissi alltaf að köllun hans og hlutverk átti að ná til allra jarðarbúa. Hann hafði sagt við Nikódemus…. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“  

Jesús svaraði því kanversku konunni: „Kona, mikil er trú þín… Verði þér sem þú vilt.“ Og við það læknaðist dóttir hennar.

Þarna sáu líka lærisveinarnir, sem allri voru Gyðingar, að náð Guðs og fyrirheiti áttu ekki bara við þá eina… Eflaust hneykslaði þessi góðvild Jesú marga af þeim Gyðingum sem þarna voru.

En Jesús átti það til… að hneyksla fólk…

Fjölmargar sögur Nýja testamentisins endurspegla þessa breyttu hugsjón sem kom með Jesú, að blessun Guðs, fyrirheiti og boð um náungakærleik, átti ekki bara við um Gyðinga heldur allt fólk. Við vitum því í dag að Guð elskar allt fólk, hvert sem þjóðernið, stétt, kynþáttur eða kynið er. Hann vill leiða alla til sín… Þess vegna sendum við kristniboða út í heim að boða náð og kærleika Guðs. Og þess vegna erum við hér!

En við mannfólkið eigum það samt til að setja fólk í fyrirfram  ákveðin hólf. Erum búin að skipa ákveðna hópa í einskonar réttir í huganum og ákveða hver tilheyrir hverjum og hver er verðugur hvers…

Ef einhver þjóðarleiðtogi vill miskunnarlaust stríð gegn nágrannaþjóð, þá er allt í einu öll þjóðin orðin vond og miskunnarlaus eins og hann.

Mér var þannig sjálfri brugðið er ég las fréttir af því að skemmdir hefðu verið unnar á bænahúsi Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar hér á Íslandi, í kjölfar árásar Rússa inn í Úkraínu…

Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi er síður en svo stuðningsaðili þessa stríðs… Ég hef hitt Tímor, prest rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og hann er einlægur talsmaður friðar og kristinna gilda um náungakærleika meðal allra manna. Hann hefur sjálfur lent í því að vera fangelsaður og sætt ofsóknum fyrir trú sína af rússneskum yfirvöldum, á þeim tímum sem kristin trú var alfarið bönnuð í Rússlandi.

Þó Pútín hafi verið vinveittur Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og leyft henni að starfa undir sinni vernd, vita það allir og sjá sem til þekkja að hann er enginn boðberi kristinnar trúar og gilda… „Af ávöxtunum munuð þið þekkja þá,“ sagði Jesús eitt sinn er hann vildi leiðbeina lærisveinum sínum og sýna þeim að orðin tóm duga ekki fyrir Guði. Við þurfum líka að ganga fram í náungakærleika og friði við alla menn.

En þá sjáum við aftur þetta hugrekki og óttaleysi sem trúin okkar gefur. Tímor gekk ekki af trúnni í ofsóknunum á sínum tíma… Það er enginn ótti í elskunni segir Jóhannes postuli Jesú í einu bréfi sínu og ég þreytist seint á að hafa þau orð hans eftir.

Við finnum það sjálf gagnvart þeim sem við elskum, að við getum nánast óttalaust varið þau og staðið með þeim í gegnum allskyns mótbyr og erfiðileika.

Kanverska konan fann líka þennan brennandi kærleika til dóttur sinnar. Kærleika sem gefur óttaleysi… Hún sem var bara kona og kanversk að auki… Hún vissi að Gyðingar vildu almennt ekkert hafa með hana og hennar fólk að gera… Henni gat mætt fyrirlitning, háð og spott fyrir þetta frumkvæði sitt að leita til Jesú eftir hjálp.

En hún elskaði dóttur sína veiku meira en svo að hún færi að óttast… Hún gekk fram í brennandi kærleika og þorði í honum að ávarpa Jesú, sem síðan svaraði henni á einstaklega krefjandi máta…

Hún gafst samt ekki upp… Mögulega vildi Jesús líka finna, að hún væri að leita til hans af því að hún elskaði svo mikið… Jesús starfaði nefnilega einungis í þágu kærleikans…

Þegar okkur mæta erfiðileikar og áskoranir er gott að hafa þetta hugrekki, þessa þrautseigju og þennan kærleika kanversku konunnar í huga… Það er í slíkum kærleika sem við fáum styrkinn til þess að halda áfram að berjast… Að knýja á um breytingar til góðs. Hvort sem um er að ræða baráttu fyrir heimsfriði eða einfaldlega líkn og lækningu og réttlæti til handa einstaklingi.

Stundum þurfum við að leita innra með okkur eftir orðum sem hæfa í hjartastað, orð sem knúin eru áfram af visku sem felur í sér einhvern sannfæringarkraft til góðs.

Baráttan til góðs er enda best háð með orðum, sprottnum út frá mannskilningi, visku, hugrekki og kærleika. Það er aðeins með þeim orðum sem vænta má ávaxta friðar og kærleika.

Því biðjum við þess að kærleikur Guðs nái að snerta hjörtu allra manna, háttsettra sem annarra, svo að ávextir friðar fái að skjóta rótum, vaxa og dafna um heim allann.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.   Amen.

(Höf. Bryndís Böðvarsdóttir guðfræðingur)

Bogi Benediktsson

21. mars 2022 12:52

Deildu með vinum þínum