Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Síðustu daga hefur mér auðnast að ganga upp í eitt af fellunum hér í Mosfellssveit til berja, eins og væntanlega fleirum bæjarbúum. Lyngið er blátt og svart af berjum og ylur sólar vermir svo ilm og blómangan berst að vitum manns frá fallegu beitilyngi og öðrum gróði. Með bakið bogið og endann upp í loftið er gott að finna yl sólar leika um sig. Maður er rifinn burtu úr erli og önnum dagsins, er eitt með náttúrunni og gleymir öllu í kringum sig um stund.

Sköpun Guðs er órofa heild – hvað væru berin án mannsins eða fugla himinsins sem hvorir tveggja kunna að meta þau að verðleikum? Hvað væri ylur sólar og væta regndropanna ein og sér ef þeir snertu ekki við neinu, féllu ekki til jarðar í frjóa mold þar sem frækorn bíða þeirra, svelgja þá í sig, tútna út og ryðjast upp úr moldinni, opna sig og springa út og stynja af unaði, svo ég noti orðfæri Biblíunnar, þar sem á einum stað segir ,,sköpun Guðs stynur“?

Undursamleg er dýrð Drottins sem blasir við okkur í umhverfi og náttúru þessa dagana, þetta sumarið sem nú er tekið að halla.

Náð Guðs er ótæmandi lind, hún er okkur að kostnaðarlausu og á það erum við minnt í öllu því góða sem okkur hlotnast.

En við tökum þessu öllu oft sem sjálfsögðum hlutum, að því að þetta kemur alltaf til okkar aftur og aftur, ár eftir ár án þess að við gerum nokkuð. Sólin og himininn, berin bláu og grasið græna eru alltaf til staðar og þar getum við gengið, bograð og beygt okkur niður og fundið ylinn af sólinni – já, auðvitað!.

Það er undur að fá heyrnina á ný eftir að hafa verið heyrnarlaus.

Það er undur að geta talað eftir að maður hefur verið mállaus.

Það er undur að geta séð eftir að maður hefur verið blindur.

En það er líka undur að geta hlustað, talað og séð, þrátt fyrir að hafa aldrei verið heyrnalaus, mállaus eða blindur.

Við gætum hvenær sem er lent í slysi eða fengið sjúkdóm sem rændi okkur skynfærum okkar eða jafnvel lífi og þrátt fyrir það erum við ekkert sérstaklega að velta lífinu fyrir okkur sem undri eða að það sé undursamleg gjöf.

Við tökum það sem svo sjálfsagðan hlut að geta hlustað, talað eða séð að við nennum næstum því ekki að nota skynfærin.

Það væri virkilega illa fyrir okkur komið ef við værum eins og þreyttu heimilislausu karlarnir sem hittust og annar sagði: ,,Jæja nú rís sólin upp.“  Og hinn svaraði: ,,Að hún skuli nenna því!“

Á þessu sumri hitti ég konu á mínum aldri. Við gengum saman leiðina á milli Þingvalla og Skálholts.

Þetta voru ca. 42 kílómetrar sem við gengum á tveim dögum í hóp með öðrum og var gist á Laugarvatni eina nótt, áður en við gengum síðasta hluta leiðarinnar og sameinuðumst kirkjugestum á Skálholtshátíð. Á fyrri hluta leiðarinnar höfðum við spjallað örlítið saman og þegar við komum í náttstað atvikaðist það þannig að við lentum í herbergi saman. Við vorum ekki búnar að spjalla lengi áður en ég komst að því að hún hafði gengið flest fjöll á Íslandi, þekkti hvern tind og dal, hafði gengið Sprengisand á gönguskíðum að vetri, yfir Vatnjökul einnig, farið í pílagrímagöngur í fleiri löndum o.fl. – ég var full undrunar og algjörlega heilluð – þvílík atorka og kraftur.  Áður en við gengum til svefns bað hún mig um að aðstoða sig – hvort ég gæti hjálpað henni með að plástra eina tána sem hún hafði fengið skaða á í síðustu löngu pílagrímagöngunni í Danmörk.

Mér var það ljúft . Á meðan ég bograði yfir henni, lagði smyrsl á og grisju og plástur yfir, sagði hún mér frá því, að fyrir nokkrum árum var hún greind með augnsjúkdóm sem gerir það að verkum að hún hefur tapað sjón og mun að lokum verða blind. Núna gæti hún ekki séð tána greinilega og því ekki gert nægilega vel að sárum sínum. „En ég get gengið“, sagði hún ,,séð útlínur, fólkið nokkurn veginn sem ég er með og með stafnum kemst ég áfram, nota öll mín skynfæri og safna upplifunum. Ég má engan tíma missa til að sjá: náttúruna, annað fólk, andlit, liti, fugla – áður enn allt verður dimmt. Ég er að safna.“

Já – hún er að safna í forðabúr fyrir þann hluta ævinnar sem hún mun eiga eftir ólifað. Hún vill halda fast í allar fallegu myndirnar af heiminum sem hún hefur séð og bæta við nýjum myndum á meðan enn er tími.

Hún horfði og sá með slíkri ákefð og einbeitingu sem við getum ekki ímyndað okkur.

Nema þá kannski einna helst ef við litum um öxl og minntumst þess tíma þegar við vorum logandi ástfangin og máttum ekki sjá af elskunni eitt augnablik.  Þá sáum við með ákefð.

Stundum kemur það samt fyrir að fólk sem hefur séð og elskað hvert annað í lengri tíma, fer að þykja sem því standi á sama um hvort annað. Og þegar það er spurt til atvika dagsins –  þá er svarið: ,,Tja – það hefur svo sem ekkert skeð í dag – ég hef ekki hitt neinn“ og þó hafði makinn, sem viðkomandi þekkir svo vel, verið heima allan daginn.

Til að byrja með gat maður ekki vaknað nógu snemma til að sjá elskuna sína, en einn daginn var maður allt í einu orðinn bæði blindur og heyrnalaus gagnvart henni eða honum.

Einu sinni voru tvær nágrannakonur sem hittust og önnur segir: „Í upphafi hjónabands okkar, vakti ég hann hvern einast morgunn með kossi!“ ,,En hvað gerir þú núna?“ spyr hin konan. ,,Ekkert – hann er búin að fá sér vekjaraklukku.“

Hversdagsleikinn, vaninn getur gert okkur heyrnalaus, mállaus og blind.

Þá erum við farin að taka maka okkar, okkar nánustu, lífið allt sem sjálfsagðan hlut.

Og þó – við höfum allt frá hruni efnahagskerfis landsins svo sannarlega verið minnt á það daglega að svo er ekki, að við getum ekki tekið margt í tilverunni sem sjálfsagðan hlut eða öruggan. Undanfarna daga hefur kastljósi fjölmiðlanna verið beint að kirkjunni og mál rifjað upp er varðar fyrrverandi biskup. Nýr vitnisburður um kynferðislegt ofbeldi hefur verið gerður opinber. Og maður spyr sig: ,,Hvenær verður hlustað á litlar stúlkur, unglingsstúlkur, fullorðnar konur, sem hafa orðið fyrir þeirri skelfilegu reynslu að á þeim var brotið?“

 

Ef svo fer að vitundin um þá dýrðargjöf sem lífið er dofnar, sljóvgast skilningur okkar á því sem gerist umhverfis okkur og næmni okkar gagnvart undri lífsins hverfur, þá er viðbúið að allt verði innantómt og leiðinlegt.

Þegar þannig er komið fyrir okkur getur farið svo að við skellum skollaeyrum við hörmungum, hremmingum og ofbeldi sem meðsystur okkar og –bræður verða fyrir, snúum okkur undan, yppum öxlum og hugsum – lífið breytist aldrei.

Danski guðfræðingurinn og skáldið Jóhannes Møllehave, segir á einum stað: ,,Þú útilokar þig frá því að lifa lífinu lifandi, ef þú hafnar hrópi hins glaða sem kallar á þig og vill deila gleði sinni með þér, hrópi hins örvæntingafulla, hvort sem hann er meðvitaður um það eður ei, sem hungrar eftir því að finna samkennd náunga síns, kærleika og skilning.

Vertu ekki hræddur við þau sem hafa völdin, þau geta ekki gert kærleika þinn að engu. Hús geta þau látið rífa niður eða brenna, en kærleikurinn er ekki hús!“

Við þurfum að hlusta vel, sjá það sem miður fer og tala af einbeitni fyrir umbótum, berjast fyrir breytingum á því sem er í mannanna valdi að breyta og forða fólki og náttúru frá eyðileggingu eða slysum. Berjast fyrir fötluðu börnunum í Reykjadal, fyrir hag allra barna, berjast fyrir ellilífeyrismálum aldraðra, grunnþjónustu samfélagsins, skólum, heilbrigðisþjónustu,  þjónustu kirkjunnar, svo að óréttlæti og skerðing sem getur valdið óbætanlegum skaða eigi sér ekki stað, verði ekki veruleiki sem blasir við okkur – við þurfum að standa vörð.

Það sem var afgerandi í lífi  Jesú, var einmitt það að hann lét ekkert fara fram hjá sér sem kallaði á hann, allt frá hinum glaða sem vildi deila gleði sinni með honum, til hins sjúka og örvæntingafulla. Þegar hann gerði kraftaverk og boðaði Guðs ríki sagði hann, að í Guðs ríki er það kærleikurinn sem ríkir, ekki ömurleiki og eyðilegging.

Hann staldraði við hjá öllum þeim sem kölluðu á hann. Blindum og heyrnarlausum, hjá þeim sem samfélagið hafnaði eða vildi ekki sjá eða viðurkenna eða hlusta á og voru afskiptir. Hann sá með augum kærleikans, og sá þar með heiminn í nýju ljósi. Nákvæmlega eins og Guð sá heiminn á morgni sköpunarinnar og sá að það sem hann hafði skapað var gott.

Þess vegna sögðu þeir ,,Allt gerir hann vel…“

Orð hans koma til okkar í dag til þess að opna augu okkar og eyru – og að læra að sjá með augum kærleikans og öðlast von.

Birta og ljós Guðs lýsir upp tilveru okkar. Ekkert er of fátækt eða of lítilfjörlegt eða of  vonlaust – hann lyftir öllu upp í ljósið til verðleika.

Það er undur að geta séð, heyrt og fundið til.

Það er undur að vera manneskja.

Þess vegna er þessi dagur blessaður og við skulum gleðjast og fagna lífi okkar og því að hann  lýsir á okkur, yljar fram- og bakhluta líkama okkar inn að hjartarótum, vekur til lífs og opnar augu okkar, eyru og munn og leysir okkur og lyftir.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi

Mark: 7:31-37