Laxnesskvöld Kirkjukórs Lágafellssóknar er að festast í sessi sem árviss viðburður hér í sveitinni.
Þetta er í fjórða skiptið sem Kirkjukórinn stendur fyrir slíku, hið fyrsta var árið 2011 við glimrandi undirtektir Mosfellinga.
Kirkjukórinn fór svo með dagskrána norður til Akureyrar liðið vor, semsé veisla í farángrinum!
Þegar opinberaðar voru áætlanir um haustmenningarhátíð í Mosó var því aldeilis upplagt að blása enn til Laxnesskvölds – og í þetta í hátíðarbúningi !
Að venju er mestallt efnið helgað eftirlætisbók organistans, Heimsljósi og kórfélagar lesa viðeigandi aðdraganda söngvanna, úr þessari dásamlegu bók.
Auk kirkjukórsins koma fram söngvararnir Diddú og Einar Clausen, á fiðlu leikur Matthías Stefánsson og á stokk stíga aðal Laxness-spekúlantar sveitarinnar,Bjarki Bjarnason rithöfundur og Sr Gunnar Kristjánsson prófastur á Reynivöllum.
Bjarki frumflytur erindið Pétur Þríhross og sr Gunnar fjallar um Ólaf Kárason sem jesúgerving í Heimsljósi  – en það var efni doktorsritgerðar sr Gunnars.
Í lokin heyrum við sjálft skáldið syngja sína eigin Maístjörnu á sinn einstaka hátt og allir taka svo undir í tango- stemmningu.
Miðvikudagskvöldið 29. október kl 20, aðgangur er ókeypis og viðburðurinn er styrktur af Mosfellsbæ.

Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

28. október 2014 14:52

Deildu með vinum þínum